Fara í efni

Hópbílar og Hagvagnar fá alþjóðlega umhverfisvottun

ISO14001
ISO14001

Á dögunum fengu Hópbílar og Hagvagnar afhenta viðurkenningu til staðfestingar á því að umhverfisstjórnun þeirra uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í ISO 14001 alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum. Aðeins 3 önnur fyrirtæki hérlendis hafa náð þessu markmiði og eru Hópbílar og Hagvagnar fyrstu ferðaþjónustu- og samgöngufyrirtækin.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti vottorðin við hátíðlega athöfn í starfsstöð fyrirtækjanna í Hafnarfirði. Ráðherra sagði Hópbíla og Hagvagna vel að viðurkenningunni komna því fyrirtækin væru búin að innleiða hjá sér vottunarhæft umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO-14001 sem væri mjög kröfuharður staðall. Sturla bauð Hópbíla og Hagvagna velkomna í hóp þeirra fyrirtækja sem væru í fararbroddi í umhverfismálum og ánægjulegt að sjá þann árangur sem náðst hefur í því starfi. Sturla sagði stjórnendur Hópbíla og Hagvagna vera framsýna og að fyrirtækið og starfsmenn væru öðrum fyrirtækjum hvatning til góðra verka.

Árangur af markvissu starfi
Í frétt frá fyrirtækjunum kemur fram að Hagvagnar og Hópbílar hafa unnið markvisst starf á sviði umhverfismála undanfarin ár. Fyrirtækin hafa allt frá árinu 2001 unnið að því að innleiða hjá sér vottað umhverfisstjórnunarkerfi og fengu fyrirtækjaviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, Kuðunginn, fyrir árið 2003.

ISO 14001 vottun felur í sér að fyrirtækin hafa komið á virku umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við alþjóðlega staðalinn ISO 14001. Á Íslandi hafa aðeins 3 fyrirtæki náð þessum árangri hingað til, þ.e. Alcan, Borgarplast og Árvakur (Morgunblaðið).

Umhverfisstjórnunarkerfi Hópbíla og Hagvagna felur í sér að í fyrirtækjunum hefur verið skilgreind umhverfisstefna sem endurskoðuð er reglulega og þegar þörf er á. Til þess að raunverulega sé unnið skv. stefnunni hefur fyrirtækið skilgreint mælanleg markmið t.d. að minnka notkun díselolíu um ákveðið magn og síðast en ekki síst hafa fyrirtækin hrint aðgerðum í framkvæmd til að ná settum markmiðum. Hópbílar og Hagvagnar hafa gefið út umhverfisskýrslu og haldið grænt bókhald þar sem tekinn er saman sá árangur sem fyrirtækin hafa náð í umhverfismálum. Innan fyrirtækjanna er öflug fræðslustarfsemi og fá starfsmenn t.d. fræðslu um umhverfismál bæði í tengslum við eigið starf en sömuleiðis almenna fræðslu um það hvernig þeir geta sýnt umhverfinu og náttúrunni tillitsemi í daglegu lífi.

Hópbílar og Hagvagnar hafa tekið upp vistakstur og sent alla sína bílstjóra á námskeið í vistakstri og hefur umhverfisstjóri Hópbíla einnig tekið virkan þátt í fræðslu um umhverfismál til að hvetja önnur fyrirtæki til dáða á þessu sviði.

Við uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfisins hafa fyrirtækin notið góðs af faglegri ráðgjöf verkfræðistofunnar Línuhönnunar hf og IMG Deloitte, segir m.a. í frétt frá fyrirtækjunum.


Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra
afhenti forsvarsmönnum fyrirtækjanna staðfestingu votunarinnar. Talið frá
vinstri: Jóhann G. Bergþórsson stjórnarformaður, Gísli J. Friðjónsson forstjóri,
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Kjartan J. Kárason framkvæmdastjóri
Vottunar hf.