Fara í efni

Ísland í forystusveit sjálfbærrar þróunar ferðaþjónustu á heimsvísu

Dagana 17.-20. október næstkomandi stendur Alþjóðaferðamálaráðið fyrir ráðstefnu í Tékklandi þar sem fjallað verður um samstarf opinberra aðila og einkageirans í vottun á sjálfbærri ferðaþjónustu. Fyrir forgöngu Ferðamálaráðs Íslands verður þar sérstök kynning á vottun Snæfellsness samkvæmt viðmiðum Green Globe 21.

Markmið ráðstefnunnar er að fjalla um vottun á vöru, fyrirtækjum og áfangastöðum (samfélögum), kanna hvaða kerfi hafa náð árangri og hvort hægt sé að stefna að samþjöppun á markaðnum svo vottunarmerkjum fækki. Þegar hún var fyrst auglýst kallaði Alþjóðaferðamálaráðið eftir umsóknum um kynningu á vottunarverkefnum sem hafa gefið góðan árangur. Ferðamálaráð Íslands, sem stutt hefur undirbúning að vottun GREEN GLOBE 21 á Snæfellsnesi, sendi inn umsókn til ráðsins. Lagði ferðamálastjóri til að verkefnið, sem er stærsta frumherjaverkefni í sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi, yrði kynnt á ráðstefnunni í samvinnu við vottunarsamtökin GREEN GLOBE 21.

Stykkishólmshöfn hefur hlotið hinn
eftirsótta Bláfána frá Landvernd.

Ísland er ekki aðili að Alþjóðaferðamálaráðinu og því var það mikill heiður að verkefni þess skyldi vera valið til kynningar á ráðstefnunni. Samfélagið á Snæfellsnesi samanstendur af sveitarfélögunum fimm, Eyja- og Miklaholtshreppi, Grundarfirði, Helgafellssveit, Snæfellsbæ og Stykkishólmi og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Svæðið hefur nú mætt viðmiðum GREEN GLOBE 21 sem gefur því leyfi til að nota merki GREEN GLOBE 21 á allt kynningarefni sitt. Guðrún G. Bergmann, ein þeirra sem unnið hefur að vottunarverkefninu, mun kynna það á ráðstefnu Alþjóðaferðamálaráðsins ásamt Cathy Parsons alþjóðaforstjóra GREEN GLOBE 21.

Ferðamálaráð lítur svo á að með þessu verkefni sé Ísland að skipa sér í forystusveit sjálfbærrar þróunar í ferðaþjónustu á heimsvísu. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs, og Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi stofnunarinnar, sitja einnig ráðstefnuna og nýta tækifærið til að koma kynningarefni um landið á framfæri.