Fara í efni

Vel heppnuð ferðamálaráðstefna

FMRstefna2004
FMRstefna2004

Um 140 manns sóttu árlega ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands á Kirkjubæjarklaustri. Ráðstefnan tókst vel í alla staði og var góður rómur gerður að þeim erindum sem flutt voru. Þá voru fjórar ályktanir samþykktar.

Íslendingar að ná betri árangri en margir aðrir
Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, setti ráðstefnuna og kom víða við. Rakti hann m.a. verulega aukið umfang ferðaþjónustunnar á síðustu misserum. Benti hann á nokkrar staðreyndir máli sínu til sönnunar, fjölgun ferðamanna, aukið sætaframboð í ferðum til landsins og fjölgun bílaleigubíla. Þá benti hann á stórkostlega fjölgun hjólhýsa og tjaldvagna sem dæmi um aukinn áhuga Íslendinga á ferðum um eigið land. "Nú vitum við það öll að það er ekki vandalaust að heyja þá samkeppni sem er í ferðaþjónustuheiminum. Mörg lönd búa yfir einstakri náttúru, eiga stórbrotna og glæsilega sögu. Engu að síður blasir það við að við Íslendingar erum að ná meiri árangri í uppbyggingu ferðaþjónustu okkar heldur en gengur og gerist um löndin í kringum okkur. Það hlýtur að segja einhverja sögu. Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar hér á landi, mega nágrannar okkar ýmsir þola fækkun ferðamanna. Eru það þó fögur lönd og á margan hátt aðgengilegri hinum stóra heimi. Ástæðurnar eru örugglega fjölmargar en ég ætla að segja það hispurslaust og án allrar hræsni að ég held að aðal gerandinn í þeim efnum sé atvinnugreinin sjálf; íslensk ferðaþjónusta sem hefur einfaldlega staðið sig vel í þessari hörðu alþjóðlegu samkeppni," sagði Einar m.a.

Samstarf mikilvægt
Sturla Böðvarsson ræddi í erindi sínu nokkuð um markaðsmál ferðaþjónustunnar. Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 150 milljónum króna í þennan lið. Til viðbótar kemur fé sem varið verður til Iceland Naturally samstarfsverkefnisins í Bandaríkjunum og þá greindi samgönguráðherra frá því að til skoðunar er að ráðast í sambærilegt verkefni fyrir Evrópumarkað. Þá benti hann á nauðsyn þess að aðilar ynnu betur saman að markaðssetningu "því að öll vitum við að sameinað átak er aflmeira en þegar hver og einn hugsar aðeins um þrönga eiginhagsmuni," sagði Sturla.
Einnig fór ráðherrann í erindi sínu yfir mikilvægi umhverfismála og greindi frá vinnu sem verið hefur í gangi vegna ferðamálaáætlunar en afrakstur hennar verður senn lagður fram. Loks kom hann inn á fjölgun ferðamanna og sagði m.a.: "Eins og sjá má hefur fjölgun ferðamanna hingað til lands verið með ólíkindum. Spár sem taka mið af undanförnum 10 árum sýna að fjöldi erlendra ferðamanna gæti orðið á bilinu sjö til áttahundruð þúsund árið 2015. Þetta eru háar tölur en ég leyfi mér samt að halda því fram að miðað við þann kraft sem býr í íslenskri ferðaþjónustu geti þessi tala átt eftir að verða miklu hærri. Getur það verið! - að eftir fimm góð ár muni okkur takast að tvöfalda þann fjölda ferðamanna sem kemur til landsins í ár? Þessari spurningu þurfum við að svara í áætlunum okkar á næstunni."

Ferðaþjónusta einn öruggast vaxtargeirinn
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var "Efnahagslegt gildi ferðaþjónustu" og það var heitið á meginerindi ráðstefnunnar sem Ásgeir Jónsson, hagfræðingur KB Banka og lektor við HÍ flutti. Ásgeir er annar meginhöfundur skýrslunnar "Flug- og ferðaþjónusta á Íslandi" sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið og kynnt fyrr á þessu ári. Erindi Ásgeirs var í senn yfirgripsmikið og fróðlegt og of langt mál væri að telja upp allt það sem fram kom. Meginniðurstaða Ásgeirs er að þjóðhagslegur ábati ferðaþjónustu er töluverður hérlendis í ljósi þess hve þjóðin er fámenn og þarf að tryggja samgöngunet yfir svo stórt svæði. Þá er þjóðhagslegur ábati ferðaþjónustu mun meiri úti á landsbyggðinni þar sem nýting framleiðsluþátta er verri og fjölbreytni minni vegna fólksfæðar.

Jafnframt hefur mörgum án efa þótt fróðlegt að sjá yfirlit Ásgeirs um vöxt hagkerfisins síðustu 10 ár, þ.e. frá 1993-2003. Vöxturinn á þessu tímabili nemur 40% og þar af er þáttur verslunar, þjónustu veitingahúsareksturs og samgangna langstærstur, 22%, eða rúmur helmingur. Á meðan eru greinar eins og álbræðsla, sjávarútvegur og landbúnaður nánast engu að skila til aukins hagvaxtar. "Ferðaþjónustan virðist - af reynslu síðustu 40 ára að dæma - vera einn öruggast vaxtargeirinn í íslenska hagkerfinu sem miðar áfram með 6% stöðugum vexti," sagði Ásgeir m.a.

Aðrir sem fluttu erindi undir þessum lið voru Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri Oddhóls ferðaþjónustu ehf.; Ingunn Guðmundsdóttir, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Guðrún Bergman, hótelhaldari á Hótel Hellnum. Eftir kaffihlé var síðan komið að erindi Olivier Jacquin og nefndist það "2004-2005 Hotel Industry Trend and Presentation of Rezidor SAS Hospitality". Olivier Jacquin er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Rezidor SAS, sem m.a. er með Radison SAS hótelin innan sinna vébanda, og kom sérstaklega til landsins til að flytja erindi á ráðstefnunni.

Allt inn á vefnum
Líkt og undanfarin ár verða öll erindi og allar umræður frá ráðstefnunni aðgengileg hér á vefnum undir liðnum "Starfsemi". Ávörp formanns Ferðamálaráðs og samgönguráðherra eru þegar komin inn, ásamt glærukynningum af flestum fyrirlestrum. Jafnframt eru komnar þar inn þær ályktanir sem samþykktar voru. Meira efni mun síðan halda áfram að bætast við á næstunni.


Hlýtt á umræður. Í fremstu röð sitja frá vinstri: Olivier Jacquin, framkvæmdastjóri
markaðs- og sölusviðs Rezidor SAS; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Einar Kr.
Guðfinsson, formaður Ferðamálaráðs; Kjartan Ólafsson alþingismaður; Helga
Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í samgönguráðuneytinu; Ragnhildur
Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.