Fara í efni

Opnunarhátíð Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð

Laugardaginn 13. nóvember næstkomandi verður opnunarhátíð Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð í tilefni þess að upplýsingamiðstöðin er nú opin allt árið. Dagskráin hefst kl. 14 með málþingi í Hótel Varmahlíð og kl. 17.00 opnar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra upplýsingamiðstöðina formlega.

Markmið málþingsins er öðru fremur að skapa umræðu um hlutverk og stefnu Upplýsingarmiðstöðvarinnar þannig að hún megi sem best þjóna ferðaþjónustu og íbúum á Norðurlandi vestra. Það verður Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem setur málþingið. Erindi flytja Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands; Jakob Frímann Þorsteinsson, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvarinnar í Varmahlíð; Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar; Guðlaugur Bergmann, ráðgjafarþjónustunni Leiðarljósi og Davíð Samúelsson, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvar Suðurlands. Í lokin verða pallborðsumræður og síðan opnar samgönguráðherra Sturla Böðvarsson upplýsingamiðstöðina með formlegum hætti.

Málþingið og opnunarhátíðin eru öllum opin og er vonast til að sem flestir ferðaþjónustuaðilar og annað áhugafólk um ferðaþjónustu mæti. Í tengslum við opnunarhátíðina er Hótel Varmahlíð með sértilboð á kvöldverði. Skráning á opnunarhátíðina og í kvöldverðinn er í Upplýsingamiðstöðinni s. 455 6161 eða með tölvupósti í netfangið upplysingar@skagafjordur.is Loks má geta þess að upplýsingamiðstöðin er opin virka daga kl. 9-16 og um helgar kl. 13-18.

Dagskrá opnunarhátíðar