Fara í efni

Nýtt kort um gönguleiðir á Akureyri

Akureyri
Akureyri

Út er komið kort sem sýnir nokkrar sérvaldar gönguleiðir á Akureyri. Á kortinu eru sýndar sex fallegar og fjölbreytilegar leiðir um bæinn.

Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar. Gönguleiðakortið mun liggja frammi í bæjarskrifstofunum á Akureyri, í upplýsingamiðstöð ferðamanna, í íþróttamannvirkjum, skólum og víðar. Það er ókeypis. Lengd gönguleiðanna er mjög mismunandi, allt frá 15,8 km leið sem nær frá Kjarnaskógi í suðri og norður að Hengingarklauf við Sandgerðisbót og niður í 1,4 km um syðsta hluta Oddeyrar. Á kortinu kemur fram hvar upplýsingaskilti eru á þessum leiðum, svo og áningarstaðir, bekkir (á sumrin), bílastæði og góðir útsýnisstaðir. Stutt lýsing á hverri leið fylgir.

Gönguleiðirnar eru:

  • Ein með öllu, 15,8 km
  • Skundið, 8,0 km
  • Söguleiðir, 6,0 km
  • Hringsólið, 2,9 km
  • Nonnaslóð, 1,5 km
  • Eyrin, 1,4 km

Markmiðið með útgáfu kortsins er að hvetja bæjarbúa og ferðamenn til útivistar og til að njóta um leið fjölbreytileikans í umhverfi bæjarins, innan og utan byggðar. Starfshópur um útivist vonar að framhald geti orðið á útgáfu gönguleiðakorta fyrir bæinn og að þannig sé stuðlað að meiri útivist, hreyfingu og heilbrigði hjá bæjarbúum og gestum þeirra. Hópurinn hefur starfað á Akureyri síðan í ársbyrjun 2003. Hlutverk hans er að vera Akureyrarbæ og öðrum aðilum til ráðgjafar um allt sem lítur að útivist í bæjarlandinu og setja fram ábendingar um aðstöðu, viðburði o.fl. sem varða útivist í bænum.