Fara í efni

Samstarf hins opinbera og einkageirans um sjálfbærnivottun í ferðaþjónustu

Tjekklandsferd
Tjekklandsferd

-Samantekt eftir WTO ráðstefnu í Tékklandi 18. og 19. október 2004.

Ráðstefnu Alþjóðaferðamálaráðsins (WTO) sóttu rúmlega hundrað aðilar frá tæplega þrjátíu löndum. Var hún haldin í Maríánské Lázné, sem er rómaður gamall baðstaður í Tékklandi, einnig þekktur sem Marienbad. Ráðstefnan var margþætt, enda verið að vinna að nokkurs konar samantekt á vottunarkerfum ferðaþjónustunnar í Evrópu.

Sjálfbær þróun - ábyrgð okkar allra
Á fyrri degi ráðstefnunnar voru haldin framsöguerindi en á þeim síðari störfuðu vinnuhópar. Upphafserindið flutti Eugenio Yunis, yfirmaður sjálfbærrar þróunar í ferðaþjónustu innan WTO. Hann sagði það siðferðilega skyldu þjóða Evrópu, bæði ríkisstjórna og sveitarstjórna, að vinna að sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu, enda væri það í anda þeirrar yfirlýsingar sem þjóðirnar undirrituðu eftir Ríó ráðstefnuna 1992. Hvatti hann jafnframt til þess að sjálfbær þróun ferðaþjónustu yrði vottuð svo hægt væri að treysta á áreiðanleika hennar. Taldi hann fyrirtækin verða að stefna að sjálfbærri þróun í rekstri, því án markvissra aðgerða myndi sú vara sem verið er að selja fljótt spillast og ferðamönnum fækka. Hann taldi það ekki vera fyrirtækjanna að bíða eftir því að ferðamaðurinn kallaði eftir vottun, heldur ættu þau að taka frumkvæðið og bjóða hana.

Ísland í fremstu röð
Á ráðstefnunni var Snæfellsnesverkefnið kynnt í samstarfi við Green Globe 21. Greinilegt er að Ísland er komið vel áleiðis miðað við flestar aðrar þjóðir Evrópu hvað varðar stefnumótun í anda sjálfbærrar þróunar og vottun svæða og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Höfðu ýmsir ráðstefnugestir það á orði að Íslendingar hefðu náð langt í þessum málum. Ísland á greinilega möguleika á að verða leiðandi afl í þessum málum innan álfunnar, einkum og sér í lagi ef stjórnvöld (ríkisstjórn og sveitarstjórnir) fylgja málum fast eftir með skýrt afmarkaðri stefnu.

Green Globe víðtækasta vottunarkerfið
Í kynningu fyrri daginn og í vinnuhópum síðari daginn kom greinilega í ljós að Green Globe 21 er eitt víðtækasta vottunarkerfið sem ferðaþjónustan í heiminum hefur aðgang að. Green Globe 21 hefur útbúið viðmiðunarreglur fyrir 26 greinar ferðaþjónustu, auk þess sem það vottar samfélög (communities) og einstaka áfangastaði ferðamanna (attractions). Því er ljóst að hluti fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu, svo og Snæfellsnes, hefur fylkt sér um öflugt vottunarkerfi. Green Globe 21 er einnig sérstakt að því leyti að það sameinar áherslu á umhverfisstjórnunarkerfi og frammistöðumarkmið sem stuðla að stöðugum úrbótum í átt að sjálfbærri þróun. Þó má áætla að ávallt verði til einhver staðbundin vottunarkerfi þar sem aðstæður geta verið mismunandi.

Mikilvægustu niðurstöður vinnuhópa
Vinnuhópar ráðstefnunnar voru þrír og skiluðu þeir allir niðurstöðum sem verða samræmdar. Eitt atriði var sérlega áberandi í niðurstöðum hópanna. Allir töldu þeir mikilvægast að ríkisstjórnir og sveitarstjórnir gæfu tóninn með skýrt markaðri stefnu í anda sjálfbærrar þróunar líkt og gert hefur verið á Snæfellsnesi í samstarfi við Samgönguráðuneytið/Ferðamálaráð (sveitarstjórnir-ríkisstjórn). Þessi niðurstaða undirstrikar þá miklu framsýni og ábyrgð sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt.

Niðurstöður vinnuhópanna bentu jafnframt til þess að einstaklingar gætu hafið vinnu að vottun, en nauðsynlegt væri að stefna og stuðningur við sjálfbæra þróun kæmi að ofan frá stjórnvöldum, því að eftir höfðinu dansa limirnir. Einn vinnuhópur ráðstefnunnar komst einnig að þeirri meginniðurstöðu að í framtíðinni skyldu öll vottunarkerfi í Evrópu leggja áherslu á sjálfbæra þróun, þ.e.a.s. vistfræðilega, efnahagslega og félagslega þætti - ekki aðeins þann vistfræðilega. Töldu þátttakendur að innan fárra ára yrði umhverfisvottun talin jafnsjálfsögð staðfesting á samfélagslegri ábyrgð og stjörnuflokkun er talin varðandi gæðamál í dag.

Grænþvottur
Grænþvottur, er hugtak yfir blekkingu sem viðhöfð er þegar fyrirtæki eru með sýndarmennsku í umhverfismálum. Ferðafólk verður sífellt meðvitaðra um umhverfismál. Þar af leiðandi er það mikilvægt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að hafa sýnilega og sannfærandi stefnu um sjálfbæra þróun. Í nánustu framtíð má telja líklegt að ferðafólk snúi sér í síauknum mæli til fyrirtækja og svæða sem mótað hafa trúverðuga stefnu og fengið starf sitt að sjálfbærri þróun vottað af óháðum aðila.

Framangreind samantekt er sameiginleg niðurstaða íslensku þátttakendanna á WTO ráðstefnunni en þeir voru:
Arnheiður Hjörleifsdóttir, stjórnarmaður í Félagi ferðaþjónustubænda
Elías Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs Íslands
Guðrún og Guðlaugur Bergmann, Leiðarljósi ehf. ráðgjafaþjónustu í umhverfismálum
Kjartan Bollason, verkefnisstjóri Green Globe 21 við Háskólann á Hólum
Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands
Þorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar

Helstu þættir:

  • Við berum öll ábyrgð á sjálfbærri þróun, einkum og sér í lagi við sem búum í Evrópu en helmingur ferðalaga heims á sér stað í þeirri heimsálfu.
  • Kynningin á Snæfellsnesi og áfanga þess í Green Globe 21 vottunarkerfinu vakti verðskuldaða athygli.
  • Íslendingar þóttu vera framarlega í stefnumótun að sjálfbærri þróun Green Globe 21 er víðtækasta vottunarkerfið fyrir ferðaþjónustuna og jafnframt hið eina sem er alþjóðlegt, ef frá er talinn umhverfisstjórnunarstaðallinn ISO 14001 og Bláfáninn sem einnig er alþjóðlegur en tekur eingöngu til baðstranda og smáhafna.
  • Leiðandi afl ríkisstjórna og sveitarstjórna er mikilvægt til að hægt sé að vinna að sjálfbærri þróun.
  • Ísland er komið vel á veg og því mikilvægt að fylgja málinu fast eftir til að halda forskotinu