Fara í efni

Áframhald kynningarstarfs í Kína

ChinaNationalFlag
ChinaNationalFlag

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að kynna Ísland sem áfangastað fyrir kínverska ferðamenn. Verkefnið er unnið í samstarfi Ferðamálaráðs, sendiráðs Íslands í Kína, Icelandair, Útflutningsráðs, Scandinavian Airline Systems og fleiri aðila.

Markmiðið er að fá Kínverskar ferðaskrifstofur til þess að bæta Íslandi við sem áfangastað í skipulögðum hópferðum þeirra til Norður-Evrópu. Sem kunnugt hefur mikill uppgangur verið í efnahagslífi í Kína og talið að utanlandsferðir Kínverja muni vaxa hröðum skrefum. Þannig séu mikil sóknarfæri fyrir hendi á sviði ferðamála og því mikilvægt fyrir Ísland að komast sem fyrst "á kortið" sem áfangastaður fyrir Kínverja. Í apríl sl. undirrituðu Kína og Ísland svonefnt ADS-samkomulag (Approved Destination Status) og í kjölfarið fengu ríflega 500 ferðaskrifstofur leyfi til þess að skipuleggja ferðir frá Kína til Íslands. Síðan hefur verið unnið áfram að málinu og m.a. kom Kínverski ferðamálastjórinn í heimsókn hingað til lands og átti fundi með Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra.