Fréttir

Áfangaskýrsla um Vatnajökulsþjóðgarð

Nefnd um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls hefur skilað áfangaskýrslu til umhverfisráðherra. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi er að fara yfir og skoða þá möguleika sem til greina koma til stofnunar þjóðgarðs eða verndarsvæða fyrir norðan Vatnajökul m.t.t. þeirra áætlana um landnýtingu á svæðinu sem Alþingi hefur fyrir sitt leyti fallist á. Nefndinni var falið að vinna tillögur að umfangi verndarsvæðis og verndarstigi að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélög, landeigendur, ferðaþjónustuaðila og umhverfissamtök.  
Lesa meira

Málþing um afkomu, samstarf og markaðssetningu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni

Næstkomandi föstudag, 4. apríl, verður á Hótel Selfossi haldið málþing um afkomu, samstarf og markaðssetningu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Málþingið stendur frá kl. 13:00 til 17:00. Það er öllum opið og enginn aðgangseyrir er. Þátttaka tilkynnist til Hildar Claessen á Byggðastofnun í síma 455-5443 eða hildur@bygg.is  
Lesa meira

Ferðamálaráð býður til samstarfs um auglýsingar á íslenskri ferðaþjónustu

Ferðamálaráð Íslands hefur ákveðið að bjóða íslenskum fyrirtækjum til samstarfs um gerð og birtingu auglýsinga sem hvetja landsmenn til ferðalaga innanlands. Um er að ræða hluta af kynningarherferðinni ?Ísland ? sækjum það heim? og er gert ráð fyrir að útlit og efnistök auglýsinga taki mið af því sem gert hefur verið til þessa. Ferðamálaráð hyggst verja 15 milljónum króna til verkefnisins á tímabilinu 15. maí 2003 ?30. apríl 2004. Hér með er auglýst eftir fyrirtækjum sem hafa áhuga á að leggja fram fé á móti Ferðamálaráði og auglýsa þjónustu sína á framangreindu tímabili. Skilyrði er að viðkomandi fyrirtæki sé starfandi í ferðaþjónustugeiranum og reiðubúið að auglýsa í fjölmiðlum sem ná til allra landsmanna. Skipt í 20 hlutaFjármunum Ferðamálaráðs er skipt í 20 hluta; 10 að fjárhæð ein milljón króna og 10 að fjárhæð 500.000 krónur. Lágmarksframlag þeirra sem vilja taka þátt er jafnhá upphæð í hverjum hluta. Hver aðili getur einungis boðið í einn hlut. Samstarfsaðilar verða valdir með hliðsjón af fjárframlögum og fyrirhugðum kynningarverkefnum hvers og eins. Sérstakt tillit verður tekið til verkefna sem höfða til ferðalaga utan háannar á landsvísu. Að uppfylltum þessum skilyrðum verður að öðru jöfnu sá aðili sem leggur til hæst mótframlag á móti Ferðamálaráði valinn til samstarfs. Tekið er við skriflegum umsóknum um samstarf til 30. apríl nk. á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands, Lækjargötu 3, 101 Reykjavík á sértöku eyðublaði  
Lesa meira

Samstarfsverkefni í markaðsmálum erlendis

- rúmar 400 milljónir króna til landkynningar Í byrjun febrúar sl. var auglýst eftir aðilum sem vildu ganga til samstarfs við Ferðamálaráð Íslands í markaðs- og kynningarmálum á fjórum erlendum markaðssvæðum á næstu 11 mánuðum. Nú liggur fyrir hvaða aðila verður gengið til samstarfs við. Eins og fram hefur komið verður á þessu ári varið meiri fjármunum á vegum stjórnvalda til markaðs- og kynningarmála í ferðaþjónustu en áður hefur verið gert á einu ári. Tilgangurinn er að gera þennan þátt enn umfangsmeiri en verið hefur. Ákveðið var að bjóða aðilum að ganga til samstarfs við Ferðamálaráð Íslands í markaðs- og kynningarmálum, innanlands og erlendis og var grundvöllur samstarfsins m.a. að framlag samstarfsaðila yrði a.m.k. jafnt framlagi Ferðamálaráðs til umræddra verkefna. Varðandi samstarfið erlendis er alls er um að ræða 202 milljónir króna frá stjórnvöldum sem skipt var á fjögur markaðssvæði. Í grundvallaratriðum var fjármununum skipt þannig að á hverju markaðssvæði voru til ráðstöfunar annars vegar 40 milljónir króna þar sem lágmarksframlag til hvers verkefnis var 20 milljóna króna og hins vegar var hægt að sækja um framlag í nokkur minni verkefni þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila var 1 milljón króna. Til minni verkefnanna voru samtals 8 til 18 milljónir króna til ráðstöfunar á hverju svæði. Umsóknir sem bárust innan auglýsts frests, og voru því teknar til skoðunar, voru alls 146. Þær skiptust þannig á markaðsvæðin: Norður-Ameríka: 36 umsóknirNorðurlönd: 38 umsóknirBretlandseyjar: 28 umsóknirMeginland Evrópu: 44 umsóknir Meirihluti umsókna var ekki í samræmi við þá lýsingu sem sett var fram í auglýsingu Ferðamálaráðs um almenn kynningarverkefni væntanlegra samstarfsaðila eða að með þeim fylgdu ekki þau gögn, sem fylgja áttu. Ákveðið hefur verið að ganga til samstarfs við neðangreinda aðila á grundvelli umsókna sem eru í samræmi við þá nýtingu fjármunanna til almennrar landkynningar sem lagt var upp með og kynnt í auglýsingu, þ.e. peningalegt framlag viðkomandi til samstarfsins og dreifingu umræddrar kynningar í samræmi við fjárhagsáætlun og birtingaráætlanir viðkomandi. Rúmar 400 milljónir til landkynningarNú þegar er gengið til samstarfs um notkun 185 milljóna af þeim 202 milljónum sem eru til ráðstöfunar í þetta samstarfs erlendis. Alls eru þetta 22 samstarfsverkefni. Á næstu vikum verður gengið til samstarfs við fleiri aðila eins og kemur hér að neðan og nýttar 17 milljónir til viðbótar. Með þessu samstarfi verða því alls nýttar rúmlega 400 milljónir í almenna kynningu á markaðsvæðunum fjórum á næstu 11 mánuðum, þegar framlagi samstarfsaðila er bætt við. Hverja var gengið til samstarfs við.  
Lesa meira

Styrkir til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum 2003

Á undanförnum árum hefur Ferðamálaráð Íslands veitt styrki til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum. Auglýst var eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2003 þann 20. janúar sl og á fundi Ferðamamálaráðs í dag var samþykkt hvaða verkefni hljóta styrki frá ráðinu á þessu ári. Á síðustu árum hafa ákveðnir landshlutar komið til úthlutunar á hverju ári en að þessu sinni var ekki um slíka skiptingu að ræða heldur var hægt að sækja um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum um allt land. Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að heildarupphæðin sem kemur til úthlutunar nú var hækkuð verulega frá fyrra ári, eða úr 6 milljónir króna í 10 milljónir króna. Styrkirnir eru veittir til framkvæmda á vegum einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga. Skilyrði er að framkvæmdirnar stuðli að verndun náttúrunnar, samhliða bættum aðbúnaði ferðamanna. Forgangsröðun verkefnaAð þessu sinni bárust 160 umsóknir þar sem sótt var um styrki til um 180 verkefna. Sem fyrr segir voru 10 milljónir króna til úthlutunar en alls nam heildarupphæð styrkumsókna 125 milljónum króna. Af því leiðir að mörgum verkefnum sem vert hefði verið að leggja lið varð að hafna. Við úthlutunina nú var haft til viðmiðunar að styrkja verkefni sem draga úr mengun, auka öryggi ferðafólks eða bæta aðgengi hreyfihamlaðra. Einnig var litið til verkefna sem miða að bættri hreinlætisaðstöðu á stöðum þar sem ferðafólk nýtir sér aðeins þá þjónustu þótt fleira sé í boði. Víða skapast vandræðaástand vegna hópa sem aðeins nýta sér hreinlætisaðstöðu sem í boði er og bitnar það á viðskiptavinum og starfsfólki þjónustufyrirtækjanna. Eftirtaldir hljóta styrki fyrir árið 2003  
Lesa meira

Eins dags námskeið fyrir fólk í ferðaþjónustu

(Uppfært 11. apríl 2003) Þann 21. maí nk. (ath. breytta dagsetningu) verður á vegum Hólaskóla haldið námskeið fyrir fólk sem starfar við ferðaþjónustu. Um er að ræða eins dags námskeið sem haldið er í Sveitahótelinu í Sveinbjarnargerði. Námskeiðið er fyrir fólk sem þjónustar ferðamenn, í víðustum skilningi þess orðs, og áhugafólk um sögu og menningu. Fjallað verður um hvernig hægt er að nýta sér menningarverðmæti í nánasta umhverfi og fá þátttakendur tækifæri til að vinna með eigin hugmyndir. Námskeiðið er frá 10:00-16:00 og leiðbeinandi er Guðrún Helgadóttir, kennari og menningarráðgjafi við Hólaskóla. Þátttökugjald er 7.900 kr. Skráning fer fram á www.simey.is. Nánari upplýsingar gefur Sólrún Harðardóttir, endurmenntunarstjóri Hólaskóla, www.holar.is, sími: 455 6300, netfang: solrun@holar.is.  
Lesa meira

Ánægja með TUR

Í gær lauk hinni árlegu ferðakaupstefnu Swedish International Travel & Tourism Fair (TUR) í Gautaborg. Sýningin stóð yfir í fjóra daga og er tvískipt. Fyrri tveir dagarnir eru fyrir greinina sjálfa en seinni tvo dagana er sýningin opin almenningi. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, segist ánægður með sýninguna og þann árangur sem þar náðist, ekki síst ef litið sé til þeirra erfiðu aðstæðna sem nú ríki í heiminum. "Það var mjög gott að gera hjá okkur í íslenska básnum. Hann var vel staðsettur og vakti verðskuldaða athygli og ég er sérstaklega ánægður með umferðina í gær, sunnudag, sem kom skemmtilega á óvart. Sýningunni er beint að norræna markaðinum og á meðal Norðurlandabúa er Ísland auðvitað þekktur áfangastaður," segir Ársæll. Sjö íslensk fyrirtæki tóku þátt í sýningunni með Ferðamálaráði og segist Ársæll ekki hafa merkt annað en að þau væru ánægð með sinn hlut. Sýnendur voru alls um 1.800 talsins frá 90 löndum og 46 þúsund gestir komu í heimsókn sýningardagana. Það er um 8% fækkun frá fyrra ári sem Ársæll segist telja varnarsigur miðað við að stríð geisar um þessar mundir. "Ferðaþjónustan gerir sitt besta til að spyrna við fótum og halda sjó við þessar erfiðu aðstæður og mitt mat er að sýningin í Gautaborg hafi verið gott innlegg í þá baráttu," segir Ársæll.  
Lesa meira

Góður árangur á ferðasýningum ytra

Stærstu ferðasýningu heims, Internationale Tourismus-Börse (ITB), lauk í Berlín í síðustu viku. Ferðamálaráð Íslands var þar að sjálfsögðu með sýningarsvæði en 15 íslensk fyrirtæki voru meðal sýnenda og fleiri komu þangað í viðskiptaerindum frá Íslandi. Í tengslum við sýninguna voru skandinavísku ferðaverðlaunin (Scandinavian Travel Award) afhent í annað sinn og þar unnu tvö íslensk fyrirtæki til viðurkenninga. Sýningin Berlín er mikil að vöxtum en á henni kynntu um 10 þúsund sýnendur frá 181 landi starfsemi sína sem tók til allra sviða ferðaþjónustu. Um 130 þúsund gestir sóttu sýninguna og talið er þar hafi verið um 6.500 fjölmiðlamenn frá um 80 löndum. Skilaði góðum árangriAð sögn Hauks Birgissonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Þýskalandi, tókst kynning á Íslandi mjög vel og telur hann árangur af þátttöku í sýningunni hafa verið góðan þrátt fyrir að ástand á hinum alþjóðlega ferðamarkaði sé ekki gott um þessar mundir. "Í raun kom mér á óvart hvað sýningin skilaði góðum áragri. Við erum að sjá fjölgun söluaðila sem selja Íslandsferðir og dreifing á bæklingnum okkar var 20-30% meiri en fyrra," segir Haukur. Ferðamálaráð tók einnig þátt í tveimur sýningum í Frakklandi fyrr í mánuðinum. Dagana 6.-9. mars var um að ræða SMT í París og helgina á eftir var komið að sýningu í Lyon. Báðar gengu vel að sögn Hauks, þó sérstaklega sýningin í París, en heldur rólegra var í Lyon. TUR í GautaborgÍ gær hófst í Gautaborg sýningin Swedish International Travel & Tourism Fair (TUR) og stendur hún fram á sunnudag. Sýningin fór vel af stað, að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, sem þar er staddur. Verða fréttir af sýningunni birtar eftir helgina. Tvö fyrirtæki verðlaunuð Sem fyrr segir voru skandinavísku ferðaverðlaunin (Scandinavian Travel Award) afhent í tengslum við ITB í Berlín. Nordis Verlag átti, í samvinnu við Ferðamálaráð Norðurlandanna, frumkvæðið að verðlaununum en tilgangurinn með þeim er að draga athygli fjölmiðla, almennings og viðskiptaaðila um allan heim að Norðurlöndunum og þeim tækifærum sem þar bjóðast í tengslum við ferðamannesku. Dómefndin er skipuð sérfræðingum og blaðamönnum stærstu fjölmiðla í ferðamálum. Við þetta tækifæri fékk Ísland mjög góða kynningu en keppt var í fjórum flokkum og hlaut Ísland verðlaun í tveimur. Fyrirtækið Island Tours, sem er staðsett í Hamborg, hlaut fyrstu verðlaun sem besti skipuleggjandi ferða og Norðursigling á Húsavík hlaut þriðju verðlaun fyrir bestu norrænu hugmynd að þjónustu við ferðamenn. Dómnefndin taldi "Island Tours" hafa tekist einstaklega vel til við að bjóða upp á áhugaverðar ferðir fyrir ólíka hópa svo og að standa fyrir framúrskarandi góðri kynningu á ferðum sínum í bæklingum. Norðursiglingu var veitt viðurkenning fyrir að bjóða upp á bestu hugmynd að þjónustu við ferðamenn á Norðurlöndunum með því að tengja hvala- og fuglaskoðun varðveislu menningararfsins þar sem notast er við gamla endurgerða báta. Jafnframt sé hér um að ræða umhverfisvæna ferðamennsku sem hafi hvetjandi áhrif á svæði þar sem mikil tækifæri eru til þróunar ferðamennsku á Íslandi í framtíðinni. Um 250 gestir komu til verðlaunaafhendingarinnar en Jón Egill Egilsson sendiherra afhenti hinum íslensku verðlaunahöfum viðurkenningar sínar.  
Lesa meira

Nýtt fréttabréf Ráðstefnuskrifstofu Íslands

Í dag fór nýtt fréttabréf Ráðstefnuskrifstofu Íslands í dreifingu. Því er ætlað að efla upplýsingagjöf til félagsmanna en þó einkum til ráðstefnugestgjafa á Íslandi. Í blaðinu er fjallað um hina ýmsu þætti er við koma ráðstefnuhaldi og þjónustu því tengdu. Í fréttabréfinu er m.a. sagt frá því að ríkið og Reykjavíkurborg hafa að undanförnu unnið að samningagerð vegna stofnunar einkahlutafélags þar sem gert er ráð fyrir að eignaraðild að fyrirhuguðu ráðstefnu- og tónlistarhúsi verði í samræmi við ákvæði samkomulagsins frá því í apríl 2002. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við húsið hefjist 2006 og stefnt að verklokum árið 2008. Þá kemur fram að mjög góð þátttaka var í verkefninu Experience Iceland, Incentive & Convention Seminar sem Ráðstefnuskrifstofan í samvinnu við Flugleiðir stóð fyrir nú í byrjun mars, fjallað er um hið nýja Nordica Hótel, kynntir fjölbreyttir möguleikar til ráðstefnuhalds á Akureyri og ýmislegt fleira. Ráðgert er að gefa blaðið út þrisvar á ári og hægt er að fá það sent á rafrænu formi með því að senda ósk þar um á netfangið: radstefnuskrifstofa@radstefnuskrifstofa.is Heimasíða Ráðstefnuskrifstofu Íslands  
Lesa meira

Áhyggjur af áhrifum stríðs í Írak á ferðaþjónustuna

Stríð í Írak er nú orðin staðreynd og innan ferðaþjónustunnar hefur fólk miklar áhyggjur af afleiðingum þess fyrir greinina. Hún var byrjuð að rétta nokkuð úr kútnum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 og spyrja menn sig eðlilega hvort sá bati muni allur ganga til baka. Bandarískur ferðamarkaður í uppnámiÍ nýútkominni skýrslu um ferðamarkaðinn í Bandaríkjunum, sem unnin var fyrir Ferðamálaráð Evrópu (ETC), er dregin upp mög dökk mynd af ástandinu og þar kemur fram áhrif stríðsins sem þá var yfirvofandi voru þegar orðin sýnileg fyrir nokkru. Sá bati sem flugfélög á Atlantshafsleiðum höfðu náð fram á síðustu mánuðum gekk allur til baka í febrúar og fjöldi farþega 8 stærstu flugfélaganna var litlu hærri en þegar verst áraði í febrúar fyrir rúmu ári síðan. Bandarísk flugfélög höfðu gert ráð fyrir að tapa um 6,7 milljörðum dala á árinu sem leggjast myndi ofan á 19 milljarða dollara tap áranna 2001 og 2002. Áætlað er að stríð gæti þýtt 4 milljarða tap til viðbótar og að 70.000 manns í ferðageiranum myndu missa vinnuna. Þá kemur fram í skýrslunni að á heimsvísu gæti stríð leitt til þess að störfum í ferðaþjónustu myndi fækka um allt að 3 milljónir. Spenna á milli Bandaríkjanna og EvrópuEinnig hafa menn áhyggjur af því hvaða áhrif andstaða sumra Evrópuríkja við stríð hefur á ferðir Bandaríkjamanna til Evrópu. Bandarískir fjölmiðlar hafa talsvert lagt málið þannig upp að um sé ræða vaxandi andúð Evrópumanna á Bandaríkjunum og því sem bandarískt er, sem af skiljanlegum ástæðum virkar ekki hvetjandi á ferðalög til Evrópu. Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, tekur undir þetta og segir að Ferðamálaráði Íslands, líkt og öðrum ferðamálaráðum í Evrópu, hafi borist nokkuð af bréfum frá fólki í Bandaríkjunum þar sem það lýsir yfir að það muni ekki ferðast til Evrópu vegna andstöðu ríkja þar við Bandaríkin og muni hverja aðra til þess sama. "Þótt það séu einkum tvö Evrópuríki sem nefnd eru í umræddum bréfum þá setja bréfritarar alla Evrópu undir sama hatt í þessu sambandi," segir Magnús. Við þetta bætist einnig versnandi efnahagsástand í Bandaríkjunum, svo sem met viðskiptahalli, meira atvinnuleysi erfiðleikar á hlutabréfamörkuðum o.fl. Innan ferðaþjónustunnar er víða erfitt ástand og sumaráætlanir í uppnámi vegna þeirrar óvissu sem ríkir. Stríð myndi þurrka út batann sem náðst hefurEvrópusamtök ferðaskrifstofa (European incoming tour operators association) gerðu í janúar könnun á meðal aðildarfélaga sinna um það hvernig þau mætu horfurnar fyrir árið 2003 í samanburði við árið 2002 og jafnframt hvernig stríð við Írak gæti haft áhrif. Í stuttu máli var almenn bjartsýni ríkjandi og voru menn að sjá verulega aukningu á eftirspurn frá öllum mörkuðum, mest frá Bandaríkjunum. Kæmi til stríðs óttuðust menn hins vegar að þessi bati yrði að engu og samdráttur yrði í ferðum til Evrópu. Gripið til mótvægisaðgerðaHins vegar má einnig finna ljósa punkta. Þannig eru evrópsk flugfélög sem stunda Atlantshafsflug að sýna bata og bandarísk yfirvöld eru einnig að setja verulega aukna fjármuni í markaðs- og kynningarstarf sem efla á ferðamennsku. Á vegum Ferðamálaráðs Evrópu eru uppi áform um markaðsherferð í Bandaríkjunum en tímasetning hennar ræðst nokkuð af því hver þróunin verður í stríðsátökum. Eins og fram hefur komið hefur Ferðamálaráð Íslands verið að undirbúa hvernig nýta eigi um 100 milljónir króna fjárveitingu frá stjórnvöldum og greininni sjálfri til markaðssóknar í Bandaríkjunum á næstu mánuðum. Magnús Oddsson segir ljóst að stríðið hafi áhrif á þessi áform. "Nú þurfum við að setjast niður og endurskoða hvernig við högum þessari vinnu og það hlýtur að ráðast nokkuð af framgangi stríðsins hvenær farið verður af stað," segir Magnús. Því virðist sem ástandið sé afar viðkvæmt og áhrif stríðs á ferðaþjónustuna velti ekki síst á því hversu lengi það varir.  
Lesa meira