Fréttir

Nýtt skipurit Ferðamálaráðs Íslands tekur gildi

Nú um mánaðamótin taka gildi skipulagsbreytingar á Ferðamálaráði Íslands. Eins og fram hefur komið var á fundi Ferðamálaráðs um miðjan desember sl. samþykkt að skipta starfsemi ráðsins formlega upp í þrjú svið. Mesta breytingin felst í því að stofnað er nýtt svið, markaðssvið. Undir það heyra öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend. Breytingin er gerð í kjölfar þess að samningur um Markaðsráð ferðaþjónustunnar rann út í lok síðasta árs eftir fjögurra ára gildistíma. Í því ljósi beindi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, því til Ferðamálaráðs að þessi lögbundni málaflokkur stofnunarinnar, þ.e. markaðs- og kynningarmál, yrði efldur. Til að verða við tilmælum ráðherra, og jafnframt til að gera Ferðamálaráð enn betur í stakk búið til að sinna verkefnum sínum, var unnið skipurit fyrir stofnunina þar sem starfseminni var skipt upp í þrjú svið, sem fyrr er sagt. Með því er leitast við að gera verkefni ráðsins skilvirkari og línur á milli mismunandi málaflokka stofnunarinnar skýrari. Segja má að hér sé verið að festa á blað í aðalatriðum það verklag sem unnið hefur verið eftir í stofnuninni en með samþykki ráðsins var það formlega staðfest. Þannig hefur verið rennt styrkari stoðum undir núverandi starfsemi Ferðamálaráðs, auknar áherslur lagðar á meginmálaflokka og búið í haginn fyrir nýja. MarkaðssviðLandkynningar- og markaðsmál eru styrkt með stofnun á nýju markaðssviði. Öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend, munu heyra undir sviðið, þ.á.m. kynningarskrifstofur Ferðamálaráðs í New York, Frankfurt og fyrirhuguð skrifstofa í Kaupmannahöfn. Eftir er að ganga frá ráðningu forstöðumanns sviðsins. Upplýsinga- og þróunarsviðNúverandi starfsemi á Akureyri fær nafnið upplýsinga- og þróunarsvið. Meðal verkefna eru upplýsingamál, gerð gagnagrunns, umhverfismál, fræðslumál, vefþróun og -viðhald, rannsóknir, flokkun gististaða o.fl. Forstöðumaður er Elías Bj. Gíslason. Rekstrar- og stjórnsýslusviðÞriðja sviðið er síðan rekstrar- og stjórnsýslusvið og þar er Magnús Oddsson ferðamálastjóri jafnframt forstöðumaður. Undir sviðið heyra m.a. rekstur og fjármál, skipulag og áætlanagerð, lögbundin stjórnsýsluverkefni, umsjón með samningagerð, kannanir, leyfismál, fjölþjóðlegt samstarf o.fl.  
Lesa meira

Ísland áberandi í Bretlandi

Veruleg fjölgun hefur orðið á fyrirspurnum sem Ferðamálaráði berast með tölvupósti frá Bretlandi. Lætur nærri að aukningin nú í janúar sé um 100% miðað við sama tíma í fyrra.Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands á Bretlandsmarkaði, segir að fjölgun fyrirspurna geti átt sér nokkrar skýringar "Í fyrsta lagi varð sú breyting í byrjun janúar 2002 að samningur við Flugleiðir í London um að sinna markaðsmálum fyrir hönd Ferðamálaráðs rann út og starfið færðist yfir til okkar. Núna vísar skrifstofa Flugleiða í London því áfram til okkar og inn á visiticeland.com fyrirspurnum sem Flugleiðir afgreiddu áður. Út frá þessum forsendum er erfitt að meta nákvæmlega um hve mikla aukningu er að ræða." Nánast daglega fjallað um ÍslandSigrún segir engu að síður staðreynd að Ísland og Reykjavík séu mjög sýnileg í Bretlandi. "Í fyrra voru Flugleiðir og Ferðamálaráð t.d. í tvígang með plakataherferðir í neðanjarðarlestagöngunum sem skiluðu miklu og í síðustu viku fór af stað 6 vikna plakataherferð. Ísland er mjög áberandi í breskum fjölmiðlum og það birtast umfjöllun um landið í blöðum og tímaritum nánast daglega. Fleiri stórir aðilar auglýsa mikið, svo sem Icelandair Holidays, Arctic Experience og nokkrar aðrar stórar ferðaskrifstofur. Borgarferðirnar eru á þokkalegu verði og mikið um hopp-tilboð sem hvetur fólk til að ferðast til Íslands. Allt skilar þetta árangri og til að mynda hafa Flugleiðir aldrei flutt jafn marga frá Bretlandi til Íslands í desembermánuði og í desember síðastliðnum," segir Sigrún.  
Lesa meira

Endurbættur vefur fyrir N.-Ameríkumarkað

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York hefur opnað nýjan og endurbættan vef. Hann er sérstaklega hannaður með þarfir Norður-Ameríkumarkaðar í huga og settur upp sem öflugt markaðstæki. Eins og vera ber er á vefnum að finna yfirgripsmikla landkynningu og ýmsar fróðlegar og gagnlegar upplýsingar um land og þjóð. Einnig má nefna fréttir frá Íslandi, vídeóbrot og margt fleira. T.d. má benda á fróðlega samantekt á umfjöllun um Ísland í Bandarískum fjölmiðlum. Annars kynnir vefurinn sig best sjálfur því um að gera að líta í heimsókn.  
Lesa meira

Vetrarhátíð í Reykjavík

Vetrarhátíð í Reykjavík verður haldin í annað sinn dagana 27. febrúar-2. mars nk. Ráðgert er að gera hana að árvissum viðburði sem lífgi upp á borgarlífið á vetrarmánuðum á sama hátt og Menningarnótt lýsir mannlífið upp í sumarlok. Höfuðborgarstofa stendur að heildarskipulagi og kynningu dagskrár fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hátíðin mun fagna ljósi og vetri og dagskráin tengist menningu og listum, orku og atvinnulífi, félags- og skólastarfi, útivist, íþróttum, leikjum, umhverfi eða sögu. Food&FunMatarveislan Food&Fun verður haldin í Reykjavík á sama tíma og í sameiningu mun þessir viðburðir kæta bæði líkama og sál íbúa og gesta höfuðborgarinnar. Hátíð fyrir allaVetrarhátíðin er fyrir alla. Leitast verður við að dagskráin endurspegli fjölbreytt mannlíf borgarinnar er dag tekur að lengja. Stefnt er að því að allar helstu menningar- og menntastofnanir á höfuðborgarsvæðinu taki þátt í hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Fleiri verða hvattir til þátttöku til að mynda íþróttafélög, samtök listamanna, hverfasamtök, verslanir, veitingastaðir og fjölmargir aðrir. Hátíð um allan bæÞótt miðborg Reykjavíkur verði í sviðsljósinu sem miðpunktur hátíðarinnar þá heldur hún sig ekki einungis vestan lækjar, heldur breiðist út um alla borg og stefnt er að því að nota söfn, íþróttahallir og sundstaði borgarinnar, Fjölskyldugarð, skíðasvæði og Skautahöll svo eitthvað sé nefnt. Vetrarhátíðin og Food&Fun matarveislan gera útmánuði í Reykjavík að ógleymanlegri upplifun. Nánari upplýsingar fást á www.reykjavik.is og www.tourist.reykjavik.is . Nánari upplýsingar veitir Sif Gunnarsdóttir verkefnisstjóri, sif@rhus.rvk.is eða í síma 6939361. Myndin er frá setningu Vetarhátíðar 2002  
Lesa meira

"Travel Agent Magazine" útnefnir Einar Gústavsson "Europe Person of the Year"

Bandaríska tímaritið "Travel Agent Magazine" hefur útnefnt Einar Gústavsson, forstöðumann skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í New York, "Europe Person of the Year" annað árið í röð. Útnefninguna hlýtur Einar fyrir það starf sem hann hefur unnið við að koma Evrópu og Íslandi á framfæri sem áfangastöðum fyrir ferðalanga frá Bandaríkjunum. Sl. þrjú ár hefur Einar verið formaður bandarísku deildar Ferðamálaráðs Evróu (ETC). Þá stýrir Einar starfi Scandinavian Tourism Inc. í New York, sameiginlegu fyrirtæki Norðurlandanna, sem sinnir markaðsmálum og fleiri þáttum sem löndin hafa talið hagkvæmt að leysa í sameiningu. Loks má nefna Iceland Naturally samstarfið sem skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York hefur haldið utan um. Að mati "Travel Agent Magazine" má ekki síst rekja aukinn Evrópu- og Íslandsáhuga í Bandaríkjunum til þess öfluga starfs sem Einar hefur stýrt á áðurnefndum sviðum og hann sé því vel að útnefningunni kominn.  
Lesa meira

Fróðlegar tölur frá SAF

Samtök ferðaþjónustunnar, SAF, hafa gefið út niðurstöður úr tekjukönnun meðal hótela fyrir desembermánuð síðastliðinn. Tölunum fylgja einnig ársyfirlit og yfirlit um þróun meðalherbergjaverðs í samanburði við þróun lánskjara- og launavísitölu.Tekjukönnunin byggir á upplýsingum frá samtals 20 hótelum innan SAF, þ.e. 10 hótelum í Reykjavík með samtals 1.079 herbergjum og öðrum 10 á landsbyggðinni með samtals 603 herbergjum. Endurbætur á Hótel Esju hafa áhrifMeðalnýting í Reykjavík í desember var 41,02% og meðalverð 5.791 krónur. Tekjur á framboðið herbergi voru 73.824 krónur.Fyrri ár hafa gefið eftirfarandi tölur:1996 42,33% Kr. 2.5041997 31,59% Kr. 3.7281998 38,65% Kr. 3.3471999 38,71% Kr. 4.917. Tekjur á framboðið herbergi kr. 59.010.2000 39,11% Kr. 5.090. Tekjur á framboðið herbergi kr. 61.704.2001 39,81% Kr. 5.349. Tekjur á framboðið herbergi kr. 66.003.Enn þarf að ítreka að bætta nýtingu má rekja til þess að Hótel Esja er ekki reiknuð með í framboðinu og deilitalan því lægri. Raunnýting var um 15,4% lægri miðað við seld herbergi. Þeim fækkaði úr 13.352 í 11.293 og tekjur lækkuðu úr 71 milljón króna í 65 milljónir, eða um 8,2% Landsbyggðin Meðalnýting hjá þessum 10 hótelum á landsbyggðinni var 10,26% í desember. Meðalverð var 7.358 krónur og tekjur á framboðið herbergi 23.399 krónur.Til samanburðar koma fyrri ár: 1996 11,13% Kr. 3.1601997 10,56% Kr. 2.8141998 15,31% Kr. 4.1781999 12,07% Kr. 4.627 Tekjur á framboðið herbergi kr. 17.317.2000 10,87% Kr. 4.724 Tekjur á framboðið herbergi kr. 15.926.2001 12,21% Kr. 5.952 Tekjur á framboðið herbergi kr. 22.530.Hér er raunveruleg verðhækkun á ferðinni og veitir ekki af. Landsbyggðin án Akureyrar og KeflavíkurEf litið er til hótela á landsbyggðinni án Akureyrar og Keflavíkur var meðalnýting 5,13%, meðalverð 4.702 krónur og tekjur á framboðið herbergi kr. 7.473.Til samanburðar koma fyrri ár:1996 11,31% Kr. 2.4521997 8,41% Kr. 3.1731998 9,99% Kr. 2.8351999 7,52% Kr. 4.633 Tekjur á framboðið herbergi kr. 10.798.2000 4,29% Kr. 4.569 Tekjur á framboðið herbergi kr. 6.072.2001 3,72% Kr. 5.337 Tekjur á framboðið herbergi kr. 6.153. Þriðji ársfjórðungur 2002Í meðfylgjandi töflu hafa verið teknar saman tölur frá þriðja ársfjórðungi 2002, þ.e. september, október, nóvember og desember, með samanburði við fyrri ár.   1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 Reykjavík Meðalverð 4.889 4.570 4.726 5.503 6.159 6.580 7.259 Meðalnýting 56,94% 52,81% 59,67% 64,16% 65,72% 60,56% 61,68% Landsbyggð Meðalverð 4.020 4.870 4.203 5.189 5.229 5.893 7.199 Meðalnýting 36,78% 26,86% 31,28% 29,15% 25,70% 26,72% 27,06% Landsbyggð án Akureyrar og Keflavíkur Meðalverð 3.546 3.694 3.672 4.509 4.974 4.636 4.758 Meðalnýting 31,33% 23,46% 25,17% 19,00% 15,84% 16,68% 18,67% Samanburður við vísitölurAð lokum fylgir hér mynd þar sem þróun meðalherbergjaverðs er borin saman við þróun lánskjara- og launavísitölu. Meðalgistitekjur, þ.e. nettóverð án VSK, er sett sem 100 árið 1990 og síðan bornar saman við þróun launavístölu og lánskjaravísitölu á sama tíma. Eins og sjá má þá haldast meðalgistitekjur nokkurnvegin í takt við lánskjaravísitölu en talsvert vantar á að meðalverð hafi haldið í við launaþróun.  
Lesa meira

Auðlindin Ísland - ferðaþjónustusvæði aðgengileg á vefnum

Auðlindin Ísland - ferðaþjónustusvæði, skýrslan sem unnin var á vegum Ferðamaálráðs að beiði samgönguráðherra og kynnt á ferðamaálráðstefnunni í Stykkishólmi sl. haust, var afhent ráðherra í desember sl. Hann hefur síðan haft skýrsluna til kynningar og dreifingar og hún er nú einnig orðin aðgengileg hér á vefnum. Sem fyrr segir var það samgönguráðherra og þar með ráðherra ferðamála, Sturla Böðvarsson, sem lét vinna skýrsluna. Hann setti fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að kortleggja auðlindina Ísland, meta svæðisbundið helstu vaxtarmöguleika í ferðaþjónustu og móta framtíðarsýn sem hafa mætti hliðsjón af við uppbyggingu starfsgreinarinnar á komandi árum. Skrifstofu Ferðamálaráðs var síðan falin umsá málsins. Valtýr Sigurbjarnarson, landfræðingur, var ráðinn til að annast verkefnið og sá að mestu um úrvinnslu þeirra upplýsinga sem aflað var og gerð skýrslunnar. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri, skipulagði þá fundi sem haldnir voru og hafði umsón með verkinu. Til að tryggja framgang þess var ákveðið að skoða stöðuna og leggja fram tillögur um aðgerðir til að efla ferðaþjónustu á tilteknum svæðum. Með það að markmiði að fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið héldu þeir félagar 31 fund með heimamönnum og forsvarsmönnum ferðaþjónustufyrirtækja um allt land og eru niðurstöður þeirra funda notaðar til stuðnings við gerð skýrslunnar. Ýmsar þarfar ábendingar komu framFyrstu drög að skýrslunni voru lögð fram á ferðamálaráðstefnunni í Stykkishólmi um miðjan október sl. og var skýrslan raunar meginumfjöllunarefni ráðstefnunnar. Þá þegar komu fram ýmsar þarfar ábendingar enda var einmitt tilgangurinn að skapa umræður til frekari úrvinnslu og fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið. Skýrslan var síðan unnin áfram með hliðsjón af þeim ábendingum er bárust á ráðstefnunni og í kjölfar hennar og síðan afhent ráðherra. Til að skoða skýrsluna er hægt að smella á myndina hér að ofan.  
Lesa meira

Málþing um Vatnajökulsþjóðgarð og Jöklasetur

Háskólasetrið á Hornafirði, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Menningarmiðstöð Hornafjarðar halda málþing um Vatnajökulsþjóðgarð og Jöklasetur á Hornafirði föstudaginn 17. janúar nk. kl. 15:00-19:00. Málþingið verður haldið í ráðstefnusal Nýheima á Höfn og er öllum opið. Í fréttatilkynningu um málþingið kemur fram að umræðan um þjóðgarða eykst stöðugt í þjóðfélaginu. Nú þegar ári fjalla er lokið eru sjálfsagt margir að velta fyrir sér hvar stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er á vegi stödd. Á málþinginu verður gerð grein fyrir stöðu og horfum þjóðgarðsverkefnisins og ræddar hugmyndir um eflingu rannsókna og atvinnutækifæra sem Vatnajökulsþjóðgarður hefði í för með sér. Þjóðgarðar í sunnanverðri Afríku verða kynntir og rætt hvaða lærdóm er hægt að draga af þeim. Einnig verður gerð grein fyrir stöðu Jöklaseturs á Hornafirði og hugmyndir um frekari uppbyggingu þess ræddar. Þá verður kynnt skýrsla ársins 2003 úr rannsóknarverkefninu Vatnajökulsþjóðgarður: Náttúruvernd og atvinnulíf grannbyggða, þar sem meðal annars er að finna niðurstöður ítarlegra viðtala við fjölmarga íbúa. Stutt kynning verður einnig á fyrirhuguðu þverfaglegu verkefni um sambúð manns og náttúru umhverfis Vatnajökul.  
Lesa meira

Nýja Norræna til Seyðisfjarðar í mars

Seyðisfjörður verður einn af viðkomustöðum nýrrar Norrænu í reynslusiglingu hennar í mars næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is. Aðeins er ár liðið frá því kjölur var lagður að Norrænu í skipasmíðastöðinni í Flensborg í Þýskalandi. Skipið var sjósett í lok ágúst sl. og verður afhent eigendum, Smyril line, fullbúið um miðjan mars. Fyrsta reynslusiglingin verður farin skömmu seinna og þá m.a. komið til Seyðisfjarðar. Þar hefur sem kunnugt er verið unnið að endurbótum á hafnaraðstöðu með tilliti til nýja skipsins. Áætlunarferðir Norrænu hefjast síðan í maí. Hin nýja Norræna mun taka 1.500 farþega í misstórum klefum, sem allir eru búnir salerni og sturtu. Hún getur tekið 700 til 800 bíla auk ýmiss konar fragtar. Hún er 163 metrar að lengd, 30 metrar að breidd og um 40.000 brúttótonn. Myndin er fengin af heimasíðu Smyril Line.
Lesa meira