Fréttir

Eindregin mótmæli frá SAF vegna hugmynda um gistináttagjald

Samtök ferðaþjónustunnar hafa harðlega mótmælt hugmynd nefndar á vegum umhverfisráðuneytisins um að tekið verði upp gistináttagjald til uppbyggingar fjölsóttra ferðamannastaða á Íslandi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta fréttabréfi SAF á heimasíðu samtakanna. Í frétt frá SAF segir að yfirlýsing umhverfisráðherra í fjölmiðlum um að gistináttagjaldið sé í anda auðlindargjalds í sjávarútvegi sé fráleit, þ.e. að þeir sem vilji nýta náttúruna greiði fyrir það. "Stór hluti gesta á hótelum landsins, bæði Íslendingar sem útlendingar, nýta ekki náttúru landsins þ.e. gestir sem hér eru eingöngu á fundum og ráðstefnum, í borgarferðum, verslunarferðum, viðskiptaferðum, í opinberum erindagjörðum o.s.frv. Hér er því um að ræða hugmynd að frekari skattlagningu ferðaþjónustufyrirtækja sem er ekki í neinum tengslum við ráðstöfun fjárins," segir orðrétt. Einnig segir að hugmyndir sem þessar séu í hrópandi mótsögn við þá stefnu ríkisstjórnar Íslands að reyna að fjölga erlendum ferðamönnum til Íslands því frekari skattlagning gerir Ísland dýrara og vanhæfara í samkeppni við önnur lönd. Heimasíða SAF Myndin er af Hengifossi í Fljótsdal.  
Lesa meira

Tölfræðibæklingur Ferðamálaráðs kominn út

Árlegur tölfræðibæklingur Ferðamálaráðs er nú kominn út. Hann hefur til þessa komið út á ensku undir nafninu "Tourism in Iceland in figures" en í ár var ákveðið að gefa bæklinginn einnig út á íslensku. Nefnist hann "Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum". Auk prentaðrar útgáfu er bæklingurinn aðgengilegur hér á vefnum. Í bæklingnum eru teknar saman og settar fram í myndrænu formi ýmsar tölulegar staðreyndir um íslenska ferðaþjónustu, fjölda erlendra ferðamanna og ferðahegðun þeirra. Helstu heimildir eru könnun Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna og tölur frá Seðlabankanum, Hagstofunni og Útlendingaeftirlitinu. Sem fyrr segir er íslenska útgáfan af bæklingnum aðgengileg hér á vefnum undir liðnum "Tölfræði" og enska útgáfan er aðgengileg á landkynningarvef Ferðamálaráðs, visiticeland.com undir liðnum "Statistics".  
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum og gistiheimilum fjölgaði um 6,4% á milli ára

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum töldust 1.256.000 árið 2002 en árið á undan voru þær 1.180.000, sem er 6,4% aukning. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Hagstofunni sem gefnar voru út í dag. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 6 % en útlendinga um 6,5 %. Á hótelum og gistiheimilum fjölgaði gististöðum um 22 milli ára og herbergjum um 600 en til þessa flokks teljast hótel, gistiheimili, sumarhótel og sumargistiheimili ásamt íbúðahótelum. Geta má að þessi aukning þarf ekki eingöngu að þýða opnun nýrra staða því nokkrir heimagististaðir urðu að gistiheimilum á síðasta ári í kjölfar skipulagsbreytinga. Fjölgun gistinátta í öllum landshlutum - mest á SuðurlandiGistinóttum á hótelum og gistiheimilum fjölgaði í öllum landshlutum á milli áranna 2001 og 2002. Mest var aukningin á Suðurlandi, en gistinóttum fjölgaði þar um 25,7%. Gistinóttum á Austurlandi fjölgaði um 16,2%, á Vestfjörðum um 13,9%, á Norðurlandi eystra um 8,2% og Norðurlandi vestra um 7,8%. Þá var 3,6% aukning á Vesturlandi og 1,2% á Suðurnesjum. Minnst var aukningin á höfuðborgarsvæðinu en þar fjölgaði gistinóttum um 0,6% á milli ára. Fjölbreytt talnaefniHagstofan hefur annast gistináttatalningar um árabil og á vef stofnunarinnar er að finna ýmsar áhugaverðar tölfræðiupplýsingar um þetta efni, samanburð á milli ára o.fl. Smellið hér  
Lesa meira

Starfsemi Ferðamálaráðs 2002

Undir liðnum "Kannanir / skýrslur" hér á vefnum er nú komin skýrsla sem ber heitið "Nokkrir punktar úr starfsemi Ferðamálaráðs 2002". Eins og nafnið ber með sér er þar farið yfir það sem hæst bar í starfi ráðsins á síðasta ári, helstu breytingar o.s.frv. M.a. er fjallað um markaðsstarf, erlent samstarf, ferðasýningar, rannsóknir, fundi og ráðstefnur, útgáfumál, umhverfismál, vefmál, gagnagrunn, flokkun gististaða, upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn o.fl. Lesa skýrslu  
Lesa meira

Samstarf fyrirtækja í ferðaþjónustu rannsakað

Arnar Már Ólafsson og Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektorar við Háskólann á Akureyri, hafa undanfarið unnið að rannsókn sem miðar að því að kanna hvernig samstarfi fyrirtækja í ferðaþjónustu er háttað. Arnar Már er einnig forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands sem kunnugt er. Á ráðstefnu í félagsvísindum, sem haldin var við Háskóla Íslands á dögunum, fluttu þau erindi þar sem þau kynntu rannsóknina, aðferðafræðina sem beitt er og frumniðurstöður. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kortleggja það samstarf sem átt hefur sér stað meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu á landsbyggðinni, greina hvaða þættir leiða af sér árangursríkt samstarf og finna með hvaða hætti ferðaþjónustuaðilar á landsbyggðinni geta tileinkað sér þá. Tilgangurinn með þessu er að stuðla að aukinni samkeppnishæfni ferðaþjónustu á landsbyggðinni og þannig bæta arðsemi þessara fyrirtækja. Einnig er von að niðurstöðurnar virki sem hvatning til frekara samstarfs. FrumherjastarfOfangreint efni, þ.e. samstarf ferðaþjónustufyrirtækja og hvernig það getur bætt afkomu og arðsemi, er sígilt umræðuefni innan greinarinnar. Þetta er hins vegar fyrsta rannsóknin á þessu sviði þar sem beitt er viðurkenndum fræðilegum aðferðum. Þannig er um ákveðið frumherjastarf að ræða og afar lofsvert framtak, því með slíkum markvissum vinnubrögðum fást niðurstöður sem hægt er að byggja á. Einkennandi þættir fyrir samstarfArnar Már og Hafdís Björg kynntu á áðurnefndri ráðstefnu frumniðurstöður fyrir Skagafjörð en það var fyrsta svæðið sem tekið var fyrir. Niðurstöðurnar benda til að ákveðnir þættir virðast vera nauðsynlegir til þess samstarf gangi upp á meðan aðrir koma í veg fyrir það. Meðal þátta sem virðast nauðsynlegir farsælu samstarfi eru gagnkvæmt traust, nægt, öruggt fjármagn, hlutleysi stjórnenda og vettvangur fyrir samskipti á meðan fjármagnsskortur, þekkingarleysi, persónulegur ágreiningur og vantraust eru meðal þátta sem koma í veg fyrir samstarf. Áhugavert verður að vita hvort sömu þættir eru einkennandi fyrir hin svæðin sem taka á fyrir í rannsókninni en niðurstöður verða unnar frá hverju svæði fyrir sig sem svo í lokin verða tengdar saman og settar fram sem ein heild. Auk Skagafjarðar verða Húnavatnssýslur, Eyjafjörður og Þingeyjarsýslur teknar fyrir til að byrja með.  
Lesa meira

Ársæll Harðarson ráðinn forstöðumaður markaðssviðs

Á fundi Ferðamálaráðs sl. föstudag var samþykkt að Ársæll Harðarson yrði fyrsti forstöðumaður markaðssvið Ferðamálaráðs í samræmi við nýtt skipurit stofnunarinnar. Umsækjendur voru 111 og hefur verið unnið úr umsóknum undanfarnar vikur og viðtöl hafa farið fram við nokkra umsækjendur. Á næstu dögum kemur í ljós hvenær Ársæll getur hafið störf. Ársæll er 46 ára rekstrarhagfræðingur ( MBA) frá Copenhagen Buisness School. Hann hefur unnið við ýmis störf innan ferðaþjónustunnar á sl. nær 20 árum. M.a.: 1984-1986: Framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu stúdenta1991-1995: Framkvæmdastjóri Ráðstefnuskrifstofu Íslands1995-1996: Forstöðumaður markaðssamskipta Icelandair1996-2001: Framkvæmdastjóri Icelandair í Danmörku  
Lesa meira

Heilsutengd ferðaþjónusta eflist í Stykkishólmi

Eftir að í ljós kom að heita vatnið sem fannst við Hofsstaði í nágrenni Stykkishólms árið 1997 er einstaklega græðandi, hefur verið draumur margra að setja af stað ferðaþjónustu sem nýtti kosti vatnsins og staðsetninguna í Stykkishólmi. Nú má segja að sá draumur sé orðinn að veruleika með stofnun Temple Spa. Heilsuefling Stykkishólms, sem er í eigu Stykkishólmsbæjar og nokkurra fjárfesta, er eigandi Temple Spa. Markmið félagsins er að byggja upp í Stykkishólmi heilsutengda þjónustu á heimsmælikvarða. "Stykkishólmur uppfyllir í raun öll skilyrði fyrir starfrækslu hvíldar- og hressingarmiðstöðvar og heita vatnið okkar hefur einstaka eiginleika og vottun frá þýsku stofnuninni Institut Fresenius, sem er ein virtasta stofnun í heiminum á þessu sviði," segir Erla Björg Guðrúnardóttir, framkvæmdastjóri Temple Spa. Stykkishólmur í stað útlandaTemple Spa býður á næstunni upp á heilsuhelgar í Stykkishólmi, þar sem tvinnað er saman námskeiðum, hreyfingu, sælkeramat, menningu og öðru góðgæti. Erla Björg segist bjartsýn á framhaldið. "Í kjölfar breytinga á högum fólks á síðustu árum, einkum aukinnar velmegunar og breytts lífsstíls, hafa kröfur um sérhæfða, heilsutengda þjónustu aukist. Fólk hefur vaxandi þörf fyrir dagskrá sem lýtur að því að efla og bæta andlegt og líkamlegt ástand sitt. Við sækjumst í vaxandi mæli eftir endurnæringu frá erli dagsins og þeirri streitu sem því fylgir að vera til í samfélagi nútímans. Margir leita til útlanda í þessum tilgangi en nú býðst fólki að koma til okkar og njóta einstakrar þjónustu, á viðráðanlegu verði. Okkur er mikið í mun að veita gestum besta mögulega þjónustu og að þeim líði sem best. Þannig er markmið okkar að gestir fari heim frískari, afslappaðri og tilbúnir að takast á við lífið og verkefnin sem eru framundan," segir Erla Björg.  
Lesa meira

Metfjöldi umsókna um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum

Um 160 umsóknir bárust Ferðamálaráði um styrki til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum en umsóknarfrestur rann út sl. föstudag. Þetta er meira en nokkru sinni fyrr. Til þess ber að líta að nú var auglýst eftir umsóknum af öllu landinu en á undanförnum árum hafa ákveðnir landshlutar verið teknir fyrir á hverju ári. Ljóst er að styrkumsóknir eru samkvæmt venju umtalsvert hærri en það fé sem er til úthlutunar. Heildarupphæðin er að þessu sinni 10 milljónir króna, sem er veruleg hækkun frá því í fyrra þegar 6 milljónir króna voru til skiptanna. Til samanburðar má geta þess að í fyrra voru veittir styrkir til úrbóta í umhverfismálum á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Þá voru 6 milljónir króna til úthlutunar en heildarupphæð styrkbeiðna hljóðaði upp á ríflega 103 milljónir króna. Af þessum 103 milljónum voru a.m.k. 85 til 90 milljónir sem féllu að þeim viðmiðunarreglum sem farið er eftir við úthlutun styrkja og því fengu margir neikvætt svar frá Ferðamálaráði þó svo að verkefni þeirra væru áhugaverð og þörf. Alls hlutu 29 aðilar styrki á árinu 2002. Fyrir liggur að talsverðan tíma tekur að fara í gegnum og meta umsóknir sem bárust að þessu sinni. Má gera ráð fyrir að einhverjar vikur líði áður en niðurstaða liggur fyrir. Sem dæmi um verkefni sem hlotið hafa styrki á síðustu árum má nefna gönguleiðamerkingar, stígagerð, skiltagerð og styrki til að koma upp salernisaðstöðu. Styrkirnir eru veittir til framkvæmda á vegum einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga. Skilyrði er að framkvæmdirnar stuðli að verndun náttúrunnar, samhliða bættum aðbúnaði ferðamanna. Nauðsynlegt er að framkvæmdir stangist ekki á við gildandi skipulag og séu unnar í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, landeigendur, náttúruverndarnefndir og aðra aðila sem með málið hafa að gera s.s. Umhverfisstofnun. Miðað er við að þeim hluta verksins sem sótt er um styrk til sé lokið eigi síðar en 15. september 2003.  
Lesa meira

Fundaröð Ferðamálaráðs og Ferðamálasamtaka Íslands fram haldið

Í lok sumars hófst fundaröð sem Ferðamálaráð og Ferðamálasamtök Íslands efndu til í sameiningu. Fundað verður með heimamönnum um allt land og var búið að bera niður á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Nú hefur þessari fundaröð verið fram haldið og næsti fundur hefur verið auglýstur 17. febrúar nk. kl.20:00 í Halldórskaffi, Brydebúð í Vík. Til fundanna eru m.a. verið boðaðar stjórnir ferðamálasamtakanna á hverju svæði, ferða- og atvinnumálafulltrúar, sveitarstjórnarmenn og rekstraraðilar í greininni. Fundirnir hafa undantekningarlaust verið vel sóttir og líflegar umræður skapast. Þarna hefur verið komið inn á alla helstu þætti sem snúa að málaflokknum, svo sem markaðsmál erlendis sem innan lands, rekstrarumhverfi greinarinnar, samgöngur, fjármögnun, gæði og öryggi, þróun upplýsingamiðstöðva, verkefni og verksvið Ferðamálaráðs o.fl.  
Lesa meira

Samtökin "Cruise Iceland" stofnuð

Í nýútkominni skýrslu um stöðu Íslands sem viðkomustaðar fyrir skemmtiferðaskip kemur fram að mögulegt sé að tvöfalda farþegafjölda með skemmtiferðaskipum til landsins fram til ársins 2010. Það voru hafnirnar í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði, ásamt skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum, sem stóðu fyrir gerð skýrslunnar. Þessir aðilar hafa átt árangursríkt markaðssamstarf sl. 10 ár og í samræmi við niðurstöður skýrslunnar hefur verið ákveðið að fara í frekari aðgerðir, m.a. að stofna samtökin "Cruise Iceland". Ætlun þeirra er að auka samvinnu allra sem hagsmuna eiga að gæta vegna móttöku skemmtiferðaskipa. Að mati skýrsluhöfundar á Ísland mikla framtíð fyrir sér sem ákjósanlegur viðkomustaður fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Mikill vöxtur er í þessum þætti iðnaðarins í heiminum og skapast Íslandi þar fjölmörg tækifæri. Í skýrsluni er lögð sérstaka áherslu á sterka stöðu Íslands fyrir náttúru og ævintýraferðir af ýmsum toga. Sérstaðan fellst m.a. í því að skoða hina stórbrotnu náttúrufegurð landsins frá sjó og jafnframt að geta upplifað náttúruna sem víðast á landi. Hvað á að gera?Samstarfshópurinn telur að nú sé einstakt tækifæri til að efla markaðssókn og að auka samvinnu allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta við móttöku skemmtiferðaskipa með því að stofna samtökin "Cruise Iceland?. Á verkefnaskrá samtakanna er m.a.: Að bæta aðstöðu fyrir skip og farþega Að stuðla að fjölgun viðkomustaða á Íslandi Að taka þátt í og örva umræðu um öryggismál skipa og farþega Að bæta vöruþróun í afþreyingu fyrir farþega og auka og efla kynningu á þeim vettvangi Að stuðla að sjálfstæðu kynningarstarfi í útlöndum og einnig í samvinnu við aðra Að lengja dvöl skipanna í höfn Að vertíðin lengist í báða enda Að stuðla að því að Ísland geti orðið markaður fyrir "turn-around" skip Að skemmtiferðaskip hafi sumardvöl á Íslandi og bjóði uppá fjölbreyttar ævintýraferðir Eftir miklu er að slægjastÁ síðustu 10 árum hefur farþegafjöldinn til áðurnefndra þriggja hafna samtals aukist úr 22 þúsund farþegum á ári í 53 þúsund. Fjöldi skipakoma á sama tíma hefur farið úr 51 á ári í rúmlega 100. Heildartekjur sem skapast vegna komu farþega og skipa á árinu 2002 eru áætlaðar ekki lægri en 1 miljarður króna og gert er ráð fyrir að tekjur þessar árið 2010 verði 2-3 miljarðar króna, ef áætlanir ganga eftir.  
Lesa meira