Fara í efni

Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar í Hafnarfirði til Keilis

Afgreiðsla umsókna um styrki til úrbóta í umhverfismálum
Afgreiðsla umsókna um styrki til úrbóta í umhverfismálum

Golfklúbburinn Keilir fékk hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar í Hafnarfirði 2003 en þau voru afhent við hátíðlega athöfn sl. fimmtudagskvöldið. Átta ferðaþjónustuaðilar voru tilnefndir til hvatningarverðlaunanna og auk Keilis voru það Horft í Hamarinn sem býður gönguferðir um álfaslóðir, Fjarðarkaup, Fjörukráin, Hafnarborg, Hópbílar, Íshestar og gullsmiðirnir Sigga og Timo.

Ferðamálanefnd tilnefnir til hvatningarverðlaunanna og það eru síðan ferðaþjónustuaðilar í Hafnarfirði sem greiða atkvæði. Tilgangur með verðlaununum er að hvetja ferðaþjónustufyrirtæki til dáða og vekja athygli á ferðaþjónustu í Hafnarfirði. Golfklúbburinn Keilir hlaut tilnefningu fyrir þá stefnu sína að þjóna gestum sem best, jafnt íslenskum sem útlendum, og öfluga þátttöku í alþjóðlegu markaðsstarfi.

Góð aðstaða og markaðsstarf hjá Keili
Í frétt á vef Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að Golfklúbburinn Keilir hefur á undanförnum árum markvisst byggt upp góða og sérstaka aðstöðu á Hvaleyri. Vallarstæðið er einstakt, samofið hraunlandslagi við úthaf. Þar er nú völlur í fullri stærð (18 holur), æfingavöllur (9 holur), æfingaskýli og klúbbhús með veitingaaðstöðu og golfbúð, sem einnig leigir gestum búnað. Á þrítugasta afmælisári klúbbsins (1997) var unnin stefnumótun þar sem m.a. kemur fram að kúbburinn leggur áherslu á markaðsmál og leggi Hafnarfirði sem ferðamannabæ lið. Gestum er vel tekið, þeim er útvegaður nauðsynlegur búnaður og geta pantað rástíma sem aðrir. Þar sem þessir lausagestir koma oftast utan annatíma bitnar það ekki á aðgengi klúbbfélaga.

Í fyrra var haldið alþjóðlega golfmótið "Iceland Open" á Hvaleyrarvelli í samvinnu við Time4Media fjölmiðlasamsteypuna og verður mótið aftur í sumar. Stefnt er að árvissum viðburði með sterka markaðsstöðu í Bandaríkjunum. Meðfylgjandi mynd var tekin við afhendingu verðlaunanna.