Fara í efni

Góður árangur á ferðasýningum ytra

ScandTravelAward
ScandTravelAward

Stærstu ferðasýningu heims, Internationale Tourismus-Börse (ITB), lauk í Berlín í síðustu viku. Ferðamálaráð Íslands var þar að sjálfsögðu með sýningarsvæði en 15 íslensk fyrirtæki voru meðal sýnenda og fleiri komu þangað í viðskiptaerindum frá Íslandi. Í tengslum við sýninguna voru skandinavísku ferðaverðlaunin (Scandinavian Travel Award) afhent í annað sinn og þar unnu tvö íslensk fyrirtæki til viðurkenninga.

Sýningin Berlín er mikil að vöxtum en á henni kynntu um 10 þúsund sýnendur frá 181 landi starfsemi sína sem tók til allra sviða ferðaþjónustu. Um 130 þúsund gestir sóttu sýninguna og talið er þar hafi verið um 6.500 fjölmiðlamenn frá um 80 löndum.

Skilaði góðum árangri
Að sögn Hauks Birgissonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Þýskalandi, tókst kynning á Íslandi mjög vel og telur hann árangur af þátttöku í sýningunni hafa verið góðan þrátt fyrir að ástand á hinum alþjóðlega ferðamarkaði sé ekki gott um þessar mundir. "Í raun kom mér á óvart hvað sýningin skilaði góðum áragri. Við erum að sjá fjölgun söluaðila sem selja Íslandsferðir og dreifing á bæklingnum okkar var 20-30% meiri en fyrra," segir Haukur.

Ferðamálaráð tók einnig þátt í tveimur sýningum í Frakklandi fyrr í mánuðinum. Dagana 6.-9. mars var um að ræða SMT í París og helgina á eftir var komið að sýningu í Lyon. Báðar gengu vel að sögn Hauks, þó sérstaklega sýningin í París, en heldur rólegra var í Lyon.

TUR í Gautaborg
Í gær hófst í Gautaborg sýningin Swedish International Travel & Tourism Fair (TUR) og stendur hún fram á sunnudag. Sýningin fór vel af stað, að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, sem þar er staddur. Verða fréttir af sýningunni birtar eftir helgina.

Tvö fyrirtæki verðlaunuð
Sem fyrr segir voru skandinavísku ferðaverðlaunin (Scandinavian Travel Award) afhent í tengslum við ITB í Berlín. Nordis Verlag átti, í samvinnu við Ferðamálaráð Norðurlandanna, frumkvæðið að verðlaununum en tilgangurinn með þeim er að draga athygli fjölmiðla, almennings og viðskiptaaðila um allan heim að Norðurlöndunum og þeim tækifærum sem þar bjóðast í tengslum við ferðamannesku. Dómefndin er skipuð sérfræðingum og blaðamönnum stærstu fjölmiðla í ferðamálum.

Við þetta tækifæri fékk Ísland mjög góða kynningu en keppt var í fjórum flokkum og hlaut Ísland verðlaun í tveimur. Fyrirtækið Island Tours, sem er staðsett í Hamborg, hlaut fyrstu verðlaun sem besti skipuleggjandi ferða og Norðursigling á Húsavík hlaut þriðju verðlaun fyrir bestu norrænu hugmynd að þjónustu við ferðamenn. Dómnefndin taldi "Island Tours" hafa tekist einstaklega vel til við að bjóða upp á áhugaverðar ferðir fyrir ólíka hópa svo og að standa fyrir framúrskarandi góðri kynningu á ferðum sínum í bæklingum. Norðursiglingu var veitt viðurkenning fyrir að bjóða upp á bestu hugmynd að þjónustu við ferðamenn á Norðurlöndunum með því að tengja hvala- og fuglaskoðun varðveislu menningararfsins þar sem notast er við gamla endurgerða báta. Jafnframt sé hér um að ræða umhverfisvæna ferðamennsku sem hafi hvetjandi áhrif á svæði þar sem mikil tækifæri eru til þróunar ferðamennsku á Íslandi í framtíðinni. Um 250 gestir komu til verðlaunaafhendingarinnar en Jón Egill Egilsson sendiherra afhenti hinum íslensku verðlaunahöfum viðurkenningar sínar.