Fara í efni

Ánægja með TUR

Kaup erlendra ferðamanna á vörum og þjónustu jukust um 1,5 milljarða
Kaup erlendra ferðamanna á vörum og þjónustu jukust um 1,5 milljarða

Í gær lauk hinni árlegu ferðakaupstefnu Swedish International Travel & Tourism Fair (TUR) í Gautaborg. Sýningin stóð yfir í fjóra daga og er tvískipt. Fyrri tveir dagarnir eru fyrir greinina sjálfa en seinni tvo dagana er sýningin opin almenningi.

Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, segist ánægður með sýninguna og þann árangur sem þar náðist, ekki síst ef litið sé til þeirra erfiðu aðstæðna sem nú ríki í heiminum. "Það var mjög gott að gera hjá okkur í íslenska básnum. Hann var vel staðsettur og vakti verðskuldaða athygli og ég er sérstaklega ánægður með umferðina í gær, sunnudag, sem kom skemmtilega á óvart. Sýningunni er beint að norræna markaðinum og á meðal Norðurlandabúa er Ísland auðvitað þekktur áfangastaður," segir Ársæll.

Sjö íslensk fyrirtæki tóku þátt í sýningunni með Ferðamálaráði og segist Ársæll ekki hafa merkt annað en að þau væru ánægð með sinn hlut. Sýnendur voru alls um 1.800 talsins frá 90 löndum og 46 þúsund gestir komu í heimsókn sýningardagana. Það er um 8% fækkun frá fyrra ári sem Ársæll segist telja varnarsigur miðað við að stríð geisar um þessar mundir. "Ferðaþjónustan gerir sitt besta til að spyrna við fótum og halda sjó við þessar erfiðu aðstæður og mitt mat er að sýningin í Gautaborg hafi verið gott innlegg í þá baráttu," segir Ársæll.