Fara í efni

Golf Iceland: Kynning erlendis enn mikilvægari en áður

Golfmynd
Golfmynd

Aðalfundur samtakanna Golf Iceland var haldinn fyrir skömmu. Meginverkefni samtakanna, sem voru stofnuð fyrir þremur árum, er kynning á íslensku golfi gagnvart erlendum kylfingum og söluaðilum golfferða.

Verðmætar heimsóknir fjölmiðla og söluaðila
Í skýrslu stjórnar kom fram að á árinu 2010 var í kynningarstarfinu sérstök áhersla lögð á samskipti við erlenda fjölmiðla og söluaðila. Sérstök boðsferð var skipulögð í lok júní.

Á árinu komu alls 43 sérhæfðir fjölmiðlamenn frá 11 löndum, sem hafa síðan í vetur birt greinar og annars konar umfjöllun um heimsókn sína hingað og upplifun af landi og golfvöllum. Þá komu hingað á vegum Golf Iceland 15 fulltrúar sérhæfðra erlendra söluaðila golfferða. Golfferðir til Íslands eru nú árið 2011 í boði hjá fleiri söluaðilum en nokkru sinni fyrr.

Kynning erlendis enn mikilvægari en áður
Á fundinum voru lagðar línur um meginþætti í starfseminni til næstu missera. Stjórnin lagði fram umræðupunkta sem síðan voru ræddir í hópvinnu fundarmanna.

Meðal niðurstaðna var að í ljósi þess að ákveðin teikn eru talin á lofti um minni ferðalög Íslendinga um eigið land, vegna aukins kostnaðar og þar með minni viðskipti við golfvelli utan heimabyggðar, þá sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að koma íslenskum golfvöllum á framfæri við erlenda söluaðila og kylfinga sem sækja okkur heim.

Stjórnin endurkjörin
Meðlimir samtakanna eru nú 23. Tólf golfklúbbar sem reka alls 14 golfvelli og níu ferðaþjónustufyrirtæki auk Ferðamálastofu og GSÍ.

Stjórn samtakanna var öll endurkjörin en í henni eiga sæti: Magnús Oddsson GR, Bergþór Karlsson Bílaleigu Akureyrar, Helgi Bragason GV, Þorvarður Guðlaugsson Icelandair og Hörður Þorsteinsson GSÍ. Í varastjórn sitja: Bergljót Lóa Þorsteinsdóttir Icelandair Hotels, Bergsteinn Hjörleifsson Keili og Sjöfn Kjartansdóttir Island Pro Travel.