Fara í efni

Stykkishólmur er gæðaáfangastaður Íslands árið 2011

enden logo 100
enden logo 100

Stykkishólmsbær var í dag útnefndur EDEN-gæðaáfangastaður í Evrópu 2011 fyrir varðveislu og endurnýjun menningarminja og metnaðarfulla stefnu í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu. Viðurkenninguna fær bæjarfélagið vegna markvissrar uppbyggingar gömlu húsanna í bænum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og öðlast nýtt hlutverk í ferðaþjónustu, þar sem sjálfbærni- og umhverfishugsun er í forgrunni.

EDEN-gæðaáfangastaðir

EDEN-gæðaáfangastaðir ,,European Destination of Excellence“ er samevrópskt verkefni sem Ferðamálastofa heldur utan um fyrir Íslands hönd. Markmið þess er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.

Árleg samkeppni

Árlega er haldin samkeppni í hverju aðildarlanda EDEN um gæða áfangastaði í Evrópu og er nýtt þema á hverju ári. Með því að hafa þau breytileg er leitast við að gefa sem flestum gerðum af stöðum og ferðaþjónustu kost á þátttöku. Þema þessa árs var „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ (Tourism and Regeneration of Physical Sites). Athyglinni er beint að svæðum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk sem ferðamannastaðir, eftir að hafa áður gegnt einhverju öðru og alls óskyldu hlutverki.

Rökstuðningur dómnefndar

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Stykkishólmur hefur eflst sem áfangastaður fyrir ferðamenn á síðustu árum og gegnir ferðaþjónusta æ mikilvægara hlutverki í atvinnusköpun og tekjuöflun bæjarins. Við uppbyggingu ferðaþjónustunnar hefur m.a. verið tekið mið af hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar um varðveislu menningarminja, sögu og náttúru. Eitt helsta aðdráttarafl Stykkishólms eru gömlu húsin sem hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga og gegna nú mörg hver ferðaþjónustutengdu hlutverki“

Þá er vísað í að Stykkishólmur hefur breyst úr hefðbundnu sjávarþorpi í bæjarsamfélag þar sem fjölbreyttir atvinnuvegir eru fyrir hendi. Ferðaþjónusta hefur haft jákvæð áhrif á uppbyggingu bæjarins, aukið hagvöxt og fjölbreytni atvinnulífsins. Við alla ákvarðanatöku hefur sjálfbær þróun verið höfð að leiðarljósi varðandi efnahagslega, menningarlega og félagslega þætti,“ segir enn fremur en Stykkishólmur hefur í samvinnu við fjögur önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi  fengið fullnaðarvottun umhverfisvottunarsamtakanna Earthcheck, eitt svæða á Íslandi.

Verðlaunin afhent í haust

Verðlaunaafhendingin og sýning með kynningu á öllum verðlaunaáfangastöðunum fer fram í Brussel í haust. Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru bæði viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu.

Vestfirðir fyrsti EDEN-áfangastaður Íslands

Ísland tók í fyrsta sinn þátt í EDEN-verkefninu á árinu 2010, þegar samkeppnin var haldin í 4. sinn. Þema ársins 2010 var Sjálfbær ferðaþjónusta tengd vatni (Sustainable Aquatic Tourism). Dómnefnd valdi þá Vestfirði og Vatnavini Vestfjarða sem fulltrúa fyrir hönd Íslands.

Dómnefndin var skipuð að þessu sinni þeim Hugrúnu Hannesdóttur frá Ferðaþjónustu bænda, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar,  Jóni Gunnari Borgþórssyni frá Íslandsstofu og Oddnýju Þóru Óladóttur frá Ferðamálastofu sem var formaður dómnefndar.

Verkefnisstjóri EDEN verkefnisins hérlendis er Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu.

Sjá rökstuðning dómnefndar í heild sinni (PDF)


Meðfylgjandi mynd var tekin á ferðasýningunni Íslandsperlum í dag þar sem útnefningin var tilkynnt. Talið frá vinstri: Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri Ferðamálastofu; Svanborg Siggeirsdóttir formaður Framfarafélagsins Eflingar í Stykkishólmi; Gyða Steinsdóttir bæjarstjóri; Gréta Sigurðardóttir, varaformaður Framfarafélagsins Eflingar; Berglind Axelsdóttir bæjarfulltrúi; Þórunn Sigþórsdóttir, landvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli; Oddný Þóra Óladóttir, formaður dómnefndar og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.