Fara í efni

Ferðasýningin Íslandsperlur 2011

Íslandsperlur
Íslandsperlur

Helgina 21.-22. maí verður ferðasýningin Íslandsperlur haldin í Perlunni . Sýningin er öllum opin og stendur báða dagana frá kl. 10-18.

Kynnast, spjalla, spyrja, borða
Þar gefst gestum tækifæri á að kynna sér fjölbreytta ferðamöguleika á Íslandi, skoða, spjalla og spyrja, bragða á íslenskum krásum og njóta fjölbreyttra uppákoma. Að Íslandsperlum standa markaðsstofur landshlutanna í ferðaþjónustu, Ferðaþjónusta bænda, Opinn landbúnaður og Beint frá býli.

Skemmtileg ferðagetraun
Sýningargestum verður boðið að ganga hringinn í kringum landið og fá smjörþefinn af því besta sem ferðalöngum stendur til boða í sumar. Auk þess býðst öllum að taka þátt í skemmtilegri ferðagetraun þar sem svörin við spurningunum leynast á sýningunni. Getraunin á eftir að reynast einhverjum gestum happadrjúg því í boði eru veglegir ferðavinningar.

Vatnið í forgrunni
Á Íslandsperlum í ár beinum við athyglinni að vatni í öllum sínum myndum; ánum, lækjunum, jöklunum, skíðasvæðunum, sundlaugunum og sjónum umhverfis landið. Fossar falla niður veggi og brúað verður yfir læki sem liðast á milli landshluta þar sem ferðaþjónustuaðilar kynna spennandi möguleika og nýjungar fyrir komandi ferðasumar.

Fjölbreytt afþreying
Hvort sem fólk hefur áhuga á fugla-, sela-, eða hvalaskoðun, gönguferðum um fjall eða fjöru, skella sér á söfn eða í sundlaugar, njóta menningar og lista, stunda stangveiði eða sjóböð,  slappa af í heilsulindum eða dvelja í blómlegum bæjum landsins þá finna allir örugglega eitthvað sem heillar á Íslandsperlum.