Fara í efni

Gistinóttum hótela fjölgaði um 1,5% í mars

Gisting mars 2011
Gisting mars 2011

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í mars síðastliðnum. Tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Gistinóttum fjölgaði um tæp 1,5% í mars 
Gistinætur á hótelum í mars síðastliðnum voru 96.900 en voru 95.400 í sama mánuði árið 2010. Gistinætur erlendra gesta voru um 71% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í mars en gistinóttum þeirra fækkar 1% á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgar um 10% samanborið við mars 2010.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Suðurlandi og á Norðurlandi. Á höfðuborgarsvæðinu voru 72.600 gistinætur í mars sem er 4% aukning frá fyrra ári. Gistinætur á Suðurnesjum voru 4.400 í mars sem er 25% aukning frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum úr 1.800 í 2.100 eða um 17% samanborið við mars 2010. Á Austurlandi var fjöldi gistinátta svipaður milli ára eða um 1.900. Gistinætur á Norðurlandi voru 5.300 í mars og fækkaði um 5% milli ára. Á Suðurlandi voru gistinætur 10.600 og fækkaði þeim um 17% milli ára.

Tæp 2% fjölgun fyrstu þrjá mánuði ársins
Gistinætur fyrstu þrjá mánuði ársins voru 232.400 en voru 228.000 á sama tímabili 2010. Fjölgunin er tæp 2%. Gistinóttum fjölgaði á Austurlandi um 20%, Suðurnesjum um 15% og 3% á höfuðborgarsvæðinu. Gistinætur voru svipaðar milli ára á Suðurlandi en annars staðar var fækkun, mest á Norðurlandi samanborið við fyrsta ársfjórðung 2010. Fyrstu þrjá mánuði ársins fjölgar gistinóttum Íslendinga sem og erlendra gesta um 2% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2010.