Fara í efni

Eftirlit með leyfislausum ferðaskipuleggjendum og ferðaskrifstofum

geysir
geysir

Átak í eftirliti með leyfislausum ferðaskipuleggjendum og ferðaskrifstofum stendur nú yfir á vegum Ferðamálastofu. Með lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála þurfa fyrirtæki sem bjóða upp á ferðir sem fela í sér ýmiss konar afþreyingu og frístundariðju, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, gönguferðir, fljótasiglingar, ævintýraferðir ýmis konar, veiði og fleira að afla sér starfsleyfi hjá Ferðamálastofu.

Mikil fjölgun leyfa
Nú þegar hafa tæplega 500 fyrirtæki leyfi til að selja ferðir og afþreyingu hér á landi og hefur verið stöðug fjölgun síðustu misserin. Eins og fram hefur komið er talsvert um leyfislausa aðila í rekstri og er markmið átaksins nú að ráða bót á því. Sérstakur starfsmaður var ráðinn til verkefnisins sem vinnur með lögfræðingi Ferðamálastofu að þessum málum. Haft verður samband við fyrirtæki, óskað eftir upplýsingum frá þeim um eðli starfseminnar og þeim síðan eftir atvikum leiðbeint um hvers konar leyfi þarf að sækja um.

Einfalt að sækja um leyfi
Umsókn um ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfi er hvorki flókinn né kostnaðarsamur ferill. Ferðaskrifstofuleyfi kostar 15.000 kr og ferðaskipuleggjendaleyfi 10.000 kr. Að auki er kostnaður við þau vottorð sem þarf að afla og tryggingar. Allar nánari upplýsingar um leyfisumsóknir má finna hér á vefnum undir „Leyfismál“.

Þar má einnig finna samantekt sem Ferðamálastofa gerði um leyfisskylda starfsemi innan ferðaþjónustu, hvaða leyfi þarf fyrir hverja tegund starfsemi og hvar þeirra er aflað.