Fara í efni

Tímamót í skráningu og upplýsingagjöf um aðgengi fatlaðra

Gott aðgengi
Gott aðgengi

Nú er að ryðja sér til rúms hérlendis nýtt kerfi sem veitir upplýsingar um aðgengi að byggingum og útisvæðum ætluðum almenningi. Upplýsingarnar birtast á vefnum www.gottadgengi.is en sambærilegur aðgangur almennings að þessum upplýsingum er varða Ísland hefur ekki verið til staðar fyrr en nú.

Byggir á sjö flokkum
Að verkefninu stendur fyrirtækið Aðgengi sem rekið er af Hörpu Cilia Ingólfsdóttur. „Þegar talað er um aðgengi fatlaðra kemur yfirleitt upp í hugann hjá fólki mynd af manneskju í hjólastól. Skilgreining á fötlun getur engu að síður átt við handa- eða gönguskerta, ofnæmis- og astmaveika, fólk með lestrarörðugleika og sjónskerta sem og þroskahamlaða og heyrnarskerta.“ segir Harpa. Kerfið sem um ræðir byggir á danskri fyrirmynd og byggir á sjö flokkum sem einmitt taka til áðurnefndra flokka fötlunar. Á heimasíðunni eru upplýsingar um öll sjö merkin og leitarvél sem auðveldar almenningi aðgang að upplýsingum um vottaða staði og hvernig aðgengið er á þeim. Allar grunnupplýsingarnar sem skráðar eru í kerfið er einnig að finna á ensku, dönsku, sænsku og þýsku.

Auðveldar skipulagningu ferðalaga
Harpa bendir á að vefsíður sem þessar auðvelda skipulagningu bæði á hversdagslegum ferðum sem og ferðalögum fatlaðra. „Hér áður fyrr fór mikill tími í að skipuleggja þessar ferðir en með nútíma tækni og vottun verður þetta miklu einfaldara og fljótlegra fyrir almenning og skipuleggjendur að notast við.“ Segir Harpa. „Þetta er einnig stór markhópur fyrir ferðaþjónustuaðila að ná til, eins og hótel, veitingahús, ferðaskipuleggjendur og bílaleigur til að mynda, sem fyrirtæki hafa kannski ekki gert sér hugmyndir um fyrr en nú.“

Fyrstu aðilarnir fá vottanir sínar
Nú þegar hafa nokkur hótel og veitingastaðir látið taka út aðgengi sitt ásamt um 20 náttúruperlum á Suðurlandi. Sveitarfélagið Garður var fyrst til fá vottun fyrir skóla, söfn og fleiri staði sem tilheyra sveitarfélaginu. Á næstu vikum mun Harpa fara hringinn í kringum landið til að vekja athygli á mikilvægi aðgengis fatlaðra og Aðgengismerkjakerfinu. Til liðs við hana hafa gengið Diddú söngkona, Edda Heiðrún Bachman leikkona, Helgi Hjörvar alþingismaður, Árni Tryggvason leikari og sjómaður, Jónína Leósdóttir rithöfundur, Eyþór Ingi tónlistamaður og söngvari og Daníel Ólafsson framhaldsskólanemi. Öll munu þau prýða veggspjald og upplýsingabækling sem útskýrir mikilvægi aðgengis fyrir hóp sem þau tilheyra og er þessu átaki ætlað að beina sjónum að þessu aðkallandi málefni og þeim stóra hóp sem geta nýtt sér Aðgengismerkjakerfið á hverjum degi.

Ferðamálastofa styður verkefnið
Verkefnið hefur notið stuðnings ýmissa aðila, meðal annars Ferðamálastofu, sem veitt hefur styrk til úttektar á vinsælum ferðamannastöðum. Einnig mun úttekt samkvæmt kerfinu telja inn í nýja gæða- og umhverfiskerfið Vakann.


Fyrstu aðilarnir sem hljóta vottun á Norðurlandi fengu staðfestingar þess efnis afhentar í dag. Á myndinni eru talið frá vinstri: Harpa Cilia Ingólfsdóttir; Oddur Helgi Halldórsson, formaður bæjarráðs Akureyrar; Sigurbjörn Sveinsson, Hótel KEA; Bryndís Óskarsdóttir, Ferðaþjónustan Skjaldarvík; Stefán Tryggvason, Hótel Natur og Hrefna Ingólfsdóttir, Ferðaþjónustan Öngulstöðum.