Fréttir

Ensk útgáfa af tölfræðiriti Ferðamálastofu

Tölfræðibæklingur Ferðamálastofu, Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum, er nú kominn út í enskri útgáfu. Í honum má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um íslenska ferðaþjónustu og eru niðurstöðurnar settar fram á myndrænan hátt með stuttum skýringatextum. Líkt og íslenski bæklingurinn, sem út kom í byrjun mánaðarins, er enski bæklingurinn einöngu gefinn út í rafrænu formi, bæði sem PDF og vefútgáfa. Bæklingnum í PDF formi er auðvelt að hlaða niður og vista á eigin tölvu. Meðal  efnis í bæklingnum er eftirfarandi: Ferðaneysla innanlands eftir vöruflokkum, fjöldi ferðaþjónustustarfa og hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu og heildarútflutningstekjum. Erlendir ferðamenn til Íslands eftir komustöðum. Fjöldi gesta með skemmtiferðaskipum. Erlendir ferðamenn til Íslands um Keflavíkurflugvöll eftir mánuðum og tímabilum. Gistinætur á hótelum eftir mánuðum. Erlendir ferðamenn á Íslandi 2009-2010 (kyn, aldur, tilgangur ferðar, ferðafélagar, tegund ferðar, dvalarlengd). Erlendir ferðamenn á Íslandi  sumarið 2010 (hver er hvatinn að Íslandssferð, hvaða afþreying er nýtt, hvað finnst ferðamönnum minnisstæðast við Íslandsferðina og finnst fólki ferðin standa undir væntingum). Ferðalög Íslendinga árið 2010 í samanburði við ferðalög á árinu 2009 (hvenær ferðast Íslendingar á árinu og hvert, hversu lengi dvelja þeir, hvaða afþreyingu nýta þeir og hvaða gistingu). Ferðaáform Íslendinga 2011. Hlaða niður Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum, enska - mars 2011: PDF útgáfa  Vefútgáfa 
Lesa meira

Tengsl akademíu og menningartengdrar ferðaþjónustu

Föstudaginn 25. mars verður haldið málstofa í aðalbyggingu Háskóla Íslands með yfirskriftinni “Tengsl akademíu og menningartengdrar ferðaþjónustu“ Að því stendur rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Málstofan hefst kl.13 í stofu 220 í aðalbyggingu HÍ og stendur til kl. 16.30. Markmið málstofunnar er að kalla á umræðu um það hver aðkoma hugvísindaakademíunnar geti verið – skuli vera – að ferðaþjónustu, sem á örskömmum tíma er orðin ein af aðalatvinnugreinum landsins. Unnið er markvisst að uppbyggingu greinarinnar og framundan blasir enn við aukning að því marki sem valda mun róttækum breytingum á íslensku samfélagi. Sjónum verður beint að menningartengdri ferða-þjónustu, fagþekkingu hugvísinda á því sviði og stefnu, eða stefnuleysi, þeirra sem að uppbyggingunni standa. Stefnt er að því að umræða málstofunnar snúist meðal annars um hvernig þekking þeirra sem hafa menntað sig á sviði hug- og mannvísinda geti nýst til þess að auka gæði fyrirtækja og verkefna og um leið bætt atvinnumöguleika menntaðs fólks í hinni nýju atvinnugrein. Fyrirlestar: Lára Magnúsardóttir, forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Norðurlandi vestra: Þegar menning er atvinnulíf Áki G. Karlsson, þjóðfræðingur: Hagnýt(t) og ónýt(t) fræði: Hvernig þjóðfræðin bjó til menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og mennta- og menningarmálaráðherra: Menning og atvinna – andstæður eða samstæður? Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands: Menningarminjar og menningartengd ferðaþjónusta Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða: Rótað í framtíðinni: Gæðaþróun og samvinna Sólveig Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar: Friðargæslusveit UNESCO og upphefðin að utan Málstofustjóri: Valdimar Tryggvi Hafstein, dósent í þjóðfræði
Lesa meira

Sjöundi umsóknarfrestur NPP

 Þann 14 janúar 2011 mun Norðurslóðaáætlunin formlega opna tvær umsóknir: sjöunda umsóknarfrest til aðalverkefna og umsóknir um stefnumótandi aðalverkefni. Umsækjendum er bent á að lesa vel neðangreindar upplýsingar sem tilheyra umsóknunum, athugið að skjölin eru á ensku. Þær breytingar hafa orðið að eftirlitsráð áætlunarinnar (PMC) hefur tekið þá ákvörðun að hafa sjöunda umsóknarfrest opin öllum. Umsóknarfrestur fyrir báðar umsóknir er 21. mars 2011. Nánar á vef iðnaðarráðuneytisins
Lesa meira

Ferðaviðvörun vegna Japan

Utanríkisráðuneytið ræður Íslendingum frá ónauðsynlegum ferðalögum til Japan. Þeir sem engu að síður hyggja á ferðalög til Japan eru beðnir um að láta ráðuneytið vita um ferðaáætlanir sínar. Utanríkisráðuneytið ráðleggur Íslendingum sem eru staddir á Tókýó svæðinu eða fyrir norðan Tókýó að íhuga að flytja sig suður á bóginn þar til aðstæður skýrast. Borgaraþjónustan mun eftir atvikum liðsinna fólki við skipulag ferða en í öllu falli er fólk beðið um að láta vita um allar breytingar á högum sínum. Ráðuneytið ráðleggur fólki áfram fylgjast með leiðbeiningum japanskra stjórnvalda og ferðaleiðbeiningum annarra ríkja, sérstaklega norrænu ríkjanna. Í kjölfar hamfaranna í Japan ríkir enn óvissuástand á ákveðnum svæðum, viðvarandi jarðskjálftahætta, auk þess sem truflanir hafa orðið á samgöngum, birgðaflutningum og í raforkukerfi. Þá er ennfremur ótryggt ástand í kjarnorkuverinu í Fukushima og geislamengun í næsta nágrenni þess. Í öryggisskyni er íslenskum ríkisborgurum eindregið ráðlagt að fara ekki inn á svæði sem er nær Fukushima kjarnorkuverinu en 80 km. Utan þess svæðis er ekki talið að um beina heilsufarsógn sé að ræða en um nánari upplýsingar er bent á upplýsingar frá Geislavörnum ríkisins http://www.gr.is/. Hægt er að ná sambandi við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma 545-9900 eða með því að senda tölvupóst á netfangið help@mfa.is  
Lesa meira

Vatnavinir fá virt alþjóðleg verðlaun í arkítektúr

Samtökin Vatnavinir hafa hlotið virt alþjóðleg verðlaun í arkitektúr „Global Award for Sustainable Architecture 2011“ fyrir verkefnið Heilsulandið Ísland. Í tilkynningu segir að verðlaunin séu veitt af Locus Foundation sem hefur það að markmiði að veita arkitektum er starfa víða um heim viðurkenningu fyrir framþróun á sviði sjálfbærni í arkitektúr.  Yfir 200 tilnefningar bárust til verðlaunanna og eru fimm viðurkenningar veittar á ári hverju. Vatnavinir samanstanda af alþjóðlegum hópi fagfólks sem koma úr ólíkum greinum byggingarlistar, hönnunar, markaðssetningar, ferðamennsku, heimspeki og listum. Verðlaunin, eru nú veitt í fimmta sinn, en fyrri verðlaunahafar telja m.a. Snöhetta, arkitektar að Óperuhúsinu í Osló.   Formleg verðlaunaafhending verður  í Cité de l´Architecture í París í maí. Eitt af markmiðum Locus Foundation er að efla alþjóðlegt samstarf sérfræðinga á sviði sjálbærni og að efla aukna vitund fagaðila sem almennings um nauðsyn samfélagslegrar ábyrgðar við mótun manngerðs umhverfis. Arkitektarnir og félagarnir í Vatnavinum Olga Guðrún Sigfúsdóttir, Sigrún Birgisdóttir  og Jörn Frenzel kynna verkefni Vatnavina í Cité de l´Architecture í París og taka þátt í ráðstefnu á vegum Unesco og Locus Foundation „ Rediefining progress: Architecture for a new Humanism“ í lok maí á þessu ári. Vefsíða Vatnavina: www.vatnavinir.is
Lesa meira

Hver verður fulltrúi Íslands sem gæðaáfangastaður í Evrópu?

Ferðamálastofa óskar eftir umsóknum vegna fimmtu evrópsku EDEN- samkeppninnar um gæða áfangastaði í Evrópu, European Destination of Excellence. Þema þessa árs er „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ Markmið:Markmið EDEN verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni. Þema ársins:Þema þessa árs er „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ (Tourism and Regeneration of Physical Sites). Athyglinni er beint að svæðum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk sem ferðamannastaðir, eftir að hafa áður gegnt einhverju öðru og alls óskyldu hlutverki. Svæðin eða staðirnir geta verið af ýmsu tagi og fyrra hlutverk þeirra getur hafa verið margvíslegt. Það getur svo dæmi sé tekið hafa tengst iðnaði flutningum, grunngerð samfélagsins, landbúnaði, sjávarútvegi o.s.frv. Það getur líka hafa tengst menningarlegri starfsemi eða sögu staðarins, ásamt öðru. Áfangastaðurinn þarf m.a. að uppfylla eftirfarandi skilyrði: Staðurinn/svæðið má ekki vera hefðbundinn ferðamannastaður. Fjöldi ferðamanna skal vera lítill eða mjög lítill miðað við landsmeðaltal. Staðurinn/svæðið þarf að hafa verið breytt frá sínu upprunalega ástandi eða hlutverki í að vera áfangastaður ferðamanna og hafi sett sér markmið um að starfa skv. markmiðum WTO um sjálfbæra ferðaþjónustu*. Til að staður/svæði eigi erindi í keppnina þarf hlutverki hans að hafa verið breytt algjörlega. Staðurinn/svæðið þarf að hafa verið til staðar í a.m.k. 2 ár frá því að hann fékk nýtt hlutverk. Skilar umfjöllun og markaðssetningu:Einn áfangastaður er valinn frá hverju þátttökuríki í Evrópu og hljóta verðlaunahafar titilinn „2011 EDEN Destination for the Regeneration of Physical Sites“. Verðlaunaafhendingin og sýning með kynningu á öllum verðlaunaáfangastöðunum fer fram í tengslum við ferðamálaráðstefnuna The European Tourism Forum í haust. Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru bæði viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu. Árið 2010 hlutu Vestfirðir og Vatnavinir Vestfjarða EDEN verðlaunin fyrir hönd Íslands. Ath! Engin eiginleg peningaverðlaun eru í boði. Hverjir geta tekið þátt?Bæir, sveitarfélög og landssvæði sem mynda landfræðilega heild og sem falla undir skilyrðin hér að ofan. Útfyllt umsóknareyðublöð (sjá hér að neðan) þurfa að hafa borist á netfang umhverfisstjóra Ferðamálastofu sveinn@ferdamalastofa.is fyrir miðnætti 12. apríl 2011. Ath! Aðeins vandaðar umsóknir, sem eiga fullt erindi í þessa samkeppni, koma til greina. Skjöl til útfyllingar og leiðbeiningar: Umsóknareyðublað (word) Nánari leiðbeingar við umsókn  - enska (word) Vefsíður með nánari upplýsingum: http://ec.europa.eu/eden (vefur verkefnisins) http://en.wikipedia.org/wiki/European_Destinations_of_Excellence ______________________________________ * Skilgreining World Tourism Organization (UNWTO) á sjálfbærri ferðamennsku frá 2004 hljóðar svo: „Sjálfbær ferðaþjónusta á að: - Nýta umhverfisauðlindir sem gegna lykilhlutverki í þróun ferðaþjónustu á sem bestan og hagkvæmastan hátt en viðhalda jafnframt nauðsynlegum vistfræðilegum ferlum og aðstoða við verndun náttúruarfs og líffræðilegrar fjölbreytni; - Virða félags- og menningarlegan upprunaleika samfélaga í heimabyggðum, vernda menningararf þeirra, bæði byggingararf og samtímamenningu, og hefðbundin lífsgildi, og stuðla að skilningi og umburðarlyndi á milli ólíkra menningarhópa; - Tryggja lífvænlega, langtíma efnahagslega starfsemi sem veitir öllum hagsmunaaðilum félagslegan og hagrænan ávinning er dreifist á milli þeirra á sanngjarnan hátt, þ.m.t. hvað varðar stöðugleika í möguleikum til atvinnuþáttöku
Lesa meira

Aðalfundur Samtaka um heilsuferðaþjónustu

Aðalfundur Samtaka um heilsuferðaþjónustu verður haldinn þriðjudaginn 22. mars 2011 á Grand hóteli, Hvammi, Sigtúni 38, 105 Reykjavík og hefst hann kl 13:30. Dagskrá: 13:30 Erindi um heilsuferðaþjónustu í Ungverjalandi– CsillaMezösiráðgjafi, sem hefur verið verkefnisstjóri yfir mörgum verkefnum í heilsuferðaþjónustu í Ungverjalandi og Þýskalandi og varaforseti European Spa Association. Fyrirspurnir Kynning á stefnumótun Samtaka um heilsuferðaþjónustu– Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins og stjórnarmaður í Samtökum um heilsuferðaþjónustu Kaffihlé 15:00 Aðalfundur1) Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár2) Kynning og afgreiðsla aðildarumsókna3) Afgreiðsla reikninga4) Lagabreytingar.5) Starfsáætlun fyrir komandi starfsár og fjárhagsáætlun6) Ákvörðun árgjalds7) Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga8) Önnur málVinsamlegast tilkynnið þátttöku í netfangið skraning@ferdamalastofa.is Dagskrá sem pdf
Lesa meira

Umsóknarfrestur vegna NATA-styrkja

Auglýst hefur verið eftir styrkumsóknum frá NATA, samstarfssamningi Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Í samræmi við áherslubreytingu sem nýr samningur landanna kveður á um er nú hægt að sækja um styrki til tvenns konar verkefna. Annars vegar verkefna í ferðaþjónustu, eins og verið hefur, og hins vegar ferðastyrki, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna. Styrkir til verkefna í ferðaþjónustu Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu á milli landanna þriggja geta sótt um styrk að hámarki 100.000 danskar krónur og skulu umsóknir fela í sér samstarf milli einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Ekki eru veittir styrkir vegna launakostnaðar, ráðgjafar, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar. Sækja má um aðstoð á eftirfarandi sviðum ferðaþjónustu. Til markaðssetningar Til nýsköpunar- og – vöruþróunar.. Í kynnisferðir á milli ferðaþjónustufyrirtækja Til gæða- og umhverfismála innan ferðaþjónustunnar. Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi þátta: Verkefnishugmyndar og gæða umsóknarinnar Nýnæmis verkefnisins Markaðstengingar Kostnaðaráætlunar, fjármögnunar Samfélagslegs gildis Styrkir vegna kynnis- og námsferða Eitt af markmiðum samstarfssamnings um ferðamál á milli Íslands, Grænlands og Færeyja er að auka samskipti og fjölga heimsóknum á milli landanna þriggja. Því er stefnt að því að ráðstafa 25% af samningnum í slíka styrki. Ferðaþjónustuverkefni eru þó enn sem fyrr þungamiðjan í samningnum. Hér með eru auglýstir ferðastyrkir til þeirra sem vinna að samstarfsverkefnum sem varða tvö af löndunum þremur hið minnsta. Styrkjunum er einvörðungu ætlað að standa straum af ferðakostnaði. Hámarksstyrkur á hvern einstakling er  1.000 danskar krónur og hvert verkefni fær að hámarki 20.000 danskar krónur í heildarstyrk.Samskipti skóla - árganga, bekkja - ganga að öðru jöfnu fyrir við mat á umsóknum. Sækja má um styrk til kynnis- og námsferða eftirtaldra: Skóla Íþróttahópa Tónlistarhópa Annars menningarsamstarfs Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi atriða: Verkefnishugmynd og gæði umsóknar Nýnæmi verkefnisins Tilgangur ferðar Gagnkvæm tengsl Kostnaðaráætlun, fjármögnun Ávinningur af verkefninu Hvar er hægt að sækja um?Allar umsóknir skulu vera á dönsku eða ensku á þar til gerðum eyðublöðum (á word-formi) sem nálgast má hér að neðan. Best er að byrja á að vista eyðublöðin á eigin tölvu áður en útfylling hefst. Umsókn vegna verkefna í ferðaþjónustu (Word) Danska - Enska Umsókn vegna kynnis- og námsferða (Word)  Danska - Enska Umsóknir sendist tilÓskað er eftir að skannaðar umsóknir með undirskrift verði sendar í tölvupósti á netfangið: skraning@ferdamalastofa.is Einnig er hægt að senda útfyllt eyðublöð í pósti til: NATA c/o FerðamálastofaGeirsgata 9101 Reykjavík SkilafresturLokafrestur til að skila umsókn er 13. mars 2011. Svör við umsóknum verða send umsækjendum eigi síðar en 20. apríl næstkomandi.  
Lesa meira

Íslenskir golfvellir í fararbrodd í umhverfismálum

Á  undanförnum misserum hefur verið könnuð sjálfbærni íslenskra golfvalla í samstarfi við golfklúbba landsins. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við GEO, (Golf Environment Organization) og byggist á því að skoða félagslega, hagfræðilega og umhverfislega þætti í rekstri golfklúbba á Íslandi. Golfvellir á Íslandi hafa verið í fremstu röð þegar skoðaðir eru ýmsir mælikvarðar varðandi sjálfbærni. Vellirnir hafa verið lagðir án þess að raska þeirri náttúru sem þeir eru lagðir í og lögð hefur verið áhersla á að varðveita sérkenni umhverfisins t.d. votlendi og varpsvæði fugla. Nú að lokinni úttekt hefur GEO staðfest að allir 65 golfklúbbar landsins hafi tekið þátt í umhverfisverkefni samtakanna sem nefnt er „ON COURSE“ og er Ísland þar með fyrsta landið sem nær þeim áfanga. Af því tilefni afhenti Framkvæmdastjóri GEO, Jonathan Smith Umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur viðurkenningarskjal sem hún tekur við fyrir hönd Golfsambands Íslands og þar með undirstrika mikilvægi þess að umhverfismál og sjálfbærni séu forgangsmál og nauðsynlegt að hafa í huga við uppbyggingu sem og rekstri íþróttamannvirkja á Íslandi. Af því tilefni afhenti Framkvæmdastjóri GEO, Jonathan Smith Umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur viðurkenningarskjal sem hún tók við fyrir hönd Golfsambands Íslands og þar með undirstrikað mikilvægi þess að umhverfismál og sjálfbærni séu forgangsmál og nauðsynlegt að hafa í huga við uppbyggingu sem og í rekstri íþróttamannvirkja á Íslandi. Þá er ljóst að þessi viðurkenning á sjálfbærni allra golfvalla á Íslandi hefur verulegt markaðslegt gildi í allri kynningu gagnvart erlendum söluaðilum og neytendum. Frétt á heimasíðu GEO  www.golfenvironment.org/about/news/view/icelandic-golf-makes-unanimous-on-course-pledge    
Lesa meira

Öskudagurinn 2011

Venju fremur gestkvæmt var á skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri í morgun. Rík hefð er í bænum fyrir öskudeginum þar sem börn fara í hópum um bæinn og syngja í skiptum fyrir eitthvað góðgæti. Hóparnir sem heimsóttu Ferðamálastofu voru af ýmsum stærðum og gerðum. Í þeim mátti samkvæmt venju finna hinar ýmsu kynjaverur, allt frá englum til hvers kyns púka og illmenna, þ.e.a.s. á yfirborðinu. Söngurinn var að sama skapi í ýmsum tóntegundum en allir fóru sælir á braut með nammi í poka. Meðfylgjandi myndir voru teknar af nokkrum hópum sem litu við í morgun og að neðan er einnig myndband af einu söngatriðinu.
Lesa meira