Fara í efni

Gistiskýrslur 2010 komnar út

Gistiskýrslur 2010
Gistiskýrslur 2010

Hagstofa Íslands hefur gefið út ritið Gistiskýrslur 2010. Í þessu riti eru birtar niðurstöður um  gistináttatalningu fyrir allar tegundir gististaða árið 2010.

Heildarfjöldi seldra gistinátta var tæpar 3 milljónir árið 2010, en það er svipaður fjöldi og árið 2009. Gistinætur erlendra ríkisborgara voru 71,2% af heildarfjölda gistinátta árið 2010 og sem fyrr keyptu Þjóðverjar flestar gistinætur, þá Bretar og svo Frakkar. Í samanburði við árið 2009 fjölgaði gistinóttum Belga hlutfallslega mest eða um rúm 25%, gistinóttum Kanadamanna fjölgaði um 14% og Bandaríkjamanna um 10%. Gistinóttum Ítala fækkaði hlutfallslega mest frá fyrra ári eða um 24%, gistinóttum Spánverja fækkaði um 20% og Japana um 17%.

Flestar gistinætur árið 2010 voru á hótelum og gistiheimilum eða 68%, á tjaldsvæðum voru 19% gistinátta og 6% á farfuglaheimilum. Gistinóttum fjölgaði milli ára á hótelum og gistiheimilum, farfuglaheimilum og heimagististöðum en fækkaði á öðrum tegundum gististaða.

Eftir landsvæðum fjölgaði gistinóttum hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi vestra. Þeim fjölgaði einnig á Austurlandi, Norðurlandi eystra og á Suðurnesjum. Gistinóttum fækkaði lítillega á Vesturlandi og Vestfjörðum miðað við árið 2009. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum mest á milli ára, um rúm 12%. Samdráttur seldra gistinátta á Suðurlandi er vegna eldgossins í Eyjafjallajökli en þrátt fyrir það voru þær tæplega 7% fleiri á síðasta ári en árið 2008.

 

Rannsókn Hagstofunnar tekur til allrar seldrar gistiþjónustu að undanskildum orlofshúsum félagasamtaka, stéttar- og starfsmannafélaga. Gistináttatalning Hagstofunnar er þýðisrannsókn og árið 2010 var beðið um upplýsingar frá 768 gististöðum. Heimtur voru góðar hjá stærri gististöðum en lakari hjá smærri aðilum. Upplýsingar um gistirými sem liggja fyrir nýtast til að áætla gistinætur hjá stöðum sem ekki skila gögnum. Rannsóknin nær til allra gististaða óháð því hvort viðkomandi staður hafi gistileyfi. Hagstofan telur að gististaðir sem gætu verið vantaldir séu yfirleitt smáir heimagististaðir sem leigja út fá herbergi óreglulega yfir árið og hafa óveruleg áhrif á heildarniðurstöður. Árið 2010 var gögnum safnað frá 127 heimagististöðum og eru þær gistinætur 1,8% af heildarfjölda gistinátta árið 2010.

Gistiskýrslur 2010 - Hagtíðindi.