Fara í efni

Viðhorfsrannsókn um Ísland í Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi

Strokkur
Strokkur

Viðhorf til Íslendinga er jákvætt á megin markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu og viðhorf til Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn er óbreytt frá því 2007 í Bretlandi og Þýskalandi. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar þar sem Ferðamálastofa og Útflutningsráð Íslands fengu ParX Viðskiptaráðgjöf IBM til að rannsaka viðhorf almennings til Íslands í þremur löndum; Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku.

Meginniðurstöður
Ísland er sem fyrr helst tengt við náttúru, þó staða þjóðarbúsins sé einnig ofarlega í huga almennings í Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Flestir telja að viðhorf sitt til Íslands sé óbreytt frá því fyrir 12 mánuðum eða 66-84% en þó nefna 7-21% að viðhorf þeirra hafi versnað, hlutfallslega flestir í Bretlandi, en fæstir í Þýskalandi. Helsta ástæða þess að viðhorf hefur breyst er efnahagsástandið.
Helstu ástæður þess að heimsækja Ísland eru náttúra og menning. Þeir sem sótt hafa landið heim og hafa hug á því eru jákvæðari til landsins en aðrir.

Tilgangur rannsóknarinnar er að byggja upp hagnýt viðmið sem nýtast við mat og uppbyggingu á ímynd landsins. Í því samhengi var kannað viðhorf almennings til lands og þjóðar sem og viðhorf til íslenskrar vöru, þjónustu og landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru bornar saman við niðurstöður sem fengust úr rannsókn sem gerð var árið 2007 um ímynd Íslands og áhrif hvalveiða.

Vitund og áhugi Dana, Breta og Þjóðverja á Íslandi
Þrátt fyrir að viðhorf til Íslands á heildina litið hafi versnað segja flestir að viðhorfið sé óbreytt. Fáir eru neikvæðir gagnvart Íslandi, flestir jákvæðir eða hlutlausir. Fram kemur að 26-59% séu jákvæð gagnvart Íslandi, en 1-15% neikvæð. Danir eru jákvæðastir en Bretar neikvæðastir. Viðhorfið mælist verra í Bretlandi og Þýskalandi en það var árið 2007.

Ísland ? hvað kemur upp í hugann?
Flestir tengja Ísland við náttúru (t.d. ís, hveri, jökla, eldfjöll, vatn, snjó, kulda, hesta, fisk og náttúrufegurð). Mörg ummæli eru einnig um íslenskt hagkerfi (t.d. fjármálakreppu, fiskveiðar og banka) þegar spurt er hvað komi fyrst upp í hugann þegar hugsað er um Ísland.

Viðhorf til Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn
Viðhorf til Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn er gott og hefur ekki breyst í Bretlandi og Þýskalandi frá árinu 2007. Milli 38-70% eru jákvæð en 9-27% eru neikvæð. Danir eru jákvæðastir, en Bretar neikvæðastir. Náttúra og menning eru þeir þættir sem eru líklegastir til að laða ferðamenn til Íslands.
Alls hafa 5-14% ferðast til Íslands, hlutfallslega flestir Danir. Þá segja 17-43% líklegt að þeir ferðist til Íslands, hlutfallslega flestir Danir en fæstir Bretar. Þeir sem hafa ferðast til Íslands eru jákvæðari gagnvart Íslandi og líklegri til að ferðast þangað aftur.

Umfjöllun um Ísland
Hvað varðar umfjöllun um Ísland í fjölmiðlum, virðast efnahagsmál hafa verið áberandi þar sem flestir hafa tekið eftir þeim, eða 38-71%. Náttúru- og umhverfismál voru einnig áberandi í Þýskalandi, en ekki nærri jafn áberandi og efnahagsmálin. Umfjöllunin hafði neikvæð áhrif á 12-35%, en jákvæð áhrif á      11-28%. Jákvæðust voru áhrifin í Þýskalandi, en neikvæðust í Bretlandi.

Viðhorf til Íslendinga og búsetu, starfa og náms
Flestir eru jákvæðir gagnvart Íslendingum, eða 41-66%. Aðeins 1-4% eru neikvæðir. Danir eru jákvæðastir, en Þjóðverjar eru neikvæðastir.
Viðhorf til þess að búa, starfa eða stunda nám á Íslandi er síður gott, en 15-51% eru neikvæðir á meðan 13-20% eru jákvæðir. Þjóðverjar eru jákvæðastir en Danir neikvæðastir.

Viðhorf til íslenskra vara, þjónustu og vörumerkja
Fleiri eru jákvæðir en neikvæðir gagnvart íslenskum vörum, þjónustu og vörumerkjum; 16-29% eru jákvæðir, en 3-12% neikvæðir. Allnokkrir (12-25%) taka ekki afstöðu til málsins.
Danir eru jákvæðastir og meta jafnframt gæði varanna mest. Bretar eru neikvæðastir gagnvart íslenskum vörum, þjónustu og vörumerkjum, en Þjóðverjar telja gæði varanna lökust.

Staða íslensks þjóðarbús
Staða íslensks þjóðarbús er veik að mati þátttakenda í þessari könnun. Danir telja hana veikasta.

Um rannsóknina
Gagna var aflað símleiðis í spurningavögnum í gegnum lagskipt slembiúrtak í Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Spurt var í febrúar 2009 og voru þátttakendur 1000 á hverjum markaði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum ParX viðskiptaráðgjafar IBM í samstarfi við Útflutningsráð og Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa lét gera viðhorfsrannsókn um Ísland og hvalveiðar í fimm löndum árið 2007. Hægt var að nýta niðurstöður þeirrar könnunar til viðmiðunar og samanburðar við svör Breta og Þjóðverja nú. Um var að ræða spurningar um hvað kemur upp í hugann þegar hugsað er um Ísland, heildarviðhorf til Íslands, viðhorf til Íslands sem áfangastaðar og hvort viðkomandi hafi ferðast til Íslands.

Skýrslan er aðgengileg hér á vefnum í gangabanka um útgefið efni. Viðhorfsrannsókn um Ísland

Nánari upplýsingar veita:
Inga Hlín Pálsdóttir hjá Útflutningsráði Íslands, inga@utflutningsrad.is, sími 511 4000/824 4375 og Oddný Þóra Óladóttir hjá Ferðamálastofu oddny@icetourist.is, sími 535 5500/893 6602.