Fara í efni

Mikill Íslandsáhugi á World Travel Market

WTM 2008
WTM 2008

Ísland var sem fyrr meðal þátttakenda á hinni árlegu ferðasýningu World Travel Market í London, einni stærstu ferðasýningu í heimi, sem lauk í liðinni viku. Vel tókst til og íslensku fyrirtækin fundu fyrir miklum áhuga á ferðum til landsins.

Sem fyrr sá Ferðamálastofa um undirbúning og skipulagningu fyrir Íslands hönd en 16 íslensk fyrirtæki auk Ferðamálastofu voru meðal þátttakenda. Líkt og fyrri ár var sýningarsvæðið sett upp í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndunum. Að sögn Sigríðar Gróu Þórarinsdóttur, markaðsfulltrúa fyrir Bretland, tókst framkvæmdin vel. Áhugi á Íslandi var mikill og síst minni en verið hefur. T.d. fóru um 200 fleiri Íslandsbæklingar Ferðamálastofu en á undanförnum árum sem er eitt dæmi um aukna umferð á íslenska sýningarsvæðinu.

Mikil að vöxtum
World Travel Market er mikil að vöxtum en hún er haldin í glæsilegri sýningahöll, ExCel í Docklands, austast í London. Sýningarbásarnir eru um 700 talsins og þarna koma saman um 4.900 sýnendur frá öllum heimshornum. Sýningin stendur yfir í fjóra daga. Fyrstu sýningardagana er einungis fagaðilum í viðskiptaerindum veittur aðgangur en seinni dagana er einnig opið fyrir almenning. Á myndinni hér að ofan er Clair Horwood hjá Saltmarshpr, almannatengslafyrirtæki Ferðamálastofu í Bretlandi. Mynd. Sigríður Gróa.