Fara í efni

Viðurkenningar til aðila í ferðaþjónustu

Verðlaun Hótel Höfn 2008
Verðlaun Hótel Höfn 2008

Ráðstefna um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökulsþjóðgarðs var haldin á Höfn og Smyrlabjörgum um síðustu helgi. Samhliða var uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á svæðinu og voru þar veittar viðurkenningar til aðila í ferðaþjónustu.

Fyrri ráðstefnudagurinn var í þekkingarsetrinu Nýheimum á Höfn og á Hótel Höfn. Hjörleifi Guttormssyni var þar veitt heiðursviðurkenning frá Ríki Vatnajökuls fyrir aðkomu sína að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs en viðurkenningin var þakklætisvottur fyrir að færa ferðaþjónustunni það tækifæri sem fellst í því að hafa stærsta þjóðgarð Evrópu við bæjardyrnar, ?Svo er bara að sjá hvernig við getum nýtt okkur það tækifæri en það var einmitt efni ráðstefnunnar í hnotskurn,? segir Rósa Björk framkvæmdastjóri Ríki Vatnajökuls.

Seinni dagurinn fór fram á Smyrlabjörgum og voru haldnir frjóir vinnufundir þar sem að skipt var upp í þrjá hópa: Fræðslu og menningarferðaþjónusta, Skilgreining á Vetrarferðamennsku og Útivisst og Fjallamennska, Margar mjög skemmtilegar hugmyndir komu fram þegar að vinnuhóparnir kynntu niðurstöður sínar og verða þessar hugmyndir listaðar upp og unnið með þær áfram þannig að vonandi verður eitthvað af þessum hugmyndum að vöru og veruleika.

Viðurkenningar á uppskeruhátíð
Þá var einnig haldin Uppskeruhátíð klasans að Smyrlabjörgum á föstudagskvöldið sem Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélag Austur- Skaftafellssýslu stóð fyrir.  Veittar voru viðurkenningar annars vegar frá Ríki Vatnajökuls og FASK og hins vegar frá Ferðamálasamtökum Íslands.

Fyrir valinu hjá þeim fyrrnefndu varð Hótel Höfn sem hefur verið mikil kjölfesta í ferðaþjónustu á svæðinu. Viðurkenningin nefnist Vitinn - öðrum leiðarljós og er veitt fyrirtækjum eða einstaklingum sem með einum eða örðum hætti hafa verið öðrum aðilum í greininni leiðarljós. Var það samdóma álit að eigendur Hótels Hafnar séu verðugir handhafar Vitans. Á myndinni eru frá vinstri: Þórdís Einarsdóttir, Gísli Már Vilhjálmsson, Óðinn Eymundsson, Elísabet Jóhannesdóttir, Rósa Björk Halldórsóttir og Sigurlaug Gissurardóttir

Ferðamálasamtök Íslands veittu viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu í ferðaþjónustu og rannsóknir. Viðurkenninguna afhenti Pétur Rafnsson, formaður samtakanna, og kom hún í hlut Nýheima. Tók Ari Þorsteinsson við henni fyrir hönd Nýheima. Í rökstuðningi segir meðal annars að viðurkenningin sé veitt öllum þeim aðilum innan Nýheima sem hafi með markvissu samstarfi sín á milli skotið nýjum, sterkum stoðum undir rekstur ferðaþjónustu í Ríki Vatnajökuls. Með því hefur eflst enn frekar sú öfluga ferðaþjónusta sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum og þekkt er á landsvísu fyrir samheldni, kjark og þor. Á myndinni eru, talið frá vinstri: Rósa Björk Halldórsdóttir, Þorvarður Árnason, Björg Erlingsdóttir, Ari Þorsteinsson og Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands.