Ný gæðakönnun meðal erlendra ferðamanna

Ný gæðakönnun meðal erlendra ferðamanna
Haukur á siglingu

Ný könnun Ferðamálastofu um viðhorf erlendra gesta til gæðamála í íslenskri ferðaþjónustu er nú aðgengileg hér á vefnum. Um er að ræða fyrstu rafrænu könnunina sem Ferðamálastofa gerir meðal erlendra gesta. Könnunin er unnin í framhaldi af sambærilegri viðhorfskönnun meðal Íslendinga sem gerð var á árinu 2006.

Meginmarkmið var að mæla viðhorf erlendra ferðamanna til gæða á nokkrum grunnþáttum íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun sem framkvæmd var á tímabilinu september til desember í fyrra. Netföngum var safnað meðal ferðamanna á brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar með skipulögðum hætti á tímabilinu 27.júlí til 24.október síðastliðinn. Úrtakið var 3.208 manns og var svarhlutfallið 57,2%. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum Capacent Gallup.

Efnisþættir könnunarinnar
Efnisþættir könnunarinnar voru níu talsins: Ferðir til og frá Íslandi, kaupferlið, veitinga- og skyndibitastaðir, gisting, afþreying, samgöngur, upplýsingagjöf, ferðamannastaðir og vegakerfið. Auk þess var spurt um bakgrunn svarenda, þætti sem höfðu áhrif á ákvörðun um Íslandsferð, hvar ferðin var keypt, tilgang og tegund ferðar, dvalarlengd, hvaða staðir voru heimsóttir og væntingar.

Menning og saga meiri áhrifaþættir
Niðurstöður gefa til kynna að Ísland laðar til sín sem fyrr vel stæða einstaklinga í góðum störfum með áhuga á náttúru landsins. Sé borið saman við eldri kannanir þá eru vísbendingar um að menning og saga hafi aukin áhrif á ákvörðun um Íslandsferð. Þá eru hlutfallslega fleiri að koma hingað í frí og fleiri kaupa ferðina á netinu. Dvalarlengdin er með svipuðum hætti og fyrri kannanir sýna, 10 nætur að sumri og 5-6 nætur að vetri. Af 19 ferðamannastöðum vítt og breitt um landið sögðust langflestir erlendu gestanna hafa heimsótt Geysi (75,4%) og Þingvelli (67,3).

Afþreying skorar hæst
Ferðaþjónustuþættir fá mismunandi einkunn hjá svarendum en þeir 130 þættir sem lagðir voru til grundvallar í könnuninni fengu að jafnaði 7,3 í einkunn, á kvarðanum 0-10. Erlendir ferðamenn eru jákvæðastir gagnvart afþreyingunni og gefa henni ágætis einkunn (8-10) en neikvæðastir gagnvart skyndibitastöðum, einkum hvað varðar fjölbreytni og gæði. Sem fyrr er verðlagið einnig sá þáttur sem fær almennt lægstu einkunn.

81% gáfu ferðinni ágætiseinkunn
Þó svo margt bendi til að ferðaþjónusta megi huga að bættum gæðamálum þá leiðir könnunin í ljós að 81% aðspurðra gáfu ferðinni ágætis einkunn (8-10), 17% gáfu sæmilega einkunn (5-7) og 2% falleinkunn (0-4).

Meðaleinkunn nokkurra þátta
Þegar spurt var um heildaránægju fólks með tiltekna þætti þá var útkoma þeirra þessi:

  • Veitingastaðir: Á höfuðborgarsvæðinu 7,0; á landsbyggðinni 6,4.
  • Skyndibitabitastaðir: Á höfuðborgarsvæðinu 6,4; á landsbyggðinni 5,5.
  • Gisting: Bændagisting 7,7; hótel 7,6; tjaldsvæði 7,5; gistiheimili 7,4; farfuglaheimili 7,4
  • Afþreying: Heilsutengd afþreying á höfuðborgarsvæðinu 8,4; hHeilsutengd afþreying á landsbyggðinni 8,2; náttúrutengd afþreying á höfuðborgarsvæðinu 8,2; náttúrutengd afþreying á landsbyggðinni 8,1; menningartengd afþreying á höfuðborgarsvæðinu 8,0; menningartengd afþreying á landsbyggðinni 7,8.

     
  • Könnunin í heild sinni (PDF 3,5 MB)

Athugasemdir