Hópbílar hlutu starfsmenntaviðurkenningu SAF

Hópbílar hlutu starfsmenntaviðurkenningu SAF
Hopbílar frá starfsmenntaviðurkenningu saf

Starfsmenntaviðurkenning Samtaka ferðaþjónustunnar var afhent í fyrsta sinn á Degi menntunar í ferðaþjónustu, sem haldin var á Grand Hóteli í gær. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra afhenti viðurkenninguna sem kom í hlut Hópbíla í Hafnarfirði.

Í frétt frá SAF segir að Hópbílar hafi með skýrri sýn lagt áherslu á mikilvægi starfsmenntunar í allri starfsemi sinni með það að markmiði að auka starfsánægju starfsmanna og síðast en ekki síst náð samkeppnisforskoti og arðsemi í rekstri fyrirtækisins þannig að til eftirbreytni sé.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að einkum hafi eftirfarandi legið til grundvallar ákvörðunar hennar:

  • Markviss stefna fyrirtækisins og fast verklag við að innleiða gæðakerfi þar sem umhverfis- og gæðamál eru höfð að leiðarljósi
  • Fyrirtækið hefur náð ákveðnu samkeppnisforskoti með beinum hætti gegnum markvissa símenntunarstefnu
  • Fyrirtækið hefur lagt sig fram um að standa vel að menntun og aðlögun erlendra starfsmanna
  • Fyrirtækið sinnir af kostgæfni greiningu á þjálfunarþörf, markvissri nýliðafræðslu og leggur áherslu á að starfsmenn fái tækifæri til þess að þróast í starfi
  • Fyrirtækið hefur nýtt sér markvisst starfsmenntasjóði í því skyni að ná betri árangri í starfsemi sinni
     

Í aðgerðaráætlun SAF á sviði fræðslu og menntamála kemur m.a. fram að eitt af höfuðmarkmiðum sé að bæta arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og að hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til menntunar, símenntunar og þjálfunar. Dagur menntunar í ferðaþjónustu var liður í ofangreindum markmiðum, þ.e. að vekja athygli atvinnurekanda á mikilvægi menntunar, símenntunar og þjálfunar starfsfólks.

Á myndinni eru Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Pálmar Sigurðsson frá Hópbílum.


Athugasemdir