Alþjóðleg ráðstefna og opinn fyrirlestur

Alþjóðleg ráðstefna og opinn fyrirlestur
Strönd

Dagana 29. febrúar til 1. mars verður haldin tveggja daga alþjóðleg ráðstefna í Norræna húsinu undir yfirskriftinni ?Journeys of Expression VII - Celebrating the Edges of the World: Tourism and Festivals of the Coast and Sea?. Einnig verður opinn fyrirlestur um með mynddæmum um notkun kvikmynda til ímyndarsköpunar í ferðaþjónustu.

Fyrir ráðstefnunni gangast land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands, Centre for Tourism and Cultural Change við Leeds Metropolitan University, Hólaskóli og Ferðamálasetur Íslands. Þátt tekur fjöldi íslenskra og erlendra sérfræðinga og er dagskráin þéttskipuð. Sjá dagskrá (PDF) og Nánar um ráðstefnuna

Notkun kvikmynda til ímyndarsköpunar
Opni fyrirlesturinn, um notkun kvikmynda til ímyndarsköpunar, er í umsjón Dr. Darrell Varga, prófessors við Kvikmyndadeild Nova Scotia College of Art and Design, í Kanada. Hann verður haldinn 29. febrúar næstkomandi í sal 132, Öskju náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands og hefst kl. 17. Allir velkomnir meðan húsrými leyfir.

Í fyrirlestrinum fjallar Darrell Varga um kvikmynda- og sjónvarpsmyndagerð á austurströnd Kanada og þá fagurfræði og frásagnarhefðir sem þar birtast. Algengt er að áhersla sé lögð á sérstæðar hefðir og alþýðumenningu svæðisins, enda er slíkt iðulega notað sem uppistaða ímyndarsköpunar í ferðamennsku. En Varga bendir einnig á annars konar ímyndir, sem taka áhorfandann á aðrar brautir. Í fyrsta lagi er iðulega reynt að má út staðbundin sérkenni úr myndunum til að gera þær gjaldgengar á hinum almenna kvikmyndamarkaði. Önnur tegund mynda leggur áherslu á eymd og útlegð; á harðneskju svæðisins og efnahags- og félagslega vanþróun. Loks eru myndir sem gera miskunnarlaust grín að þeim staðalímyndum sem loða við svæðið. Í öllum þessum dæmum gætir spennunnar sem er svo algeng, á milli sjálfsmyndar svæðis og ímyndar þess þegar horft er á það utan frá. Kvikmyndagerðarfólk leitar sífellt leiða til að brjótast úr þeim ramma sem efnahagslíf og ríkjandi hugmyndir skapa sérhverjum stað og svæði.
 
 


Athugasemdir