Fréttir

Færni í ferðaþjónustu - ný námsskrá

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur nýlega gefið út nýja námskrá fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, Færni í ferðaþjónustu I . Námskráin er sú fyrsta í röðinni í heildstæðu námi fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu.  Námskráin er metin til styttingar náms í framhaldsskóla um 5 einingar. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins  ehf. var stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í desember 2002. Hlutverk hennar er að vera samstarfsvettvangur stofnaðilanna   um fullorðinsfræðslu og starfsmenntun í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtaka ASÍ og SA. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vinnur skv. samþykktum og þjónustusamningi sem gerður hefur verið við menntamálaráðuneytið. Starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins beinist að þeim sem ekki hafa lokið námi úr framhaldsskóla með það að markmiði að veita starfsmönnunum tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Skoða námsskrána (PDF)  
Lesa meira

Gistnætur á hótelum í desember

Gistinætur á hótelum í desember síðastliðnum voru 54.200 en voru 53.600 í sama mánuði árið 2006. Gistinóttum fjölgaði því um rúmlega 1% á milli ára á landinu öllu en sé hver landshluti skoðaður er um talsverðar breytingar að ræða. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Norðurlandi, úr 1.800 í 2.200 eða um tæp 24%. Gistinóttum á Suðurlandi fjölgaði í desember um tæp 20% á milli ára, úr 2.700 í 3.200. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum í desember um rúmt 1% frá fyrra ári, úr 43.300 í 43.700. Á Austurlandi fækkaði gistinóttum í desember hinsvegar um tæp 54% á milli ára, eða úr 1.300 í 600. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða voru 4500 gistinætur í desember 2007 sem er sami fjöldi og árið áður. Fjölgun gistinátta á hótelum í desember má rekja til Íslendinga, gistinóttum Íslendingar fjölgar um 21%  en gistinóttum útlendinga fækkar um 8% á milli ára. Sjá nánar á vef Hagstofunnar
Lesa meira

Farþegum Iceland Express fjölgaði um 20%

Samkvæmt frétt frá Iceland Express var síðasta ár það besta í rekstri félagsins og flutti það um það bil 20% fleiri farþega árið 2007 heldur en árið á undan. Flogið var til 15 áfangastaða í Evrópu á síðasta ári auk þess að fljúga beint frá Akureyri og Egilsstöðum til Kaupmannahafnar síðasta sumar. Fram kemur einnig að á þessu ári verður sætaframboð aukið á nokkrum áætlunarleiðum, þar á meðal til London, Kaupmannahafnar, Alicante og Basel. Jafnframt mun Iceland Express hefja í fyrsta sinn reglulegt áætlunarflug til Varsjár í Póllandi í vor auk þess sem Barcelona verður einn af sumaráfangastöðum félagsins en flug þangað hófst síðasta haust.Umtalsverð fjölgun var á farþegum sem flugu beint milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, en þetta var annað sumarið sem Iceland Express flýgur á þeirri áætlunarleið. Aukningin var um 32% og munaði þar miklu um aukinn fjölda erlendra ferðamanna, sem voru um helmingur allra farþega sem flugu milli Kaupmannahafnar og Akureyrar. Erlendum ferðamönnum sem fljúga með Iceland Express fjölgar jafnframt talsvert milli ára. Um 22% fleiri erlendir ferðamenn flugu með félaginu árið 2007 heldur en árið 2006. ?Árið 2007 var afar gott fyrir Iceland Express og í raun ótrúlegt að flugfélag sem hefur ekki starfað nema í tæp fimm ár sé orðið eins öflugt og raun ber vitni. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að samkeppni í farþegaflugi er ekki bara möguleg á okkar markaði, heldur bráðnauðsynleg. Við stefnum að sjálfsögðu að því að árið 2008 verði enn betra og munum bæði auka sætaframboð og leita nýrra leiða til að auka fjölbreytni og samkeppni til hagsbóta fyrir íslenska neytendur,? segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
Lesa meira

Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll í janúar

Tæplega 117 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í janúarmánuði síðastliðnum, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Þetta er 11% fjölgun farþega á milli ára, það er miðað við janúar í fyrra. Farþegar á leið frá landinu voru 51.764  í janúar síðastliðnum, fjölgaði um 9% á milli ára. Á leið til landsins voru 51.568 farþegar og fjölgaði þeim um 17% miðað við janúar í fyrra. Áfram- og skiptifarþegar (transit) voru rúmlega 13 þúsund sem er sama og í janúar 2007. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.   Jan.08. YTD Jan.07. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 51.764 51.764 47.550 47.550 8,86% 8,86% Hingað: 51.568 51.568 44.161 44.161 16,77% 16,77% Áfram: 2.548 2.548 2.514 2.514 1,35% 1,35% Skipti. 10.727 10.727 10.737 10.737 -0,09% -0,09%   116.607 116.607 104.962 104.962 11,09% 11,09%
Lesa meira

Tekjukönnun SAF 2007

Samtök ferðaþjónustunnar hafa birt samantekt á niðurstöðum úr tekjukönnun SAF og Hotelbenchmark fyrir árið 2007. Ýmislegt athyglisvert kemur í ljós í samanburði við tölur frá 2006. Hótelherbergjum í Reykjavík hefur fjölgað úr 1586 í 1726 herbergi.  Fjölgunin hefur hins vegar bara verið á fjögurra stjörnu hótelunum.  Þar fjölgaði herbergjum úr 865 árið 2006 í 1004 herbergi árið 2007.  Herbergjafjöldi á þriggja stjörnu hótelunum er hins vegar sá sami milli ára eða 683 herbergi.  Á landsbyggðinni hefur hótelherbergjum fjölgað úr 338 í 350 milli ára. Hótelnýting í Reykjavík hefur dregist lítillega saman og raunsamdráttur hefur orðið á 3 stjörnu hótelunum um 1.7%, því herbergjafjöldinn hefur staðið í stað.  Hótelnýting á fjögurra stjörnu hótelunum hefur dregist saman um 3,4% milli ára en herbergjunum á sama tíma fjölgað um 139 herbergi. Verðið á hótelherbergjum í Reykjavík hefur hækkað um 8,5% milli ára og tekjur fyrir framboðið herbergi hækkað um 5,7%. Á landsbyggðinni hefur verðið hækkað um 18,3% og tekjur fyrir framboðið herbergi aukist um 23,5%. Meðalverð fyrir hótelherbergi í Reykjavík var 9.276 krónur fyrir árið 2006 en fyrir árið 2007 var meðalverðið orðið 10.068.  Meðalverð fyrir hótelherbergi á landsbyggðinni var 7.866 krónur árið 2006 en meðalverðið var 9.306 krónur á árinu 2007.
Lesa meira

Uppsveitabrosið 2007 afhent

Uppsveitabrosið 2007 var afhent síðastliðinn miðvikudag. Það hlutu að þessu sinni þær Steingerður Hreinsdóttir og Sædís Íva Elíasdóttir, ráðgjafar hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands. Uppsveitabrosið fá þær m.a. fyrir framúrskarandi samvinnu. Uppsveitabrosið er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki sem hafa lagt ferðaþjónustunni í uppsveitum Árnessýslu lið á jákvæðan uppbyggilegan hátt og stuðlað að samvinnu.  Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert. Brosið er óáþreifanlegt en því fylgir ávallt hlutur sem handverks- eða listamaður í Uppsveitunum býr til hverju sinni. Í ár var það Gréta Gísladóttir, myndlistarkona  í Reykholti, sem annaðist það. Hún málaði myndir af sunnlenskum fjöllum, Jarlhettunum og Heklu, sem tákn um kraftinn sem býr í þessum athafnakonum. Þetta er í fjórða sinn sem brosið er veitt en hugmyndin að því varð til í stefnumótunarvinnu í ferðamálum. Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, afhenti þeim Steingerði og Sædísi Ívu Uppsveitabrosið. Sædís Íva Elíasdóttir, Ásborg Arnþórsdóttir, SteingerðurHreinsdóttir.
Lesa meira