Risaverkefni í Þýskalandi til kynningar á Íslandi

Risaverkefni í Þýskalandi til kynningar á Íslandi
Elgsverkefni 1

Í lok janúar lauk í Þýskalandi stærstu herferð sem skrifstofa Ferðamálastofu í Frankfurt hefur komið að. ?Elch und Weg? er nafn á útvarpsleik sem SWR3 útvarpsstöðin efnir til í fjórar vikur og lýkur með vinningsferð fyrir hóp hlustanda til viðkomandi lands.

Fyrsta vikan var nokkurs konar upphitun þar sem leikurinn var auglýstur á stöðinni með 2-3 innslögum á klukkustund og sett voru upp um 3.400 ljósaplaköt og 500 risaplaköt (sjá mynd) með Íslandsmynd í um 100 borgum á útsendingarsvæðinu, sem er aðallega í héruðunum Baden Würtenberg og Rheinland-Pfalz.í S-Þýskalandi. Að auki var herferðin kynnt í blaði hlustendaklúbbs stöðvarinnar í 110 þúsund eintökum og opnað inn á ?Elch und Weg ? Island? hluta vefsvæðis útvarpsstöðvarinnar.

Gríðarlegur áhugi
Í annarri og þriðju viku hófst svo leikurinn fyrir alvöru. Í morgun- og síðdegisútvarpi  var sent út dagskrárefni sem var uppskera þáttastjórnendanna tveggja sem sóttu Ísland heim í nóvember sl. Samanstóð dagskráin af upplifun þeirra af landinu og viðtölum við fjölmarga Íslendinga, sem var skemmtilega spunnið saman við upplýsingar um land og þjóð. Í morgunútvarpinu gafst hlustendum kostur á að hringja inn og svara spurningum um Ísland og vinna ferð til Íslands. Þegar mest lét reyndust í kringum 50.000 hlustendur vera að reyna að hringja inn í getraunina og á heimsíðu stöðvarinnar fóru heimsóknirnar upp í 1,9 milljónir dagana sem leikurinn stóð yfir. Að auki var leikurinn tengdur þremur stærstu dagblöðum svæðisins og stórum þýskum vefmiðli, þar sem nokkurs konar afleggjarar útvarpsleiksins voru birtir.

Lagt upp í Íslandsferð
Það var svo föngulegur hópur 80 spenntra vinningshafa sem lögðu í hann frá Frankfurt mánudaginn 28. janúar en deginum áður hafði 15 manna lið tækni- og dagskrárgerðarfólks lagt land undir fót og tekið sér stöðu í Reykjavik. Í hönd fóru viðburðarríkir dagar þar sem þátttakendur fengu að kynnast náttúru, tónlist, matargerð og síðast en ekki síst veðráttu landsins. Því voru það sælir ferðalangar sem sneru aftur til Frankfurt að morgni 31. janúar en þeir sem ekki höfðu heppnina með sér í þetta skipti og aðrir sem heima sátu, gátu fylgst með ferðum hópsins í útsendingum, veffrásögnum og -myndum, nokkurn vegin jafn óðum og hópurinn upplifði landið í ?misblíðum? vetrarskrúða. Á myndinni hér að neðan má sjá hópinn við Geysi.

Samstarf Iceland Naturally
Aðkoma Íslands var liður í Iceland Naturally verkefninu í Evrópu, sem skrifstofa Ferðamálastofu á meginlandinu er framkvæmdaaðili fyrir. Að verkefninu standa íslenska ríkið auk nokkurra íslenskra fyrirtækja og er takmark þess að auka þekkingu og áhuga fólks á landinu

Davíð Jóhannsson, forstöðumaður Evrópuskrifstofunnar, segist hæstánægður með hvernig til tókst. ?Þetta verkefni var svona ?jólin og páskarnir á sama tíma? hvað varðar dreyfingu og birtingarverðmæti, miðað við það sem við leggjum til. Það sýndi sig einnig að það er sterkt fyrir landkynninguna að hafa meira bolmagn í gegnum Iceland Naturally samstarfið og geta með því tekið þátt í svona verkefnum,? segir Davíð.Athugasemdir