Fréttir

Gæði og verndun leiðarljósin í þróun ferðaþjónustu

Á dögunum sóttu nokkrir félagar í Félagi ferðamálafulltrúa á Íslandi árlegt ferðamálaþing EUTO (European Union of Tourist Officers) sem að þessu sinni var haldið á Möltu. Þingið fjallaði að mestu um mikilvægi þess að ferðaþjónustan geti á sjálfbæran hátt endurgert fortíðina og söguna og fært komandi kynslóðum þessa sömu sögu, minjar og náttúru. Í tilkynningu frá Félagi ferðamálafulltrúa segir að í lok þings hafi EUTO sent frá sér yfirlýsingu þar sem hvatt er til sjálfbærrar þróunar hvers áfangastaðar fyrir sig. Lögð er áhersla á gæði fremur en magn í ferðaþjónustu og hið sérstæða á hverjum stað. Einnig verndun vörunnar sem í boði er og ferðaþjónustuaðilar og gestir voru hvattir til að hafa ávallt hugföst þau áhrif sem þeir hafa á umhverfið og með hvaða hætti takmarka megi þau áhrif. Þá leggur EUTO til að áhrif ferðaþjónustu á umhverfið verði rannsökuð frekar og þekking í ferðamennsku efld svo betur megi sjá fyrir framtíðarþróun vegna t.d. umhverfisbreytinga og fólksflutninga. Að auki segir í yfirlýsingunni að nauðsynlegt sé að hið opinbera veiti fjármagn til uppbyggingar á innviðum ferðaþjónustunnar til að skapa réttar aðstæður fyrir sjálfbæra þróun í atvinnugreininni. Hvatt er til þess að allt mannkyn hlúi að arfleifð sinni og meti og verndi auðlindir og eignir með því að takmarka neikvæð áhrif ferðaþjónustu. Ávallt skuli hugað að umhverfisvernd enda byggi ferðaþjónustan að stórum hluta tilvist sína á umhverfisþáttum. Væntingum ferðamanna skuli mætt og gott betur því gæði vörunnar fái ferðamenn til að dvelja lengur og eyða meiru. Mynd: Ferðamálafulltrúar víðsvegar úr Evrópu sóttu þingið.
Lesa meira

Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgar áfram

Í október síðastliðnum fóru rúmlega 170 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll, samkvæmt tölum frá flugvellinum, samanborið við tæplega 148 þúsund í október í fyrra. Fjölgunin nemur 15%. Fjölgunin í október er í takt við þróun farþegafjölda fyrir árið í heild en frá áramótum hefur farþegum fjölgað um 10,66%. Tölurnar eru greindar niður eftir því hvort farþegar eru á leið til landsins, frá landinu eða hvort um áfram- og skiptifarþega (transit) er að ræða. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.   Okt.06. YTD Okt.05. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 71.740 760.160 60.617 662.689 18,35% 14,71% Hingað: 72.202 756.743 62.199 661.392 16,08% 14,42% Áfram: 2.900 28.205 1.660 12.287 74,70% 129,55% Skipti. 23.181 224.058 23.257 262.359 -0,33% -14,60%   170.023 1.769.166 147.733 1.598.727 15,09% 10,66%
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2006 - gæðamál í brennidepli

Dagskrá Ferðamálaráðstefnunnar 2006 liggur nú fyrir og þá hefur einnig verið opnað fyrir skráningu. Ráðstefnan verður eins og fram hefur komið haldin á Hótel Loftleiðum fimmtudaginn 16 nóvember næstkomandi. Meginþema hennar að þessu sinni eru gæðamál. Gæði eru ein af meginstoðunum í Ferðamálaáætluninni 2006-2015 og forsenda frekari vaxtar er að íslensk ferðaþjónusta sé samkeppnishæf í gæðum. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Íslensk ferðaþjónusta í örum vexti- hvað með gæði vöru og þjónustu? Dagskrá: kl. 09:30 Skráning og afhending gagnakl. 10:00 Setning, Magnús Oddsson, ferðamálastjóri kl. 10:05 Ávarp samgönguráðherra , Sturla Böðvarsson   Niðurstöður nýjustu kannana. Hvað segja þær okkur?kl. 10:25 Kynntar niðurstöður úr gæðakönnun meðal innlendra ferðamannakl. 10:50 Kynntar niðurstöður úr gæðakönnun meðal erlendra ferðamannakl. 11:10 Pallborðsumræður um hvað gæðakannanirnar segja og hvað má lesa úr þeim?Oddný Óladóttir, verkefnastjóri Ferðamálastofu, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, Bjarni Ásgeirsson, Better business world wide og Þórdís Pálsdóttir, sölustjóri Reykjavík Hotels.  Stjórnandi: Ingjaldur Hannibalsson, prófessor Háskóla Íslands kl. 12:00 Hádegisverðarhlé*    Standast gæði íslenskrar ferðaþjónustu væntingar?kl. 13:15 Robert Dean Felch, eigandi og framkvæmdastjóri Iceland Saga Travel (USA)kl. 13:40 Ásgeir Friðgeirsson, ráðgjafi Samson eignarhaldsfélags  kl. 14:00 Pallborðsumræður um hvort gæðin séu í samræmi við væntingar neytenda?  Robert Dean Felch, Ásgeir Friðgeirsson, Pétur Rafnsson, verkefnastóri Ferðamálastofu, Friðrik Brekkan, leiðsögumaður.  Stjórnandi: Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda kl. 14:45 Kaffihlé kl. 15:00 Framkvæmd Ferðamálaáætlunar 2006 ? 2015  Magnús Oddsson, ferðamálastjóri kl. 15:30 Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu fyrir árið 2006kl. 15:45 Afhending lokaverkefnisverðlauna Ferðamálaseturs Íslands fyrir árið 2006kl. 16:00 Samantekt: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum kl. 16:15 Ráðstefnuslitkl. 16:30 Móttaka í boði samgönguráðherra Ráðstefnustjóri:Svanhildur Konráðsdóttir, sviðstjóri menningar og ferðamála, Reykjavíkurborg SkráningOpna skráningareyðublað fyrir Ferðamálaráðstefnuna 2006 * Ath. Ekkert ráðstefnugjald,  ráðstefnugestir greiða einungis kr. 1.950,- fyrir hádegisverð.
Lesa meira

Gistinóttum í september fjölgaði um 22%

Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 114.600 en voru 93.900 í sama mánuði árið 2005, sem er fjölgun um 20.700 nætur, eða 22%. Hagstofan, sem sér um talninguna, vekur athygli á að eingöngu er átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Fjölgun í öllum landshlutumGistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 6.500 í 9.300 milli ára, sem er 43% aukning. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum úr 3.700 í 4.700, eða um 27%. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum um tæp 24%, úr 8.900 í 11.000. Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 20% milli ára. Þar fór gistináttafjöldinn úr 64.600 í 77.500 milli ára. Á Suðurlandi fóru gistinætur á hótelum í september úr 10.200 í 12.100 milli ára og fjölgaði þar með um rúm 18%. Fjölgun gistinátta skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 23% og útlendinga um22%. Útlendingar vega þó þyngra þar sem gistinætur þeirra eru rúm 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í september síðastliðnum.  Gistirými á hótelum í septembermánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.740 í 3.973, 6% aukning og fjöldi rúma úr 7.566 í 7.995, 6% aukning. Hótelin eru jafnmörg bæði árin, 75. Fjölgun um 11% frá áramótumÁ fyrstu níu mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum um 11% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 848.700 í 943.700 milli ára. Fjölgun varð á öllum landsvæðum. Hlutfallslega varð aukningin mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinóttum fjölgaði um 23%. Á Norðurlandi nam aukningin 13%, Suðurlandi 11%, Austurlandi 10% og á höfuðborgarsvæðinu 10%. Fjölgun gistinátta á þessu tímabili skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 13% og útlendinga um11%. Eins og áður sagði vegur fjölgun gistinátta útlendinga þyngra þar sem gistinætur þeirra eru um 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum þetta tímabil. Sömu sögu er að segja um gistinætur á höfuðborgarsvæðinu, en þær nema um 65% af heildarfjölda gistinátta. Mjög ánægjuleg þróunMagnús Oddsson ferðamálastjóri segir mjög ánægjulegt að sjá hve mikil aukning sé í gistinóttum á hótelum í september. "Það er hlutfallslega meiri aukning hvað varaðar erlendu gestina en varð í fjölda þeirra sem hingað komu í september. Á því eru að mínu mati tvær skýringar mögulegar: Í fyrsta lagi gæti verið um færslu að ræða á milli gistitegunda þannig að meiri aukning hafi orðið í gistinóttum hótela á kostað annarrar gistingar. Gestir séu að færa sig í aukin þægindi. Hin skýringin, sem við auðvitað vonum að sé raunin, er að okkar erlendu gestir í september í ár séu að dvelja lengur hér en var í fyrra. Hvor skýringin er rétt verður ekki séð fyrr en tölur um heildargistinætur liggja fyrir á næsta ári," segir Magnús. Loks bendir Magnús á það sem áður hefur komið fram, þ.e. hvernig hægt og bítandi hefur tekist að lengja háönnina þannig að september er í umfangi hliðstæður og júní fyrir örfáum árum. Þá sé ekki síður ánægjulegt að fylgjast með auknu umfangi innlenda markaðarins í haust.  
Lesa meira

Samfélagið í nærmynd helgað Ferðamálastofu

Síðastliðinn föstudag var þátturinn Samfélagið í nærmynd í Ríkisútvarpinu helgaður Ferðamálastofu. Í þættinum, sem er á dagskrá Rásar 1, eru þjóðmálin skoðuð frá ýmsum hliðum. Leifur Hauksson, annar aðalumsjónarmanna þáttarins, ræddi við starfsfólk Ferðamálastofu í Reykjavík og norðan heiða var Margrét Blöndal með starfsfólk af skrifstofunni á Akureyri í hljóðveri. Áhugasömum er bent á að hægt er að hlusta á upptöku af þættinum á vef ríkisútvarpsins. Hlusta á Samfélagið í nærmynd
Lesa meira

Fjölvirkjanám í ferðaþjónustu

Í nóvember hefst ný námskeiðslota í svokölluðu fjölvirkjanámi. Að þessu sinni verður áherslan á ferðaþjónustu. Frá þessu er greint á vef Samtaka ferðaþjónustunnar. Hugmyndafræði fjölvirkjanámsins hefur vakið athygli víða og nú á vordögum þegar SAF, ásamt Starfsgreinasambandinu og öllum Símenntunarmiðstöðvum á Íslandi, komu saman til að skoða meira framboð í fræðslustarfi í ferðaþjónustu var ákveðið að þróa fjölvirkjanámið fyrir ferðaþjónustuna. SAF og Símenntunarmiðstöðvarnar hlutu styrk frá Starfsmenntaráði  til þróunar námsskrár og markaðssetningar námsins. Nú hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur gefið út tvær nýjar námskrár, fjallar önnur um fjölvirkja og hin um verslunarfagnám. Námið er ætlað lykilstarfsmönnum í iðnaðar-, framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum, 20 ára eða eldri, sem hafa stutta formlega skólagöngu að baki. Náminu er ætlað að auka persónulega og faglega hæfni þessara starfsmanna. Fjölvirkjanám í ferðaþjónustu verður prufukeyrt á tveimur stöðum til að byrja með hjá SímEy (Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar) og hjá Fræðsluneti Austurlands á Egilsstöðum. Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi fjölvirkjanámið til styttingar náms í framhaldsskóla til allt að 13 eininga.  Nánari upplýsingar má finna vef SAF, vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og hjá ofangreindum símenntunarmiðstöðvum.
Lesa meira

Ferðamálasamtök Íslands boða til aðalfundar á Ísafirði

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands verður haldinn á Hótel Ísafirði föstudaginn 24. og laugardaginn 25. nóvember 2006. Að samtökunum standa átta landshlutasamtök og að þeim eiga aðild ferðaþjónustuaðilar og sveitarfélög á viðkomandi svæðum. Formaður samtakanna er Pétur Rafnsson. Síðasti aðlfundur Ferðamálasamtaka Íslands var haldinn í Varmahlíð fyrir ári síðan og var hann að venju vel sóttur. Dagskrá fundarins nú verður auglýst síðar hér á vefnum og í fjölmiðlum. Fulltrúar eru beðnir að skrá sig tímanlega á fundinn í síma 898-6635. Bókun herbergja er á Hótel Ísafirði og einfaldast er að ganga frá því á heimasíðu hótelsins. www.hotelisafjordur.is
Lesa meira

Ítalskur vefur bætist við

Nú hefur bæst við ítölsk útgáfa af landkynningarvef Ferðamálstofu www.visiticeland.com. Þá er hollenskur vefur einnig í vinnslu og má reikna með að hann verði opnaður innan tíðar. Eftir að ítalska útgáfa bættist við er landkynningarvefurinn orðinn á 9 tungumálum, þ.e. ensku, dönsku, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku, sænsku og norsku auk íslensku. Eins og áður hefur komið fram er umferð um landkynningarvefi Ferðamálastofu sívaxandi enda alkunna að mikilvægi Internetsins í öllu markaðsstarfi er alltaf aðaukast, ekki síst í ferðaþjónustu. Skoða ítalska vefinn Mynd: Forsíða ítalska vefsins.  
Lesa meira

Icelandair valið markaðsfyrirtæki ársins 2006

Tilkynnt var við hátíðlega athöfn í dag að Icelandair hefði verið valið markaðsfyrirtæki ársins 2006 en frá þessu greinir á vef ÍMARK. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Apótekinu í dag en þetta er í 16. sinn sem verðlaunin eru veitt. Í ræðu sinni sagði Jóhannes Ingi Davíðsson, framkvæmdastjóri ÍMARK Icelandair hafa verið í mikilli þróun á undanförnum árum, bæði hvað varðar dreifingu og söluleiðir og einnig varðandi aukningu í samkeppni á öllum mörkuðum.  Félagið hafi því verið í stöðugri endurnýjun við að finna leiðir og tækifæri til að skera sig úr frá mörgum samkeppnisaðilum á stórum og flóknum mörkuðum.  
Lesa meira

Hólaskóli í heimsókn

Í dag komu nemendur frá ferðamáladeild Hólaskóla í heimsókn á skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri. Tilgangurinn var að kynna sér starfsemi stofnunarinnar og uppbyggingu stjórnsýslu ferðamála hérlendis. Þessar heimsóknir Hólaskóla hafa verið árviss viðburður í nokkur ár. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu, segir þetta afar ánægjulegt og einnig mikilvægt fyrir Ferðamálastofu að fá þetta tækifæri til að kynna sig og starfsemi sína með beinum hætti fyrir því fólki sem stundar ferðamálanám hérlendis.
Lesa meira