Fara í efni

Fjölgun áfangastaða næsta sumar

Flugfarþegar
Flugfarþegar

Næsta sumar verður væntanlega flogið til Íslands frá fleiri áfangastöðum í áætlanaflugi en nokkru sinni áður. Þá verða einnig nýjar tengingar í boði frá þekktum áfangastöðum. Meðal annars morgunflug frá Norðurlöndunum til Íslands og morgunflug frá Íslandi til Bandaríkjanna.

Iceland Express hefur ekki kynnt sumaráætlun sína formlega en í vetur flýgur félagið til og frá Berlín, Frankfurt Hahn, Friedrichshafen, Kaupmannahöfn og London. Þá hefur verið boðað að næsta vor bætist við a.m.k. 3 nýir áfangastaðir hjá félaginu, þ.e. Osló, Bergen og París. Í fyrrasumar var einnig flogið á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar og samkvæmt upplýsingum frá félaginu gæti London-Akureyri jafnvel bæst við sem flugleið næsta sumar.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eykur félagið framboð sitt næsta vor um 17%. Gert er ráð fyrir um 160 ferðum á viku, sem er met í sögu félagsins. Nýju áfangastaðirnir sem Icelandair mun bjóða upp á frá og með næsta vori eru Bergen, Gautaborg og Halifax og verður flogið þrisvar til fjórum sinnum í viku á hvern stað. Ekki verður flogið til San Fransico næsta sumar. Helsta nýbreytni félagsins er hinsvegar sú að boðið verður upp á morgunflug til New York og Boston, sem og morgunflug frá Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Ósló til Íslands. Með þessu geta farþegar farið ?hina leiðina? miðað við það sem tíðkast hefur, þ.e. að fara frá Evrópu að morgni, áfram til Bandaríkjanna að morgni, koma frá Bandaríkjunum um miðnætti og halda áfram að næturlagi til Evrópu.

Ekki er annað vitað að en að áætlanaflug British Airways frá London, sem og flug SAS á frá Osló, verði með óbreyttu sniði. Einnig hefur verið vikulegt flug til Egilsstaða frá Kaupmannahöfn á vegum Trans-Atlantic. Þá er ótalinn fjöldi ferða í leiguflugi allt næsta sumar, líkt og verið hefur.

Ljóst er að aukið sætaframboð og fleiri áfangastaðir eru jákvæðar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ætti þetta að m.a. skapa grundvöll fyrir áframhaldandi aukningu í komu erlendra ferðamanna hingað til lands þótt þar ráði vissulega einnig fleiri þættir