Iceland Naturally af stað í Evrópu

Iceland Naturally af stað í Evrópu
Iceland Naturally Evrópu 1

Verkefnið Iceland Naturally fyrir Evrópumarkað hófst formlega í Þýskalandi fyrr í mánuðinum. Um er að ræða samtarfsverkefni íslenska ríkisins og fyrirtækja þar sem náttúra Íslands og vörur eru kynnt á erlendum mörkuðum. Verkefninu verður stýrt frá skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt.

Góð reynsla hefur verið af Iceland Naturally verkefninu í Norður-Ameríku og því var afráðið að fara af stað með sambærilegt verkefni í Evrópu. Iceland Naturally í Evrópu var formlega ýtt úr vör með við opnun jarðvísindasýningar í Senckenberg Museum í Frankfurt, sem Iceland Naturally er styrktaraðili að, en á sýningunni er Ísland kynnt í sérstakri deild. Sýningin er farandsýning og verður sett upp í 5 öðrum borgum í Þýskalandi á næstu 16 mánuðum. Skrifstofa Ferðamálastofu í Frankfurt hafði veg og vanda að frágangi Íslandshluta sýningarinnar með góðri aðstoð Jarðvísindastofnunar H.Í. og nokkurra valinkunnra íslenskra ljósmyndara. Til gamans má geta þess að hinn kunni jarðvísindamaður Alfred Wegener setti fram ?Flekakenningu? sína á fyrirlestri í Senckenberg Museum í byrjun síðustu aldar. Nú um miðjan október verður Iceland Naturally síðan hleypt af stað í London og í París í nóvember.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp við opnun sýningarinnar í Frankfurt og fjallaði m.a. um mikilvæg samskipti Þýskalands og íslands á sviði ferðamála. Viðstödd opnunina auk ráðherra voru meðal annarra sendiherra Íslands í Þýskalandi, Ólafur Davíðsson, Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Iceland Naturally verkefnisins, Davíð Jóhannsson, forstöðumaður markaðsskrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu og Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. Icelandair átti líka sinn þátt í undirbúningi að viðburðinum og viðstaddir opnunina voru, svæðistjóri icelandair í evrópu, Einar Páll Tómasson og Þórður Bjarnason markaðsstjóri.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnunina.

Forstöðumaður Senckenberg sfnsins tekur á móti Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra.

Nokkrir í "eldri kantinum? gættu þess að allt færi vel fram.
Íslensku kræsingarnar gerðu lukku að vanda. Hlýtt á setningarræður: Ólafur Davíðsson sendiherra, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Irmgard Schwetzer fyrrum skipulagsmálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Strutz forseti  Senckenberg stofnunarinnar, fulltrúi þýska menntamálaráðuneytisins, Volker Mosbrugger forstöðumaður Senckenberg stofnunarinnar og stjórnarformaður þýska rannsóknarráðsins.
Sturla Böðvarsson á tali við Irmgard Schwetzer, fyrrum skipulagsmálaráðherra Þýskalands, og Volker Mosbrugger, forstöðumann Senckenberg stofnunarinnar og stjórnarformann þýska rannsóknarráðsins.  Jón Rafnsson bassaleikari  og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari fluttu ljúfa íslenska tóna.

 


Athugasemdir