Fara í efni

Iceland Naturally kynnt í London

Iceland Naturally London 1
Iceland Naturally London 1

Iceland Naturally verkefnið fyrir Bretlandsmarkað hófst með formlegum hætti í London í byrjun vikunnar. Að Iceland Naturally í Evrópu standa Icelandair, Bláa lónið, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Iceland Spring water, auk íslenska ríkisins. Skrifstofa Ferðamálastofu í Frankfurt stýrir verkefninu.

 

Athöfnin fór fram í glæsilegum salarkynnum á St.Martin?s Lane hotel að viðstöddum um 150 gestum úr ferðaþjónustu og viðskiptalífi í London. Stephen Brown, svæðisstjóri Icelandair á Bretlandi, bauð gesti velkomna, sem voru meðal annars Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra í London, sem báðir fluttu ávörp. Samgönguráðherra sagði meðal annars í ávarpinu: ,,Eftir þá reynslu sem fengist hefur vestan hafs var ákveðið að hefja sams konar starf í Evrópu í þeirri bjargföstu trú að samstarf þessara aðila sé mun öflugri leið til markaðssetningar og hún verði mun víðtækari. Þannig er ekki aðeins verið að fjalla um náttúru Íslands og allt sem hún hefur uppá að bjóða heldur líka framleiðslu og þjónustu og ekki síður menningu sem við erum líka rík af.? Einnig sagði hann mikilvægt að fá fleiri fyrirtæki til samstarfs undir merkjum Iceland Naturally svo slagkrafturinn verði enn meiri.? Líkt og fram hefur komið snýr Iceland Naturally í Evrópu að Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.

 

Boðið var uppá léttar veitingar og létta tónlist sem leikin var af Gitar Islancio. Að sögn Daviðs Jóhannssonar forstöðumanns Ferðamálastofu í Frankfurt, sem hefur umsjón með framkvæmd Iceland Naturally, þótti viðburðurinn takast vel og er þetta annar af þremur viðburðum sem marka upphaf Iceland Naturally í Evrópu. Þriðji viðburðurinn í fer fram í París í byrjun Nóvember. Formaður Iceland Naturally er Ingimundur Sigurpálsson.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar á St.Martin?s Lane hotel sl. mánudag.

 


Fulltrúar aðstandenda Iceland Naturally verkefnisins við glæsilegt íslistaverk sem gert var sérstaklega fyrir þetta tilefni.

 

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flytur ávarp sitt.

Edda Sólveig Gísladóttir, markaðsstjóri Bláa lónsins og Stephen Brown, svæðisstjóri Icelandair.

Rob Bates, sem sér um kynningarmál fyrir Icelandair UK, ásamt starfsmönnum frá Discover the World ferðaskrifstofunni.

Séð yfir salinn.