Fara í efni

Fjölgun erlendra ferðamanna

veitingastadur
veitingastadur

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 6,2% í ágúst síðastliðnum og 14,5% í september, miðað við sömu mánuði í fyrra, samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð. Fyrstu 9 mánuði ársins fóru rúmlega 325 þúsund erlendir ferðamenn um flugstöðina á sama tímabili í fyrra voru þeir rúmlega 303 þúsund talsins. Nemur aukningin 7,2%. Flestir ferðamenn koma frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Danmörku.

Sé fyrst litið á ágúst þá er ágæt aukning frá öllum mörkuðum. Allir meginmarkaðir skila verulegri fjölgun.

Sem fyrr segir er 14,5% aukning í september. Þar eru Norðurlöndin að skila fjölgun upp á 2.085 ferðamenn og Bretland 1.343. Er fróðlegt að líta nokkur ár aftur í tímann til að skoða þá miklu fjölgun sem orðið hefur á komum ferðamanna utan háannar. Þannig nemur fjölgunin frá september 2002, þ.e. á sl. 4 árum, 61,4% og munar um minna fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Frá áramótum, eða fyrstu níu mánuði ársins, nemur fjölgunin sem fyrr segir 7,2% á milli ára eða tæplega 22 þúsund ferðamönnum. Af þeirri aukningu eru tæplega 4 þúsund að koma frá Norðurlöndunum, 3.400 frá Bretlandi, 1.761 frá Bandaríkjunum og 1.620 frá löndum á meginlandi Evrópu sem talin eru sérstaklega. Í talningum Ferðamálastofu eru ferðamenn frá 15 löndum taldir sérstaklega en aðrir eru taldir sem ein heild. Í þessum hópi hefur orðið hlutfallslega mest fjölgun frá áramótum. Líkt og áður hefur komið fram hefur einmitt verið ákveðið að fjölga um áramót þeim löndum sem talin eru sérstaklega í Leifsstöð.

Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu segir ánægjulegt að sjá að aukningin í ár sé hlutfallslega meiri utan sumartíma en sumarmánuðina og sé það í samræmi við stefnumótun um að lengja ferðamannatímabilið. T.d komu fleiri ferðamenn í september í ár en í júní fyrir 2 árum.

Frá áramótum til loka september
  2005 2006 Mism. %
Bandaríkin                     46.040 47.801 1.761 3,8%
Bretland                       47.473 50.936 3.463 7,3%
Danmörk                        29.466 31.030 1.564 5,3%
Finnland                       6.757 7.128 371 5,5%
Frakkland                      18.818 19.360 542 2,9%
Holland                        9.659 9.633 -26 -0,3%
Ítalía                         8.386 8.161 -225 -2,7%
Japan                          4.420 4.846 426 9,6%
Kanada                         2.874 3.334 460 16,0%
Noregur                        20.027 22.053 2.026 10,1%
Spánn                          5.958 7.348 1.390 23,3%
Sviss                          6.250 5.571 -679 -10,9%
Svíþjóð                        21.373 21.384 11 0,1%
Þýskaland                      34.317 34.935 618 1,8%
Önnur þjóðerni                 41.583 51.699 10.116 24,3%
Samtals: 303.401 325.219 21.818 7,2%

Heildarniðurstöður úr talningunum er að finan hér á vefnum undir liðnum Talnaefni