Fara í efni

Samgönguráðherra í heimsókn á aðalskrifstofu ETC

Sturla ræða
Sturla ræða

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra heimsótti aðalskrifstofu Ferðamálaráðs Evrópu, European Travel Commission (ETC), í Brussel sl. mánudag. Átti hann fund með framkvæmdastjóra ETC, Rob Franklin, og nokkrum sérfræðingum á skrifstofunni.

Auk þeirra tóku þátt í fundinum Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Jakob Falur Garðarsson, fulltrúi samgönguráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel og Magnús Oddsson ferðamálastjóri, sem hefur tekið þátt í störfum ETC undanfarin 14 ár og setið í framkvæmdastjórn í sex ár. Framkvæmdastjóri ETC og hans fólk kynnti fyrir samgönguráðherra starfsemi ETC í markaðs- og kynningarmálum, svo og mikla vinnu við markaðsrannsóknir ( sjá frétt hér á vefnum 2. mars sl.).

Nýja Evrópugáttin senn opnuð
Loks var kynntur hinn nýi sameiginlegi vefur aðildarríkja ETC, Evrópugáttinn, sem verður formlega opnuð 21. mars nk. Þar hefur af Íslands hálfu verið unnið mikið að því undanfarna mánuði að hlaða inn upplýsingum um Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Hefur það verið unnið af vefstjóra Ferðamálastofu Halldóri Arinbjarnarsyni. Í þessu verkefni kemur það vel í ljós að Ísland hefur þar jafna möguleika og stærstu þjóðir Evrópu við að nýta sér þessa sameiginlegu gátt til kynningar og kom ljóslega fram í máli starfsmanna ETC að Halldór hefur af hálfu Íslands nú þegar hlaðið inn meiri upplýsingum en mörg önnur ríki Evrópu þó miklu stærri séu.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum hefur Ísland verið aðili að Ferðamálaráði Evrópu í nærri 40 ár, en ETC var stofnað árið 1948 eða fyrir nær 60 árum. Aðildarríki ETC eru nú 34 talsins.