Fara í efni

Ný stjórn hjá Félagi ferðamálafulltrúa

AsborgArnthors
AsborgArnthors

Aðalfundur Félags ferðamálafulltrúa á Íslandi (FFÍ) var haldinn í Stykkishólmi á dögunum. Þar var meðal annars farið yfir það sem hæst bar á liðnu starfsári og kosin ný stjórn.

Í nýrri stjórn FFÍ sitja sem aðalmenn Haukur Suska Garðarsson, atvinnuráðgjafi í Austur-Húnavatnssýslu; Hrafnhildur Tryggvadóttir, forstöðumaður, Upplýsinga- og kynningamiðstöðvar Vesturlands og Knútur Karlsson, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Akureyri. Varamenn eru Drífa Magnúsdóttir, verkefnisstjóri á Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík og Hildigunnur Jörundsdóttir, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar Austurlands.

Ráðstefnu EUTO ber hæst
FFÍ var formlega stofnað fyrir fjórum árum og að sögn Ásborgar Arnþórsdóttur, fráfarandi formanns var liðið starfsár það annasamasta hingað til enda var ráðist í metnaðarfull verkefni. Hæst ber árlega ráðstefna Evrópusambands ferðamálafulltrúa, EUTO, sem haldin var á Íslandi og námsferð í tengslum við hana alls heil vika 29. ágúst - 5. september 2004. En vinnan bar árangur og uppskeran var ríkuleg. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum yfir 60 "Tourist officers " frá ýmsum Evrópulöndum tóku þátt og almenn ánægja var með Íslandsferðina. "Ljóst er að auk þess að vera fræðilega nærandi fyrir FFÍ félaga er þetta Evrópusamstarf gífurleg landkynning," segir Ásborg.

Mikilvægt að félagsmenn séu virkir
Ásborg segir miklu máli skipta í félagi sem FFÍ að félagsmenn séu virkir. "Stjórnin hefur litið á það sem hlutverk sitt sem fyrr að halda utan um tiltekna grunnþætti s.s. félagaskrá, boðun funda og samskipti út á við. Að öðru leyti hefur verið leitað til félaga varðandi áhersluatriði og viðfangsefni. FFÍ er mikilvægur samnefnari fyrir okkur sem vinnum í nánum tengslum við grasrótina og erum oft eins konar millistykki milli ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga og ráðamanna í ferðaþjónustu. Það hefur færst í vöxt að óskað sé eftir samstarfi við FFÍ frá ýmsum aðilum og einnig er gjarnan leitað álits varðandi ýmis málefni sem varða ferðaþjónustu. Meginmarkmið félagsins var og er að styðja og styrkja okkur sjálf og hvert annað í stafi, stuðla að aukinni fagmennsku í okkar röðum og síðast en ekki síst að eiga skemmtilegar stundir saman. Ég vil óska nýrri stjórn velfarnaðar, mér líst mjög vel á þau og veit að framundan eru góðir tímar," segir Ásborg.