Fara í efni

Áhugaverður sérkortadiskur fyrir ferðafólk

SerkortLMI
SerkortLMI

Landmælingar Íslands hafa sent frá sér kortadisk sem er einkar áhugaverður fyrir ferðafólk. Á honum eru m.a. sérkort af vinsælum ferðamannastöðum, friðlöndum og þjóðgörðum.

Þetta er þriðji kortadiskurinn sem Landmælingar gefa út. Með útgáfu diskanna er komið fjölbreytt og aðgengilegt safn stafrænna gagna sem henta ferðamönnum og öðru áhugafólki. Einnig henta diskarnir vel við kennslu og eru góð heimild um örnefni og staðhætti. Meðal vinsælla ferðamannastaða sem skoða má á nýja disknum eru Þórsmörk, Landmannalaugar, Skaftafell, Mývatn og Hornstrandir. Einnig eru á disknum staðfræðikort af Suðvesturlandi og Fljótsdalshéraði í mælikvarðanum 1:25.000, ferðakort í mælikvarðanum 1:750.000 og kort sem sýna nýja kjördæmaskiptingu og sveitarfélögin á landinu.

Fjölbreyttir notkunarmöguleikar
Í frétt frá Landmælingum kemur fram að skipulega er unnið að útgáfu kortadiska hjá stofnuninni en með þeim er auðvelt að nýta sér stafræn gögn á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Með stafrænu kortunum má mæla fjarlægðir og flatarmál, leita að örnefnum og skoða mismunandi kort samtímis. Á ferðalögum má tengja GPS tæki við kortin í tölvunni og sjá nákvæma staðsetningu. Auðveldlega má bæta inn á kortin eigin texta og táknum og því getur hver og einn útbúið og prentað út kort eftir sinum eigin þörfum. Þá er hægt að afrita og skeyta kortum inn í önnur forrit. Einfalt er að leita eftir hnitum og örnefnum, en yfir 3000 örnefni eru í nafnaskrá. Leiðbeiningar á íslensku fylgja í handbók.

Veita upplýsingar um þjóðgarða, friðlönd og aðrar náttúruperlur
Útgáfu sérkorta má rekja til nokkurra korta sem gefin voru út af Geodætisk Institut í mælikvarða 1:50.000 á fyrri hluta síðustu aldar. Tvö þeirra, Mývatn og Hekla 1:50 000 þróuðust með tímanum. Síðar bættust önnur við; Þingvellir 1:25 000 og Skaftafell einnig í mælikvarða 1:25 000, sem prentað var á sömu örk og samsett atlasblöð nr. 87 og 88, nefnt Öræfajökull. Þá komu út nokkur sérkort í mælikvarða 1:100 000, Suðvesturland, Húsavík-Mývatn, Þórsmörk-Landmannalaugar og Hornstrandir. Loks komu svo út í þessum flokki kort af Vestmannaeyjum og Surtsey.

Kortin eru ólík að eðli og gerð fyrir utan það að vera gefin út í mismunandi mælikvörðum, en þau eiga það sammerkt að vera ætluð ferðafólki til að veita upplýsingar um þjóðgarða, friðlönd og aðrar náttúruperlur landsins. Nokkur kortanna eru ekki lengur uppfærð og gefin út á pappír og verða þau því hér eftir einungis fáanleg á þessum diski.