Fara í efni

Fjörugar umræður á aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands

Á dögunum héldu Ferðamálasamtök Íslands aðalfund sinn fyrir árið 2004. Var hann að þessu sinni haldinn á Hótel Stykkishólmi. Fundurinn var vel sóttur og að venju voru ýmis mál til umfjöllunar.

Dagskráin hófst með setningu Péturs Rafnssonar, formanns samtakanna. Þar minntist hann m.a. á mikilvægi þess að halda fundi og ráðstefnur sem þessa á landsbyggðinni. Það gæfi víðari sýn og skilaði tekjum inn á svæðin. Hann fjallaði einnig um mikilvægi og forystuhlutverk samtakanna í allri samvinnu aðila í ferðaþjónustu í hverjum landshluta. Pétur lagði auk þess áherslu á allan stuðning við ferðaþjóna hvað varðar aukin gæði, öryggi og faglega vinnubrögð. Þar gætu samtökin komið að málum eins og gert hafi verið með námskeiðahaldi á starfsárinu 2003-2004.

Samstarfið á Norðurlandi
Á eftir setningarræðu Péturs var komið að erindi Kjartans Lárussonar, framkvæmdastjóra Markaðsskrifstofu Norðurlands. Þar fjallaði hann um samstarfið í ferðaþjónustu á Norðurlandi, m.a. um forsögu þess að byggja upp samstarf í kynningar- og markaðsmálum á svæðinu og reynsluna til þessa. Sagði hann verkefni sem þetta krefjast mikillar þolinmæði, vinnu og bjartsýni.

Sýningarhald
Að loknum fyrirspurnum fjallaði Jón Gunnar Borgþórsson, rekstrarhagfræðingur hjá JGB ráðgjöf, um sýningar sem markaðstæki og fjallaði um Ferðatorgið sérstaklega. Kom margt áhugavert fram í erindi Jóns Gunnars. Sem kost við Ferðatorgið nefndi hann m.a. að fólk sér hvað aðrir eru að gera og myndar tengsl fyrir samstarf. Taldi hann sýningarhald almennt eiga framtíð fyrir sér þótt heldur hafi dregið úr þeim á síðustu misserum. Sýningar séu nú orðnar sérhæfðari og markvissari og fólk mætir betur undirbúið til leiks.

Kosið í stjórn
Að loknu kaffihléi fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum samtakanna. M.a. var kosið í stjórn og var Pétur Rafnsson endurkjörinn formaður.Frá landshlutasamtökunum voru tilnefndir í stjórn: Kristján Pálsson Ferðamálasamtökum Suðurnesja, Hildur Jónsdóttir Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins, Hjörtur Árnason Ferðamálasamtökum Vesturlands, Arnar Jónsson Ferðamálasamtökum Vestfjarða, Jóhanna Jónasdóttir Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra, Ásbjörn Björgvinsson Ferðamálasamtökum Norðurlands eystra, Ásmundur Gíslason Ferðamálasamtökum Austurlands og Eyja Þóra Einarsdóttir Ferðamálasamtökum Suðurlands.

Ályktunum vísað til stjórnar
Undir liðnum önnur mál spunnust fjörugar umræður. Tvær ályktanir voru lagðar fram og var báðum vísað til stjórnar. Sú fyrri hljóðaði uppá að stjórnin kanni núverandi starfssvæði landshlutasamtakanna og sú síðari að FSÍ vinni að því að landshlutaupplýsingamiðstöðvar setji sér umhverfisstefnu og leiti mögulega eftir vottun frá Green Globe 21. Dagurinn endaði síðan með skoðunarferð um Stykkishólm, móttöku hjá bæjarstjórn, þar sem bæjarstjóri Stykkishólms Óli Jón Gunnarsson tók á móti gestunum. Að lokum var kvöldverður og kvöldvaka í Hótelinu með skemmtiatriðum listamanna úr Stykkishólmi.

Ávarp samgönguráðherra
Seinni fundardagur hófst með ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Sturla hvatti fólk til dáða og minntist sérstaklega á umhverfisverkefnið Green Globe 21 á Snæfellsnesi og mikilvægi þess fyrir ferðaþjónustuna. Hann talaði einnig um fjárframlög til greinarinnar. Almennt verður stuðningurinn sá sami en dregið verður úr fjárframlögum til kynningar- og markaðsmála erlendis á þessu ári. Fór Sturla yfir þann góða árangur sem náðst hefur í kynningarmálum undanfarin ár.

Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, flutti erindi um tengsl ferðamála og landsbyggðarinnar. Kjarni málsins í erindi Einars var að ferðaþjónustan er að vaxa og að breytast og að við eigum að veðja á ferðaþjónustuna sem krefst aukins mannafla og fjárfestingar.

Magnús Oddsson, ferðamálastjóri fór yfir ýmislegt talnaefni um fjölda, fjármagn og árangur. Hann hvatti fundarmenn að til að skoða tölurnar vel og spyrja sig gagnrýnna spurninga t.d. af hverju við náum árangri gagnvart ákveðnum hópum en ekki öðrum. Hvernig þróum við vörur og hvernig mætum við væntingum ferðamanna.

Síðasta erindið kom síðan frá Sigríði Finsen, hagfræðingi sem fjallaði um ferðaþjónustu og umhverfismál á Snæfellsnesi. Í lokin voru síðan pallborðsumræður og fyrirspurnir þar sem ýmis mál voru til umræðu.

Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands sleit síðan aðalfundi samtakanna með smantekt um fundinn í heild sinni og óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar.

Myndir frá fundinum má m.a. sjá á vef Eymundar Gunnarssonar, atvinnu og ferðamálafulltrúa í Rangárþingi og Mýrdal.