Fara í efni

Þrír stórir bandarískir fjölmiðlar beina kastljósinu að Íslandi

jolasveinaravegi
jolasveinaravegi

Ísland hefur sannarlega verið áberandi í bandarískum fjölmiðlum upp á síðkastið og er skemmst að minnast "The Amazing Race" þáttaraðarinnar. Mörg fleiri dæmi mætti nefna og á næstu dögum munu þrír af stóru bandarísku fjölmiðlunum beina kastljósinu að Íslandi í þáttum og greinum.

Fyrst má nefna að laugardaginn 18. desember verður hinn geysivinsæli þáttur ABC News, "Good Morning America", helgaður jólum um víða veröld og þar fá hinir 13 íslensku jólasveinar sitt pláss. Daginn eftir verður löng grein í ferðablaði "The New York Times" um Reykjavík og ferðalög til Íslands. Þar er Ísland lýst sem ákjósanlegum áfangastað fyrir helgarferðir og lögð áhersla á möguleika á fjölbreyttum ævintýraferðum, úrvali veitingastaða og fjörugu næturlífi. Loks má geta að 20. desember fær Ísland athygli í geysivinsælum þætti Fox sjónvarpsstöðvarinnar, "The Swan" , sem sendur er út um öll Bandaríkin.

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York hefur komið að öllum þessum málum og Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofunnar, segir ekki hægt annað en að vera himinlifandi með hversu vel hefur tekist til.

Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson