Fara í efni

Ekki auglýst eftir samstarfsaðilum vegna kynningar erlendis 2005

kayaksigling
kayaksigling

Eins og áður hefur komið fram var við afgreiðslu fjárlaga nú í desember samþykkt 150 milljón króna fjárveiting til markaðsverkefna í ferðaþjónustu. Þetta er 170 milljónum lægra en á yfirstandandi ári. Lækkunin er hliðstæð upphæð og var nýtt til samstarfsverkefna erlendis á þessu ári.

"Þetta eru auðvitað vonbrigði að fjárveitingin er lækkuð sem raun ber vitni, en hinu er ekki hægt að neita að þrátt fyrir að unnið hafi verið að þessu af okkar hálfu af fagmennsku þá hafa fáar en háværar raddir verið í greininni um að aðferðin væri jafnvel ólögleg. Þessar háværu raddir hafa eðlilega náð eyrum ráðamanna eins og annarra. Málið er til meðferðar hjá ESA í framhaldi af því að eitt fyrirtæki kærði aðferðarfræðina," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.

Hann segir ennfremur að því hafi það í reynd næstum verið sjálfgefið þegar fjárveitingin var lækkuð um hliðstæða upphæð sem fór til umræddra verkefna og enn sé óvissa um niðurstöðu málaferla að hvíla þessa aðferðarfræði árið 2005. "Auðvitað hefðu allir kosið að fjárveitingin yrði a.m.k. sú sama og í ár og að sátt væri um aðferðarfræðina. Þessi aðferðarfræði hefur vakið athygli víða og að mati margra er þetta ein af ástæðunum fyrir að árangur okkar er hlutfallslega meiri en flestra annarra á þessum árum. En við eigum auðvitað ekki annan kost en að taka mið af þessum aðstæðum, annars vegar að það fjármagn sem var til samstarfsverkefna í ár er ekki til og óvissunnar um niðurstöðu kæru á hendur okkur," segir Magnús.

Skipting fjármuna
Nú hefur verið ákveðið hvernig þær 150 milljónir, sem eru til ráðstöfunar verði nýttar og er það í aðalatriðum á sama hátt og á þessu ári að frádregnum áðurnefndum samstarfsverkefnum erlendis. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar fara 20 milljónir í byggðatengd verkefni í ferðaþjónustu. Þær 130 milljónir sem eftir eru skiptast í aðalatriðum þannig að 46 milljónir fara til innlendra kynningarverkefna, 20 milljónir eru áætlaðar til verkefnisins Iceland Naturally í Evrópu, 45 milljónir fara til hefðbundinna verkefna á fimm markaðssvæðum. Þar er um að ræða almenn kynningarverkefni, staðbundnar sýningar, fjölmiðlaheimsóknir, auglýsingar o.fl. Loks eru 14 milljónir áætlaðar vegna almennrar sýningarþátttöku, gerðar alls sameiginlegs kynningarefnis til notkunar á öllum mörkuðum; vefir, ljósmyndir, bæklingar, DVD-diskar o.fl.

Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson