Fara í efni

Sumarkönnun Ferðamálaráðs meðal erlendra gesta - Náttúra Íslands er aðdráttaraflið

NatturaIslands
NatturaIslands

"Meginniðurstaða þessarar könnunar og samanburðar við fyrri kannanir er einfaldlega að hinn dæmigerði erlendi sumarferðamaður hefur lítið verið að breytast á þessum átta árum sem liðin eru frá því við hófum þessar kannanir. Hann er vel menntaður, vel stæður og hefur fyrst og fremst áhuga á náttúru landsins," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri um niðurstöður nýrrar könnunar Ferðamálaráðs á ferðavenjum erlendra gesta sem sóttu Ísland heim í sumar.

Sumarkönnun Ferðamálaráðs 2004 fór fram í Leifsstöð og á Seyðisfirði frá júníbyrjun til ágústloka. Á þessu tímabili fóru um 175 þúsund erlendir gestir úr landi og var spurningalistum dreift af handahófi til 3.139 gesta og bárust 2.507 nothæfir svarlistar til baka. Meðalaldur svarenda var um 44 ár, sem er tæplega þremur árum hærri meðalaldur en í könnuninni 2002. Jafnræði var milli kynja og ríflega helmingur svarenda sagðist vera með tekjur yfir meðallagi eða háar tekjur, miðað við meðaltekjur í heimalandi.

80% vilja koma aftur
Eins og í fyrri könnunum nefna langflestir svarenda náttúruna og landið þegar spurt er um hvaðan hugmynd að Íslandsheimsókn hafi komið. Næstflestir nefna vini/ættingja og síðan þætti eins og ferðabæklinga, blaðagreinar og fyrri heimsóknir en 20% gestanna höfðu komið áður og 80% vilja koma aftur. Langflestir svarenda, eða um 60 af hundraði, höfðu ekki séð neina umfjöllun um Ísland áður en haldið var í ferðina en um fjórðungur hafði séð jákvæða umfjöllun.

Netið er langöflugasti upplýsingamiðill erlendra ferðamanna um Ísland. Ríflega helmingur svarenda sagist nota það en í fyrstu könnuninni árið 1997 var þetta hlutfall innan við 20 af hundraði. Bæklingar eða handbækur eru nú næstmest notaði upplýsingamiðillinn en álíka margir nefndu einnig ferðaskrifstofur í eigin landi. Af þeim erlendu gestum sem sóttu upplýsingar á Netið voru Bandaríkjamenn og Bretar duglegastir að nýta þennan nýja upplýsingabrunn.

Nýta afþreyingu í auknum mæli
Sem fyrr eru flestir erlendu gestanna að koma í frí og var meðaldvalarlengd hér á landi um 10 og ½ dagur. Almenn aukning er í nýtingu afþreyingar af ýmsu tagi en sem fyrr njóta náttúruskoðun og sund mestra vinsælda.

"Það er mjög ánægjulegt að sjá að erlendu ferðamennirnir eru að nýta sér í auknum mæli þá afþreyingu sem boðið er upp á um allt land. Það sýnir að sú stefna sem við mörkuðum í þessum efnum var rétt. Þá er einnig fagnaðarefni að sjá að gistingum er að fjölga víðast hvar úti á landsbyggðinni milli kannana, ekki síst á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum," segir Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands.

Eins og fyrr gista flestir í Reykjavík en þar fækkar gistingum frá fyrri könnun en þeim fjölgar í öllum öðrum landshlutum, nema á Norðurlandi þar sem fjöldi gistinátta stendur nokkurn veginn í stað milli kannana. Flestir gista á hótelum og þar er smáaukning merkjanleg frá síðustu könnun sem og í bændagistingu.

Geysir og Þingvellir eru eins og áður þau svæði eða staðir sem flestir heimsóttu enda landið og náttúran þeir þættir sem erlendir ferðamenn meta jákvæðasta við Ísland. Þar á eftir kemur fólkið og síðan þjónustan en neikvæðustu þættirnir eru sem fyrr verðlagið og svo veðrið. Skilgreiningar eins og "hrein og ómenguð náttúra" og "einstakt náttúruævintýri" lýsa Íslandi best að mati erlendu sumargestanna. Margir nefndu einnig afslappað andrúmsloft.

Þá vekur athygli að vægi rútuferða, bæði skipulagðra ferða og sérleyfisferða, hefur minnkað frá síðustu könnun en notkun einkabíla hefur vaxið töluvert á meðan notkun bílaleigubíla er svipuð.

Aldurs- og tekjumunur á farþegum flugfélaganna
Könnunin í sumar er sú fyrsta sem gerð er eftir að Iceland Express hóf reglulegt áætlunarflug milli Íslands og tveggja Evrópulanda og því þótti forvitnilegt að greina svör erlendu gestanna eftir flugfélögum. Í ljós kom að 72% svarenda ferðuðust með Flugleiðum, 12% flugu með Iceland Express, 8% ferðuðust með öðrum flugfélögum og jafnmargir notuðu annan ferðamáta en flug.

Greinilegur aldurs- og tekjumunur kom fram hjá erlendu gestunum eftir því með hvaða flugfélagi þeir ferðuðust. Þannig var meðalaldur svarenda sem nýttu sér þjónustu Iceland Express tæplega 36 ár en í kringum 43 ár hjá farþegum með Flugleiðum og öðrum flugfélögum. Þá eru tekjur þeirra sem fljúga með Flugleiðum heldur hærri en farþega sem fljúga með Iceland Express eða öðrum félögum. Langflestir þeirra sem flugu með Iceland Express voru hér á eigin vegum en liðlega helmingur farþega með Flugleiðum og öðrum flugfélögum var hér á eigin vegum og 30-40% í skipulögðum pakkaferðum.

Í heildina eru niðurstöður sumarkönnunarinnar almennt í takt við fyrri kannanir Ferðamálaráðs að mati ferðamálastjóra. "Það er alveg ljóst að þó við höfum verið að ná um 80 % fjölgun erlendra gesta á þessum átta árum þá hefur samsetning hópsins breyst sáralítið heldur höfum við einfaldlega verið að ná fleirum úr þessum áhugaverða markhópi til okkar, væntanlega vegna þess að við höfðum vel til þeirra," segir Magnús Oddsson að lokum.

Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.