Fréttir

Vel heppnað haustþing Vestfirðinga

Ferðamálasamtök Vestfjarða héldu haustþing sitt í Flókalundi í Vatnsfirði á dögunum. Ýmis mál voru til umræðu og var þingi í alla staði gagnlegt, að sögn Jóhanns Ásmundssonar, formanns samtakanna. Innri mál ferðaþjónustunnarÁ fyrri hluta þingsins, sem stór yfir í tvo daga, var fjallað um Innri mál ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum. M.a. fór Dorothee Lubecki ferðamálafulltrúi yfir nýliðið sumar með tilliti til ferðaþjónustunnar og Neil Shiran Þórisson fjallaði um mótun markaðsstefnu Ferðamálasamtaka Vestfjarða. Einnig var kynning á uppfærðum ferðamálavef samtakanna og uppbygging upplýsingamiðstöðva á Vestfjörðum var tekin fyrir, svo nokkuð sé nefnt.. Ferðaþjónustan og friðlöndAnnað meginefni var ferðaþjónustan og friðlönd. Þar var meðal annars fjallað um samband ferðaþjónustunnar og náttúrunnar og hvernig sérstaða Vestfjarða yrði best nýtt ferðaþjónustunni til framgangs. Jóhann segir umræður hafa verið fjörugar og margar góðar hugmyndir hafi safnast saman sem teknar verði til frekari skoðunar hjá vestfirskum ferðaþjónum í vetur. "Við vorum með mjög skemmtilega og góða fyrirlesara, þar á meðal Skúla Skúlason, rektor Hólaskóla, sem kom með nokkurs konar forspjallsinnlegg inn í þessa náttúruferðamennsku og lýsti því hvaða aðferðir væri hægt að notast við til að byggja upp sjálfbæra ferðamennsku. Það má segja að efnið snúi að stefnumótandi þáttum hjá okkur, hvernig við getum byggt upp okkar náttúruvænu ferðamennsku og jafnframt haldið í sérstöðu okkar". Fróðleg erindi og umræðurFlutt voru erindi um friðlönd og þjóðgarða en Jóhann segir gagnlegt að gera grein fyrir mismunandi vægi skilgreininga eins og friðlanda og náttúruvætta. Einnig voru flutt erindi um skipulagsmál. "Þetta var mjög upplýsandi því margir höfðu ekki gert sér grein fyrir að með nýjum lögum eru það sveitarstjórnir sem eiga að hafa frumkvæði að aðal- og deiliskipulagi á sínu landi, einnig þar sem eru friðlönd eða þjóðgarðar", segir Jóhann. Hörður Sigurbjarnarson frá hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu á Húsavík flutti erindi um tilurð og stofnun fyrirtækisins. Þar kom fram að hvatinn að stofnun þess var áhugi á varðveislu gamalla eikarbáta sem þá voru að syngja sitt síðasta en hafi síðan fengið nýtt hlutverk við náttúruskoðun á hafinu. "Þarna kom fram skemmtilegur vinkill. Hörður benti á að náttúra Íslands er ekki aðeins landið heldur hafið og ströndin líka. Um þetta spunnust miklar umræður, svo sem um það af hverju sveitarstjórnir hafi ekki meira um skipulag á hafsvæðinu út frá sínu landi að segja. Við höfum engin skipulagslög eða lög um umhverfismat að byggja á þegar farið er út í atvinnustarfsemi á hafinu. Það vantar að skipuleggja hvernig við ætlum að nýta strandlengjuna. Hún er mikilvæg fyrir ferðamennsku og aðra atvinnustarfsemi", segir Jóhann Ásmundsson.  
Lesa meira

Aukaflug vegna ferðamálaráðstefnunnar

Fyrir þá sem ekki voru búnir að ná sér í flugsæti til Akureyrar vegna ferðamálaráðstefnunnar í Mývatnssveit 16.-17. október næstkomandi skal bent á að nú er búið að bæta við vél sem fer frá Reykjavík kl. 08:15 að morgni 16. október. Rútuferð seinkaðRútan sem búið var að setja upp í tengslum við fyrsta flug frá Reykjavík bíður eftir þeim farþegum sem koma með vélinni sem fer 08:15 frá Reykjavík og leggur því ekki af stað upp í Mývatnssveit fyrr en kl. 09:00. Hringur tekinn á milli gististaðaHvað varðar rútuferðina til Akureyrar aftur 17. október í veg fyrir flug kl. 14:40 til Reykjavíkur skal tekið fram að rútan mun aka hring milli allra gististaðanna á svæðinu áður en að hún heldur til Akureyrar þannig að menn þurfa ekki að fara að Sel-Hótel Mývatni til að ná rútunni heldur verða menn teknir upp á sínum gististað þó svo að ferðin eigi sér upphafspunkt frá Sel-Hótel Mývatni kl. 12:45. Muna að skrá sigAð lokum er vert minna alla á sem ætla sér að koma á ráðstefnuna en hafa ekki skráð sig nú þegar að endilega drífa í því en skráningu lýkur 14. október.  
Lesa meira

Stefnt að könnun meðal erlendra ferðamanna

Á fundi Ferðamálaráðs fyrir skemmstu var samþykkt að stefna að því að taka upp aftur í byrjun næsta árs könnun meðal erlendra ferðamanna í Leifsstöð. Síðustu könnunin af þessu tagi lauk fyrir rúmu ári síðan. Jafnframt samþykkti ráðið að stefnt verði að innlendri símakönnun nú í nóvember, hliðstæðri og var gerð haustið 2000. Loks var samþykkt að unnið verði frekar úr upplýsingum frá markaðssvæðum okkar um þróun á einstökum mörkuðum. Nánari upplýsingar um kannanir Ferðamálaráðs má fá undir liðnum Kannanir skýrslur hér á vefnum.  
Lesa meira

Gunnar í stað Kristjáns Þórs

Ein breyting hefur orðið á skipan fulltrúa í Ferðamálaráði. Gunnar Sigurðsson, bæjarstjórnarmaður á Akranesi, hefur tekið sæti sem annar fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í stað Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra á Akureyri. Um leið og Kristjáni Þór eru þökkuð störf hans og ánægjuleg samskipti er Gunnar boðinn velkominn í ráðið.  
Lesa meira

Stefnumótun í sjálfbærri ferðaþjónustu norðan heimskautsbaugar

Að hálfu Norrænu ráðherranefndarinnar er nú verið að vinna að stefnumótun í sjálfbærri ferðaþjónustu á svæðum norðan heimskautsbaugar. Í liðinni viku var boðað til málstofu í Kaupmannahöfn vegna þessa. Fróðleg vinnaSvæðið sem um ræðir er sá hluti Norðurlandanna sem liggur norðan heimskautsbaugar og tekur Ísland þátt í verkefninu þótt raunar sé það aðeins hluti Grímseyjar sem strangt til tekið falli undir skilgreininguna. Valur Þór Hilmarsson umhverfisfulltrúi sótti málþingið fyrir hönd Ferðamálaráðs og segir hann að afar fróðlegt hafi verið að taka þátt í þeirri vinnu sem nú á sér stað um þetta efni. "Megintilgangur málþingsins var að velta upp spurningum um stöðu mála og leggja grunn að opinberri stefnu í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu," segir Valur. Þó nokkrum aðilum frá Íslandi var boðið frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins og samtökum innan ferðaþjónustunnar. Aðrir þátttakendur voru frá norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands auk fulltrúa fyrir Grænland og Svalbarða. Til að halda utan um verkefnið var fengið ráðgjafafyrirtæki í Kaupmannahöfn, Rambøll, sem hefur mjög viðtækt starfsvið í ráðgjöf á ýmsum sviðum. Og hefur um 2.000 manns á launaskrá víða um heim.  
Lesa meira

16,5% fjölgun ferðamanna í september

Erlendum ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll í nýliðnum septembermánuði fjölgaði verulega borið saman við sama mánuð í fyrra. Fjölgunin nemur 16,5% eða rösklega 4.000 gestum. Þetta kemur fram í talningum Ferðamálaráðs. Mest fjölgun frá ÞýskalandiÞjóðverjum fjölgar mest en tæplega 2000 fleiri Þjóðverjar fóru um Keflavíkurflugvöll í september nú en fyrir ári síðan sem gefur fjölgun upp á rúm 77%. Einnig er góð fjölgun frá öðrum helstu mörkuðum, svo sem Bandaríkjunum, Bretlandi og Norðurlöndunum. Vert er að minna á að inn í þessum tölum eru ekki farþegar Norrænu eða þeir sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík. 12% fjölgun í mars-septemberTalningar Ferðamálaráðs hafa staðið yfir frá því í febrúar 2002 og því liggja nú fyrir samanburðarhæfar niðurstöður fyrir tímabilið mars til september fyrir árin 2002 og 2003. Sé þetta tímabil borið saman á milli ára kemur í ljós að erlendum ferðamenn í ár eru ríflega 12% fleiri en í fyrra. Mest munar um Breta, Þjóðverja og Dani í þessum tölum en 15.800 fleiri gestir komu frá þessum löndum nú. Mið- og Suður-Evrópubúum fjölgar einnig verulega og hlutfallslega fjölgar Spánverjum mest alla þjóða, eða um 35%. Í töflunum hér að neðan má annars vegar sjá samanburð á milli septembermánaðar 2002 og 2003 og hins vegar samanburð á tímabilinu mars-september í ár og í fyrra.   Fjöldi ferðamanna í september*   2002 2003 Mism. % Bandaríkin 4.172 4.469 297 7,1% Bretland 3.271 4.094 823 25,2% Danmörk 2.143 2.504 361 16,8% Finnland 676 696 20 3,0% Frakkland 1.653 1.477 -176 -10,6% Holland 940 831 -109 -11,6% Ítalía 393 541 148 37,7% Japan 337 380 43 12,8% Kanada 271 308 37 13,7% Noregur 2.711 2.286 -425 -15,7% Spánn 341 377 136 39,9% Sviss 322 321 -1 -0,3% Svíþjóð 2.190 2.616 426 19,5% Þýskaland 2.547 4.512 1.965 77,1% Önnur þjóðerni 2.586 3.082 496 19,2% Samtals: 24.553 28.594 4.041 16,5%   Ísland 20.201 24.600 4.399 21,8% Heimild: Ferðamálaráð Íslands, brottfarir erlendra ferðamanna í Leifsstöð. *Hér eru ekki taldir með farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.   Mars - september   2002 2003 Mism. % Bandaríkin 32.769 32.337 -432 -1,32% Bretland 29.227 36.449 7.222 24,71% Danmörk 15.158 18.174 3.016 19,90% Finnland 4.704 5.074 370 7,87% Frakkland 16.052 17.926 1.874 11.67% Holland 7.751 8.567 816 10,54% Ítalía 6.937 8.060 1.123 16,19% Japan 2.456 2.479 23 0,94% Kanada 1.671 1.894 223 13,35% Noregur 15.834 16.382 548 3,46% Spánn 3.413 4.611 1.198 35,10% Sviss 5.295 5.686 391 7,38% Svíþjóð 16.645 17.580 935 5,62% Þýskaland 27.118 32.679 5.561 20,51% Önnur þjóðerni 22.781 25.148 2.367 10,39% Samtals: 207.811 233.046 25.235 12,14% Ísland 154.628 190.802 36.174 23,39%  
Lesa meira

Dagskrá ferðamálaráðstefnu 2003

Dagskrá Ferðamálaráðstefnunnar í Mývatnssveit 16.-17. október næstkomandi er nú komin hér á vefinn og jafnframt hægt að skrá sig á ráðstefnuna. Meginefni og yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er "Markaðssetning Íslands - breyttar áherslur." Ráðstefnan er haldin í félagsheimilinu Skjólbrekku við Skútustaði. Auglýst eftir samstarfiMeð yfirskrift ráðstefnunnar er verið að vísa til þeirrar nýju leiðar sem farin var á þessu ári við nýtingu þess fjármagns sem stjórnvöld ákváðu að verja til markaðssóknar íslenskrar ferðaþjónustu. Í stuttu máli var ákveðið að nýta 202 milljónir, af þeim 300 sem voru veittar af opinberri hálfu til markaðsstarfs á árinu 2003, til samstarfsverkefna í almennri landkynningu á 4 markaðssvæðum erlendis. Var fjármununum skipt með ákveðnum hætti á hverju markaðssvæði og síðan auglýst eftir samstarfsaðilum. Þannig gafst aðilum kostur á að sækja um samstarf við Ferðamálaráð gegn því að leggja fram a.m.k. jafn háa upphæð og framlag Ferðamálaráðs var til umræddra verkefna. Framsaga og pallborðFramsögu um málið mun hafa Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands. Síðan verða pallborðsumræður þar sem þátt taka Hannes Hilmarsson, svæðisstjóri Icelandair; Svanhildur Konráðsdóttir, framkvæmdastjóri Höfuðborgarstofu; Gunnar Rafn Birgisson, framkvæmdastjóri Atlantic; Óli Jón Ólason, hótelstjóri Hótel Reykholt; Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi Hótel 101 og Magnús Oddsson, ferðamálastjóri. HátíðarkvöldverðurAð ráðstefnu lokinni verður móttaka í boði samgönguráðherra og í beinu framahaldi hátíðarkvöldverður og skemmtun á Hótel Gíg. Þar verða m.a. veitt umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs fyrir árið 2003. Föstudaginn 17. október verður samkvæmt venju skoðunarferð um svæðið í boði heimamanna. Skoða dagskrá Myndatexti:  Séð yfir Mývatn með Skútustaði í forgrunni.  Myndin er fengin af vef Skútustaðahrepps.  
Lesa meira

Hálf milljón gesta á upplýsingamiðstöðvunum

Byggðastofnun og Félag ferðamálafulltrúa á Íslandi hafa lokið við könnun og skýrslu um rekstrar- og starfsumhverfi upplýsingamiðstöðva á Íslandi. Markmið könnunarinnar var að fá upplýsingar um rekstrarfjármögnun, launakostnað og sértekjur upplýsingamiðstöðva og hvað felst í þeirri þjónustu sem upplýsingamiðstöðvar veita gestum, ferðaþjónustu- og/eða rekstraraðilum. Auk þess að kannað hvaða viðhorf og væntingar umsjónaraðila upplýsingamiðstöðva höfðu í tengslum við samstarf, markaðssetningu, veikleika og styrkleika ferðaþjónustunnar. Um 44% heildarfjármagns aflað með sértekjum Í skýrslunni kemur fram að tæplega hálf milljón gesta kom á upplýsingamiðstöðvarnar árið 2002. Könnun leiddi m.a. í ljós að um 44% heildarfjármagns landshlutamiðstöðva er aflað með sértekjum. Sveitarfélög lögðu fram 23% heildarrekstrarframlags og Ferðamálaráð Íslands um 21%. Úr svörum í könnuninni má lesa að afgerandi meirihluti umsjónaraðila taldi nauðsynlegt að rekstrarframlög hækkuðu verulega til að hægt yrði að auka rekstraröryggi. Sóknarfæri til aukinna teknaUmsjónaraðilar upplýsingamiðstöðva telja besta sóknarfærið í auknum tekjum liggja í bókunarþjónustu en fram kom í könnuninni að sértekjur vegna rekstrar á tjaldsvæðum var besta sértekjulind upplýsingamiðstöðvanna. Samkvæmt könnuninni er afgerandi meirihluti umsjónaraðila upplýsingamiðstöðvanna á þeirri skoðun að náttúrutengd ferðaþjónusta sé helsti styrkleiki greinarinnar. Nauðsynlegt sé að efla samstarf innan greinarinnar og ná fram aukinni hagræðingu til að auka arðsemi rekstrarins. Skýrslan í heild sinni er aðgengileg á vef Byggðastofnunnar. Skoða skýrslu (pdf-skrá 2,2, MB)  
Lesa meira

Talning ferðamanna eftir þjóðerni

Frá árinu 1949 annaðist Útlendingaeftirlitið talningar á ferðamönnum sem komu erlendis frá og þannig var hægt að fylgjast með skiptingu ferðamanna eftir þjóðerni. Í árslok 2000 hættu þessar talningar vegna Schengen samkomulagsins. Engar talningar voru í gangi árið 2001 en í febrúar 2002 hóf Ferðamálaráð brottfarartalningar í Leifsstöð og hafa þær staðið yfir síðan. Ágæt reynsla er komin á þessar talningar Ferðamálaráðs og liggja nú fyrir samanburðarhæfar niðurstöður fyrir mánuðina mars til ágúst fyrir árin 2002 og 2003. Niðurstöðurnar eru aðgengilegar undir liðnum Tölfræði hér á vefnum. Upplýsingarnar eru í Excel skjali og sé það opnað er vert að athuga að það inniheldur alls 13 vinnublöð (Sheet). Á því fyrsta eru niðurstöður allra mánaða frá upphafi talninganna og síðan er samanburður á hverjum mánuði um sig á milli ára (þ.e. fyrir mars til ágúst). Skjalið er uppfært mánaðarlega þegar niðurstöður fyrir næsta mánuð á undan liggja fyrir. Hafa ber í huga að í tölunum eru ekki taldir með farþegar Norrænu eða farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.  
Lesa meira

Hvernig tókst til á Vestnorden?

Sem kunnugt er lauk 18. Vestnorden ferðakaupstefnunni sl. miðvikudag. Hún var að þessu sinni haldin í Þórshöfn í Færeyjum en Ferðamálaráð Færeyja, Grænlands og Íslands standa að kaupstefnunni. Undanfarin ár hefur hún verið haldin á Íslandi annað hvert ár en hitt árið til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi. Næsta Vestnorden kaupstefna verður haldin í Reykjavík að ári liðnu, nánar tiltekið dagana 13.-14. september 2004. Kaupendur komu víða aðÁ Vestnorden kynna ferðaþjónustuaðilar í Færeyjum á Grænlandi og á Íslandi þjónustu sína fyrir ferðaheildsölum utan svæðisins á stuttum fundum sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Að þessu sinni voru það 113 aðilar sem kynntu vöru sína og þjónustu og voru þeir sem fyrr flestir frá Íslandi, eða 70 talsins. Um 90 ferðaheildsalar eða kaupendur komu til að kynna sér hvað þessi fyrirtæki hafa að bjóða og komu þeir víða að. Bróðurparturinn kom frá V.-Evrópu og af einstökum löndum voru flestir frá Danmörku , Þýskalandi, Frakklandi og Svíþjóð. Einnig voru þarna aðilar lengra að komnir t.d. frá Bandaríkjunum og alla leið frá Ástralíu. Afþreyingarþátturinn áberandiMagnús Oddsson ferðamálastjóri hefur sótt allar Vestnorden kaupstefnunnar frá upphafi og getur því vel borið saman hvaða breytingar hafa orðið. Að hans sögn hefur yfirbragð Vestnorden breyst talsvert á undanförnum árum. "Gististaðir, flugfélög og önnur fyrirtæki sem flytja ferðamenn voru áberandi til að byrja með og eru vissulega enn. Að þessu sinni fannst mér hins vegar áberandi hve afþreyingarþáttur ferðaþjónustunnar á þessu Vestnorden svæði er orðinn fjölbreyttur og hve mikið er um að byggð hafi verið upp hvers konar afþreying tengd náttúrunni. Þetta endurspeglar líka þær breytingar sem hafa orðið í ferðamynstri fólks sem ferðast nú meira á eigin vegum og sækist í auknu mæli eftir að upplifa það land sem þeir heimsækja," segir Magnús. Framkvæmdin til fyrirmyndarÁrsæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segir framkvæmd kaupstefnunnar hafa tekist sérlega vel hjá Færeyingum út frá faglegu sjónarmiði. Öll praktísk atriði hafi verið vel af hendi leyst og til að mynda hafi hátíðarkvöldverðurinn verið einkar glæsilegur og vel heppnaður. Nú sé komið að Íslendingum að halda Vestnorden næsta haust og því hafi verið gagnlegt að fylgjast með framkvæmdinni hjá Færeyingum. "Stórt atriði í þessu sambandi er að nú gistu allir um borð í nýju Norrænu. Þetta leiddi til þess að engin vandamál sköpuðust með gistirými eins og því miður hefur verið raunin þau ár sem kaupstefnan hefur verið í Færeyjum og á Grænlandi. Þetta sýndi okkur svart á hvítu hvað tilkoma nýju ferjunnar er gríðarleg vítamínsprauta fyrir ferðaþjónustu Færeyinga og gerbreytir möguleikum þeirra til að standa fyrir viðburðum á borð við Vestnorden," segir Ársæll. Hvar voru Bretar?Ársæll segir ávalt nauðsynlegt að setjast niður að loknum viðburði sem þessum og meta árangurinn. Meginmálið sé hverju kaupstefnan skili ferðaþjónustunni. "Það vekur óneitanlega athygli þegar listinn yfir kaupendur er skoðaður hvað Bretar eru fáir miðað við þyngd þeirra á ferðamarkaði hérlendis. Þetta er mál sem þarf að skoða sérstaklega og finna skýringar á og það munum við gera. Hluti skýringarinnar kann að vera að kaupendur eru að jafnaði heldur færri þegar Vestnorden er haldin utan Íslands en það skýrir ekki allt. Einnig heyrðust raddir á meðal kaupenda um að tímasetningin væri ekki nógu hentug. Betra væri að vera fyrr á árinu og þá áður en aðal ferðamannatíminn hefst. Þetta er bæði gömul og ný umræða sem við verðum að taka afstöðu til með framtíðina í huga," segir Ársæll.  
Lesa meira