Fréttir

Gistinóttum á hótelum í október fjölgaði um 27% á milli ára

Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 74 þúsund en töldust 58 þúsund árið 2002. Þetta er 27% aukning á milli ára. Það er sem kunnugt er Hagstofan sem sér um söfnun þessara upplýsinga. Í takt við tölur FerðamálaráðsAfar áhugavert er að sjá að sú fjölgun sem Hagstofan mælir í gistinóttum á sér samsvörun í talningum Ferðamálaráðs á þeim ferðamönnum sem fara um Leifsstöð. Samkvæmt þeim fjölgaði erlendum ferðamönnum um 26,79% í október 2003 miðað við sama mánuð í fyrra. Tvöföldun á NorðurlandiÁnægjulegt er að í október fjölgaði gistinóttum á milli ára um nánast allt land. Aðeins á Suðurlandi er fækkun sem nam 3%. Mest fjölgaði gistinóttum á Norðurlandi en þar tvöfaldaðist fjöldinn og fór úr 3 þúsundum í 6 þúsund milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinæturnar 55 þúsund í októbermánuði síðastliðnum en voru 44 þúsund árið á undan, sem telst vera 26% aukning. Gistinætur á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fóru úr 4.700 í 5.800 milli ára og fjölgaði þar með um 23%. Á Austurlandi nam aukningin um 20% þegar gistinætur í október fóru úr 1.600 í 2.000 milli ára. Tölur fyrir 2003 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega. Talnaefni á vef Hagstofunnar  
Lesa meira

Annað ferðaþjónustuverkefni á Vestfjörðum styrkt af Norðurslóðaáætlun ESB

Nýtt verkefni á sviði grænnar ferðaþjónustu á Vestfjörðum hefur fengið styrk frá Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Þetta er annað verkefnið sem fer af stað í fjórðungnum með tilstyrk Norðurslóðaáætlunarinnar en um nokkurt skeið hefur verið unnið að svokölluðu Víkingaverkefni sem fjallað var um hér á vefnum á dögunum. Nýja verkefnið mun vera álíka umfangsmikið. Dorothee Lubecki, ferðamálafulltrúi Vestfjarða, fer fyrir Vestfirðingum í verkefninu. Auk innlendra aðila eru þátttakendur í verkefninu í Noregi, Svíþjóð, Skotlandi og Finnlandi. Í Bæjarins Besta á Ísafirði er haft eftir Dorothee að hugmyndina sé að þróa ferðamöguleika og vinna að markaðssetningu með "grænum vinkli". "Markmiðið er að efla þekkingu þeirra sem eru starfandi í afþreyingarfyrirtækjum, auka vöruframboð og styrkja umhverfisvitund. Ætlunin er að mynda sjálfbær ferðaþjónustuverkefni. Þegar verkefninu er lokið viljum við sjá fleiri vörur til sölu og öflugri markaðssetningu. Það hefur vantað hjá mörgum fyrirtækjum, að mínu mati ", segir Dorothee. Áætlað er að vinna á vegum verkefnisins hefjist strax eftir áramót.  
Lesa meira

Stefnir í 320 þúsund ferðamenn í ár

-22% fjölgun erlendra ferðamanna í nóvember Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs Íslands á ferðamönnum sem fara um Leifsstöð sýna að nýliðinn nóvembermánuður skilaði, líkt og aðrir mánuðir ársins, verulega fleiri erlendum ferðamönnum en í fyrra. Aukningin á milli ára nemur rúmum 22%. Verði áframhaldandi aukning í desember með sama hætti stefnir í að ferðamenn verði um 320.000 í ár, sem þar með væri orðið metár í íslenskri ferðaþjónustu. Talningar Ferðamálaráðs sýna að 15.136 erlendir ferðamenn fóru um Leifsstöð í nóvember nú en þeir voru 12.404 í sama tímabili í fyrra. Sé litið til stærstu markaða okkar þá er aukning frá þeim öllum. Fróðlegt er að sjá hversu Bandaríkjamarkaður hefur styrkst og sýnir tæplega 17% aukningu á milli ára. Norðurlöndin og Bretland eru þau lönd sem skila stærstum hluta fjölgunarinnar, Þýskaland og Suður-Evrópa halda áfram með góða aukningu og betri samgöngur við Japan skila mikilli aukningu þaðan. Til þessa er árið 2000 með flesta ferðamenn á einu ári, 302.900 talsins. Frá áramótum hafa rúmlega 296.000 erlendir ferðamenn farið um Leifsstöð og þá er eftir að bæta við þeim sem fara um aðra millilandaflugvelli og farþegum Norrænu. Því er nokkuð ljóst að árið 2003 verður metár í fjölda gesta hingað til lands. Samanburðarhæfar tölurTalningar Ferðamálaráðs hafa staðið yfir frá því í febrúar 2002 og því liggja nú fyrir samanburðarhæfar niðurstöður fyrir tímabilið mars til nóvember fyrir árin 2002 og 2003. Sé þetta tímabil borið saman á milli ára kemur í ljós að erlendir ferðamenn í ár eru 13.75% fleiri en í fyrra. Er aukningin frá öllum löndum sem mæld eru sérstaklega og nemur samtals tæplega 33 þúsund gestum. Af þeim eru stærstu hóparnir frá Bretlandi og Þýskalandi. Athyglisverðar niðurstöðurÁrsæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segir afar áhugavert að sjá þá viðvarandi aukningu sem orðið hefur á komum erlendra ferðamanna og fernt standi uppúr í sínum huga. "Í fyrsta lagi hefur okkur, á undan öðrum Evrópuþjóðum, tekist að snúa við fækkun ferðamanna á frá Bandaríkjunum. Í öðru lagi er það aukningin frá Danmörku og Bretlandi, sem annars vegar skýrist að mínu mati af góðri markaðssetningu og hins vegar af tilkomu Iceland Express. Í þriðja lagi er vert að veita athygli mikilli aukningu frá Evrópu, bæði frá Þýskalandi og ekki síður löndum sunnar í álfunni. Loks er gaman að sjá að Asía er að koma sterkt inn og verður fróðlegt að sjá þróunina þaðan á næsta ári með bættum samgöngum," segir Ársæll. Í töflunum hér að neðan má annars vegar sjá samanburð á milli nóvembermánaðar 2002 og 2003 og hins vegar samanburð á tímabilinu mars-nóvember í ár og í fyrra. Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs má nálgast með því að opna meðfylgjandi Excel-skjal. Fjöldi ferðamanna í nóvember*   2002 2003 Mismunur % Bandaríkin 2.384 2.779 395 16,57% Bretland 2.780 3.363 583 20,97% Danmörk 1.155 1.349 194 16,80% Finnland 296 270 -26 -8,78% Frakkland 530 288 -242 -45,66% Holland 385 391 6 1,56% Ítalía 129 166 37 28,68% Japan 93 213 120 129,03% Kanada 118 101 -17 -14,41% Noregur 1.349 1.703 354 26,24% Spánn 56 68 12 21,43% Sviss 56 50 -6 -10,71% Svíþjóð 1.410 1.812 402 28,51% Þýskaland 503 608 105 20,87% Önnur þjóðerni 1.162 1.975 813 69,97% Samtals: 12,406 15,136 2.730 22,01% Ísland 18.369 15.136 2.730 22,01% Heimild: Ferðamálaráð Íslands, brottfarir erlendra ferðamanna í Leifsstöð. *Hér eru ekki taldir með farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.   Mars - nóvember 2002 og 2003*   2002 2003 Mism. % Bandaríkin 38.242 38.664 402 1,05% Bretland 37.093 43.955 6.862 18,50% Danmörk 17.788 21.554 3.766 21,17% Finnland 5.465 6.295 830 15,19% Frakkland 16.990 18.746 1.756 10,34% Holland 8.699 9.598 899 10,33% Ítalía 7.175 8.392 1.217 10,33% Japan 2.711 3.567 856 31,58% Kanada 1.946 2.216 270 13,87% Noregur 18.807 20.716 1.909 10,15% Spánn 3.538 4.813 1.275 36,04% Sviss 5.440 5.861 421 7,74% Svíþjóð 19.875 21.994 2.119 10,66% Þýskaland 28.432 34.538 6.106 21,48% Önnur þjóðerni 25.787 29.825 4.038 15,66% Samtals: 237.988 270.825 4.038 13,75% Ísland 177.141 242.072 64.931 36,65%  
Lesa meira

Einstakt tækifæri að kynna Ísland fyrir fagfólki í hvataferðageiranum

Í dag hófst á Hotel Nordica alþjóðleg ráðstefna fagaðila úr hvataferðageiranum. Hér er á ferðinni árleg ráðstefna samtaka á þessu sviði, "Society of Incentive & Travel Executives" (SITE). Með samstilltu átaki ýmissa aðila varð Ísland fyrir valinu sem ráðstefnustaður að þessu sinni. Lykilfólk á þessu sviðiErlendir gestir ráðstefnunnar eru um 300 talsins en um einstakt tækifæri er að ræða til að kynna fyrir fagfólki hvaðanæva úr heiminum það besta sem Ísland hafi upp á að bjóða fyrir hvataferðafarþega og einnig Reykjavík sem ráðstefnuborg. "Hingað koma af þessu tilefni fjölmargir aðilar sem geta haft mikil áhrif á það hvaða lönd verða fyrir valinu þegar velja skal áfangastað fyrir hvataferðahópa og ráðstefnur. Þetta er því kjörinn vettvangur fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki til að sýna þá fjölbreyttu möguleika sem í boði eru," er m.a. haft eftir Sigríði Gunnarsdóttur verkefnistjóra í nýútkomnu fréttablaði Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Sigríður segir að ráðstefnan sé að mestu leyti markaðssett af höfuðstöðvum SITE í Bandaríkjunum en einnig hafi verið að störfum verkefnastjórn á Íslandi sem lagt hafi sitt af mörkum í markaðssetningu hennar í Evrópu. Flugleiðahótelin bera ábyrgð á ráðstefnunni en í verkefnastjórn eru ráðstefnu- og ferðaskipuleggjendur frá Atlantik, Ferðaskrifstofu Íslands, Ráðstefnum og fundum, fulltrúi frá Ráðstefnuskrifstofu Íslands og fulltrúar frá Flugleiðahótelunum. Umfangsmikil dagskráDagskrá ráðstefnunnar er umfangsmikil undir yfirskriftinni "Revitalize Your Career: Renew, refresh rejuvenate." Áhugaverðir fyrirlestrar verða í boði alla daga ráðstefnunnar en hún stendur fram á föstudag. Lagt verður áhersla á ýmsa þætti t.d. ólíkar aðferðir við áætlanagerð og útvíkkun starfsemi, áhættustjórnun og öryggismál, sölu- og markaðsmál auk annarra málefna. Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru Steve Zikman, þekktur greinarhöfundur hjá "National Business Travel Association", James H Gilmore sem hefur skrifað fjölda greina um viðskipti í blöð eins og "Harvard Business Review", "The Wall Street Journa"l ofl., og Yossi Ghinsberg höfundur "Heart of the Amazon". Á vef Ráðstefnuskrifstofu Íslands má fræðast nánar um ráðstefnuna  
Lesa meira

Ráðinn forstöðumaður nýrrar skrifstofu Ferðamálaráðs

Lisbeth Jensen hefur verið ráðin forstöðumaður Ferðamálaráðs Íslands fyrir markaðssvæði Norðurlanda. Um nýja stöðu er að ræða og mun Lisbeth hafa aðsetur í Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, sameiginlegu menningarsetri Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga, sem opnað var síðastliðin fimmtudag. Mikilvæg þekking og reynsla á markaðnumEins og fram hefur komið bárust 44 umsóknir um starfið og var Lisbeth ráðin úr þeim hópi. Hún er 32 ára Dani, með menntun í ferðamálafræðum frá Det Danske Turistakademi (Akademiökonom). Lisbeth, sem nú er búsett í Danmörku, starfaði árum saman hjá TEAM ARCTIC en fyrirtækið markaðssetti og seldi mest til Grænlands en einnig til Íslands og Færeyja. Eftir það gegndi hún stjórnendastöðu hjá American Express Corporate Travel á Kastrup flugvelli. Þá hefur hún áður verið búsett í Noregi og starfað í Hótel- og ráðstefnumiðstöðinni Lysebu í Osló. Lisbeth hefur átt áralangt samstarf meðal ferðaskrifstofa, samstarfsaðila og fjölmiðla á Norðurlöndum. Hún mun hefja störf hjá Ferðamálaráði Íslands um miðjan þennan mánuð og er boðin velkomin til starfa. Með opnun skrifstofunnar í Kaupmannahöfn verða landkynningarskrifstofur Ferðamálaráðs Íslands á erlendri grundu orðnar þrjár. Auk þeirra er fjórða markaðssvæðinu, Bretlandi, sinnt frá Íslandi. Fyrir eru skrifstofur í Frankfurt í Þýskalandi, sem sinnir Mið-Evrópu, og í New York, sem sinnir Norður-Ameríkumarkaði.  
Lesa meira

Erlendir ferðamenn keyptu þjónustu fyrir rúmlega 1500 milljónum króna hærri upphæð í sumar en í fyrra

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans um gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu fyrstu 9 mánuði ársins 2003 urðu þær alls 30,4 milljarðar króna en voru á sama tíma í fyrra 30,3 milljarðar. Breytt samsetning teknaMikil breyting verður hins vegar í skiptingu teknanna, þar sem fargjaldatekjur minnka um 1,5 milljarða króna en tekjur vegna neyslu erlendra ferðamanna í landinu aukast um rúman 1,5 milljarða króna. Aukningin í neyslu erlendra gesta á þriðja ársfjórðungi, þ.e. mánuðina júní, júlí og ágúst, er 16,9% miðað við sömu mánuði árið 2002. Minnkandi fargjaldatekjur á árinu um 1,5 milljarða hljóta að skýrast að mestu leyti af þeirri þróun, sem verið hefur í fargjöldum til og frá landinu og fækkun farþega Flugleiða yfir N- Atlanshafið, sem ekki hafa hér viðkomu. Þegar litið er á fyrstu 9 mánuði ársins hafa fargjaldatekjur dregist saman um 11,5%, en tekjur af seldri þjónustu í landinu aukist um 8,3%. Dreifist um allt hagkerfið"Þessir 20 milljarðar, sem erlendir gestir eru að nota hér fyrstu 9 mánuði ársins, dreifast um allt hagkerfið og koma fram hjá hefðbundnum ferðaþjónustufyrirtækjum, verslunum og í vaxandi mæli hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum. Það er í samræmi við þá breytingu sem orðið hefur á ferðamynstri að erlendir gestir fara nú meira en áður um landið á eigin vegum. Aukin notkun bílaleigubíla skilar t.d. auknum hluta tekna til olíufélaga, og þá til ríkisins, þar sem aukin eldsneytiskaup skila auknu vegagjaldi. Þessi 1.500 milljóna króna aukning í sumar hýtur að auka forsendur fyrir arðsemi þjónustufyrirtækjanna," segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.  
Lesa meira

Auglýst eftir samstarfsaðilum að markaðs- og kynningarmálum í ferðaþjónustu

Í frumvarpi til fjárlaga er lagt til að meiri fjármunum verði varið af hálfu stjórnvalda til markaðs- og kynningarmála í ferðaþjónustu árið 2004 en fyrr hefur verið gert á einu ári. Samgönguráðherra hefur falið skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands að hafa umsjón með verkefninu og samningagerð við samstarfsaðila. Tilgangurinn er að gera markaðs- og kynningarmálin enn umfangsmeiri og ákveðið hefur verið að bjóða aðilum að ganga til samstarfs við Ferðamálaráð í markaðs- og kynningarmálum, innanlands og erlendis, á árinu. Hér með er auglýst eftir samstarfsaðilum á fjórum erlendum markaðssvæðum með fyrirvara um samþykki fjárlaga. Framlag samstarfsaðila verði a.m.k. jafnt framlagi Ferðamálaráðs til umræddra verkefna og þeir sem eru reiðubúnir að leggja fram meira gangi að öðru jöfnu fyrir, þegar samstarfsaðilar verða valdir. Alls er um að ræða kr. 175 milljónir, sem er sá hluti markaðsfjármuna næsta árs sem verður varið til samstarfsverkefna á erlendri grundu, og ákveðið hefur verið að skiptist á eftirfarandi hátt: 1. N.- Ameríka Til ráðstöfunar eru annars vegar kr. 30 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni. Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 8 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón. 2. Bretlandseyjar Til ráðstöfunar eu annars vegar kr. 30 milljónir þar, sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni. Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 8 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón. 3. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland Til ráðstöfunar eru annars vegar kr. 30 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni. Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 10 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón. 4. Meginland Evrópu Til ráðstöfunar eru annars vegar kr. 30 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni. Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 12 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón. Annað samstarf óháð markaðssvæðumÞá er auglýst eftir samstarfsaðilum til verkefna vegna ákveðinna markhópa, t.d. vegna hvalaskoðunar, vegna kynningar ákveðinnar vöru eða viðburðar, óháð markaðssvæðum. Til ráðstöfunar eru 17 milljónir kr. þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er 2 milljónir kr. í verkefni. Hverjir geta sótt um?Þegar rætt er um samstarfsaðila getur það átt við fyrirtæki, sveitarfélög, einstaklinga eða samstarfshópa þeirra, um ákveðin markaðs- og/eða kynningarverkefni. Með umsóknum skal fylgja nákvæm útfærsla á viðkomandi kynningu og fjárhags-áætlun. Ekki verður um að ræða styrki vegna verkefna, heldur fjármagn til sameiginlegra verkefna með Ferðamálaráði Íslands. Greiðsla Ferðamálaráðs mun fara fram að lokinni umræddri kynningu, eða í samræmi við greiðslur vegna hennar, og þá gegn framvísun reikninga. Umrædd verkefni skulu unnin á tímabilinu 1. mars 2004 til 28. febrúar 2005. Við afgreiðslu umsókna verður tekið tillit til eftirfarandi þátta: Um verði að ræða almenn kynningar-/markaðsverkefni, sem hvetji neytendur til Íslandsferða.  Sérstaklega verður litið til verkefna sem styrkja ferðaþjónustu alls Íslands á heilsársgrunni.  Litið verður til útbreiðslu þeirra miðla sem áætlað er að nýta í umræddri kynningu. UmsóknareyðublöðSérstök umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofum ráðsins.  Haldnir verða kynningarfundir til frekari upplýsinga í byrjun janúar, sem verða auglýstir sérstaklega. Auglýst verður eftir samstarfsaðilum vegna innlendrar kynningar síðar. UmsóknarfresturÞeir sem áhuga hafa á samstarfi við Ferðamálaráð samkvæmt þessari auglýsingu, sendi umsóknir sínar til skrifstofu ráðsins að Lækjargötu 3, 101 Reykjavík, fyrir 26. janúar 2004.  
Lesa meira

Arfleifð víkinganna nýtt í þágu ferðaþjónustunnar

Í byrjun þessa árs fór af stað fjölþjóðlegt samstarfsverkefni, "Destination Viking", sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Northern Periphery). Verkefnið snýr m.a. að því að halda til haga sögulegri arfleifð víkinganna og nýta hana í þágu ferðaþjónustunnar. Alþjóðlegt verkefni sem stýrt er frá ÍslandiSá hluti "Destination Viking" verkefnisins sem Ísland tekur þátt í nefnist "Saga Lands" og að því koma 18 víkingaverkefni frá sex löndum: Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð, ásamt aðilum frá Labrador, Nýfundnalandi og eyjunni Mön. Þetta er fyrsta Norðurslóðaverkefnið sem er undir stjórn Íslendinga og jafnframt stærsta Evrópuverkefni á sviði menningarferðaþjónustu sem Íslendingar taka þátt í til þessa. Byggðastofnun er í forsvari fyrir verkefnið en verkefnisstjóri er Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar. Sex íslenskir þátttakendur eru í verkefninu: Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða með verkefni um Gísla sögu, Dalabyggð með Eiríksstaði og Leifsverkefnið, Safnahús Vesturlands með Egilsstofu, Grettistak sf. í Húnaþingi vestra, Reykjanesbær með víkingaskipið Íslending og uppsveitir Árnessýslu með verkefni um Þjórsárdal og Þjóðveldisbæinn. Verkefnið er til þriggja ára og lýkur í árslok 2005. Gísla sögu verkefnið á VestfjörðumÍslensku verkefnin er mis langt komin. Gísla sögu verkefnið á Vestfjörðum er nú komið vel af stað, enda á það sér nokkurra ára sögu, að sögn Dorothee Lubecki ferðamálafulltrúi Vestfjarða. "Hugmyndin kviknaði fyrir einum 5-6 árumen þá fórum við að velta fyrir okkur að það þyrfti nauðsynlega að vinna úr þessu efni sem Gísla saga er. Fyrsta skrefið, og grunnurinn að því starfi sem nú er í gangi, var skýrsla sem byggði meistaraprófsritgerð Kerstin Bürling við Rheinische Friedrich-Wilhelms-Universität í Bonn. Kerstin hlaut styrk frá evrópska Leonardo-verkefninu til rannsóknarvinnu hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða frá vori og fram á haust 1999 og hafði áður unnið í hálft ár hjá Atvinnuþróunarfélaginu. Ritgerð hennar er mikill hugmyndabanki um hvernig hægt sé að tengja Gísla sögu ferðaþjónustunni og búa þannig fjölbreyttara menningarefni í hendur ferðafólki," segir Dorothee. Ýmis verkefni í gangiMeðal þess sem gert hefur verið í tengslum við verkefnið á yfirstandandi ári er gerð víkingafatnaðar og vinna við þróa viðburði sem ferðamenn geta tekið þátt í. Er að sögn Dorothee stefnt á að fara af stað með eitthvað slíkt næsta sumar og er þá bæði verið að hugsa um hópa og einstaklinga. Sem vísi að þessu nefnir hún einnig Dýrafjarðarhátíðina sem haldin var í sumar. Þá var ekki alls fyrir löngu stofnað áhugamannafélag um verkefnið og er formaður þess Þórhallur Arason á Þingeyri. "Eitt sem verkefnið gerir ráð fyrir er að þróuð verði söguslóð með upphaf í Önundarfirði þar sem sagan hefst. Síðan vill svo skemmtilega til að atburðir sögunnar gerast margir í nágrenni núverandi þjóðvegar þannig að hægt verður að koma fyrir skiltum meðfram honum þar sem sagan er rakin. Leiðin myndi einnig tengja suður- og norðurhluta Vestfjarða með sameiginlegum söguþræði. Þá er þróun gönguleiða á dagskránni, útgáfa korta og kynningarefnis og fleira mætti telja," segir Dorothee. Samstarfið mikilvægtDorothee segir hið alþjóðlega samstarf afar mikilvægt og fólk hittist reglulega til að bera saman bækur sínar, bæði hér á landi og erlendis. "Það er t.d. mikilvægt að ekki séu allir að gera það sama heldur nái að marka sér vissa sérstöðu. Hinn sameiginlegi þráður, víkingarnir, tengja þó öll verkefnin saman. Þannig mynda eina heild sem t.d. auðveldar kynningu og markaðsstarf. Við erum að velta fyrir okkur ýmsum hlutum í því sambandi, .t.d. auglýsingum, ferðapökkum o.fl."Fyrir áhugasama er vert að benda á vef verkefnisins.  
Lesa meira

Fréttablað Ráðstefnuskrifstofu Íslands er komið út

Þriðja tölublað fréttablaðs Ráðstefnuskrifstofu Íslands er komið út. Efni er fjölbreytt að vanda. Mestur vöxtur á ÍslandiFram kemur m.a. að samkvæmt niðurstöðum Union of International Association, sem árlega tekur saman tölulegar upplýsingar um fjölda og þróun ráðstefna í heiminum, er Ísland hástökkvari í Evrópu með 173% aukningu ef horft er yfir árangur síðustu 10 ára. Þetta er einmitt sá tími sem er liðinn frá því að Ráðstefnuskrifstofa Íslands var sett á laggirnar og sýnir svo ekki verður um villst að ráðstefnuskrifstofa Íslands hefur skilað miklum árangri í markaðssetningu á Íslandi sem ráðstefnulandi, að sögn Rósbjargar Jónsdóttur, verkefnisstjóra Ráðstefnuskrifstofunnar. Undirbúningur fyrir SITE á lokastigiÞá er sagt frá því að undirbúninur er á lokastogi fyrir ráðstefnu SITE (Society of Incentive & Travel Executives), sem eru alþjóðleg samtök fagaðila úr hvataferðageiranum. Samtökin halda árlega ráðstefnu sína á Íslandi 3.-7. desember nk. Dagskrá hennar verður umfangsmikil og er reiknað með að um 300 manns komi til landsins af þessu tilefni. Auk þess sem fjöldi Íslendinga er skráður til þátttöku. Hægt er að nálgast fréttablaðið í pdf-útgáfu á vef Ráðstefnuskrifstofunnar.  
Lesa meira

Norðurbryggja opnuð í dag

Norðurbryggja í Kaupmannahöfn, sameiginlegt menningarsetur Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga, verður opnuð í dag. Ferðamálaráð Íslands mun opna landkynningarskrifstofu í húsinu innan tíðar og sendiráð Íslands hefur þegar flutt starfsemi sína þangað. Hús með merka söguAuk sendiráðs Íslands og sendiskrifstofa Færeyinga og Grænlendinga verða ýmsar stofnanir, fyrirtæki og menningarstarfsemi sem tengist löndunum þremur með aðstöðu í Norðurbryggju. Húsið sjálft á sér merka sögu. Það var byggt sem pakkhús á árunum 1766-67 á uppfyllingu í Kristjánshöfn, gegnt Nýhöfn. Þar var miðstöð verslunar við eyjarnar í Norður Atlantshafi og var húsið upphaflega nefnt "Íslenska pakkhúsið". Hið nýja nafn, Norðurbryggja, vísar til þeirra orða Vigdísar Finnbogadóttur að það sé eins og bryggja til Norður-Atlantshafsins. Vigdís er formaður stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar sem á og rekur húsið og þar eiga einnig sæti fulltrúar Grænlendinga, Færeyinga og Dana. Nú er verið að leggja lokahönd á viðgerðir á húsinu en þær hafa staðið yfir í sjö ár. Hefur allt bryggjusvæði Kaupmannahafnar raunar tekið stakkaskiptum á undanförnum árum í kjölfar mikillar uppbyggingar og endurbóta á gömlum húsum. Skrifstofa FerðamálaráðsSem fyrr segir verður skrifstofa Ferðamálaráðs í Norðurbryggju opnuð innan tíðar en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. Samstarf er haft við ferðamálaráð Færeyja og Grænlands og mun hvert land um sig hafa skrifstofu í húsinu. Þá hafa löndin þrjú stofnað sameiginlegt fyrirtæki til að sinna upplýsingagjöf, dreifingu á bæklingum og fleiru sem hagkvæmt er talið.  
Lesa meira