Fara í efni

Norðurbryggja opnuð í dag

nordurbryggja2
nordurbryggja2

Norðurbryggja í Kaupmannahöfn, sameiginlegt menningarsetur Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga, verður opnuð í dag. Ferðamálaráð Íslands mun opna landkynningarskrifstofu í húsinu innan tíðar og sendiráð Íslands hefur þegar flutt starfsemi sína þangað.

Hús með merka sögu
Auk sendiráðs Íslands og sendiskrifstofa Færeyinga og Grænlendinga verða ýmsar stofnanir, fyrirtæki og menningarstarfsemi sem tengist löndunum þremur með aðstöðu í Norðurbryggju. Húsið sjálft á sér merka sögu. Það var byggt sem pakkhús á árunum 1766-67 á uppfyllingu í Kristjánshöfn, gegnt Nýhöfn. Þar var miðstöð verslunar við eyjarnar í Norður Atlantshafi og var húsið upphaflega nefnt "Íslenska pakkhúsið". Hið nýja nafn, Norðurbryggja, vísar til þeirra orða Vigdísar Finnbogadóttur að það sé eins og bryggja til Norður-Atlantshafsins. Vigdís er formaður stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar sem á og rekur húsið og þar eiga einnig sæti fulltrúar Grænlendinga, Færeyinga og Dana. Nú er verið að leggja lokahönd á viðgerðir á húsinu en þær hafa staðið yfir í sjö ár. Hefur allt bryggjusvæði Kaupmannahafnar raunar tekið stakkaskiptum á undanförnum árum í kjölfar mikillar uppbyggingar og endurbóta á gömlum húsum.

Skrifstofa Ferðamálaráðs
Sem fyrr segir verður skrifstofa Ferðamálaráðs í Norðurbryggju opnuð innan tíðar en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. Samstarf er haft við ferðamálaráð Færeyja og Grænlands og mun hvert land um sig hafa skrifstofu í húsinu. Þá hafa löndin þrjú stofnað sameiginlegt fyrirtæki til að sinna upplýsingagjöf, dreifingu á bæklingum og fleiru sem hagkvæmt er talið.