Fara í efni

Ráðinn forstöðumaður nýrrar skrifstofu Ferðamálaráðs

Lisbeth Jensen hefur verið ráðin forstöðumaður Ferðamálaráðs Íslands fyrir markaðssvæði Norðurlanda. Um nýja stöðu er að ræða og mun Lisbeth hafa aðsetur í Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, sameiginlegu menningarsetri Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga, sem opnað var síðastliðin fimmtudag.

Mikilvæg þekking og reynsla á markaðnum
Eins og fram hefur komið bárust 44 umsóknir um starfið og var Lisbeth ráðin úr þeim hópi. Hún er 32 ára Dani, með menntun í ferðamálafræðum frá Det Danske Turistakademi (Akademiökonom). Lisbeth, sem nú er búsett í Danmörku, starfaði árum saman hjá TEAM ARCTIC en fyrirtækið markaðssetti og seldi mest til Grænlands en einnig til Íslands og Færeyja. Eftir það gegndi hún stjórnendastöðu hjá American Express Corporate Travel á Kastrup flugvelli. Þá hefur hún áður verið búsett í Noregi og starfað í Hótel- og ráðstefnumiðstöðinni Lysebu í Osló. Lisbeth hefur átt áralangt samstarf meðal ferðaskrifstofa, samstarfsaðila og fjölmiðla á Norðurlöndum. Hún mun hefja störf hjá Ferðamálaráði Íslands um miðjan þennan mánuð og er boðin velkomin til starfa.

Með opnun skrifstofunnar í Kaupmannahöfn verða landkynningarskrifstofur Ferðamálaráðs Íslands á erlendri grundu orðnar þrjár. Auk þeirra er fjórða markaðssvæðinu, Bretlandi, sinnt frá Íslandi. Fyrir eru skrifstofur í Frankfurt í Þýskalandi, sem sinnir Mið-Evrópu, og í New York, sem sinnir Norður-Ameríkumarkaði.