Fara í efni

Ferðamálaráð Íslands og 14 íslensk fyrirtæki á einni stærstu ferðasýningu í heimi

Málþing um framtíð ferjusiglinga yfir Breiðafjörð
Málþing um framtíð ferjusiglinga yfir Breiðafjörð

Í síðustu viku stóð yfir hin árlega ferðasýning World Travel Market í London en hún er ein hin stærsta sinnar tegundar í heimi. Ferðamálaráð Íslands var á meðal þátttakenda líkt og undanfarin ár ásamt 14 íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Sýningin þótti takast vel og var gott hljóð í íslensku sýnendunum að henni lokinni.

Sýningin var  haldin í annað sinn í nýrri sýningahöll, ExCel í Docklands, austast í London. Öll aðstaða til sýningarhalds er eins og best verður á kosið og sýningarhöllin sjálf er mikið mannvirki, rúmir 2 km að lengd. Hver fermetri var þó nýttur til hins ýtrasta enda koma þarna saman yfir 5.000 sýnendur frá um 190 löndum. Heildarfjöldi þátttakenda, að starfsfólki sýningarinnar meðtöldu, er á bilinu 45-50 þúsund enda var álagið á samgöngukerfi svæðisins gríðarlegt.

Markmiðið að skapa viðskipti
Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs á Bretlandi, hefur sótt World Travel Market nokkur undanfarin ár. Hún segir að vel hafi tekist til í ár að sínu mati. ?Ég er mjög ánægð með hvað það var mikið að gera á íslenska sýningarsvæðinu og sérstaklega ánægjulegt hvað miðvikudagurinn, sem er opinn fyrir almenning, kom sterkt inn í ár. Markmiðið með svona sýningu er auðvitað fyrst og fremst að skapa viðskipti fyrir íslenska ferðaþjónustu og ég heyri ekki annað á íslensku þátttakendunum en að þeir séu ánægðir með árangurinn. Miðað við sýninguna í fyrra þá fannst mér sýningin nú enn betri. Við fengum mun betri stað í sýningarhöllinni í ár. Í fyrra voru  ýmsar ytri aðstæður sýningunni óhagstæðar m.a. vegna ástandsins í heimsmálunum og síðan settu verkföll í Bretlandi allt úr skorðum. Nú voru allar aðstæður til fyrirmyndar og sýningarhöllin sjálf auðvitað alveg frábær,? segir Sigrún.

Samstarf Norðurlandanna
Á undanförnum árum hefur verið haft samstarf við hin Norðurlöndin um leigu á sameiginlegu sýningarsvæði og gerð sameiginlegs sýningarbáss. Sigrún segir að þetta  fyrirkomulag verði tekið til endurskoðunar fljótlega eftir áramót, en þá verður haldinn fundur í Reykjavík með fulltrúum frá hinum Norðurlöndunum þar sem árangur síðustu sýningar verður ræddur og tekin ákvörðun um næstu sýningu.

14 íslensk fyrirtæki
Sem fyrr segir tóku 14 íslensk fyrirtæki þátt í World Travel Market í ár sem sýnendur. Þetta voru Avis bílaleiga, Bláa Lónið, Destination Iceland, Ferðaskrifstofa Guðmundar Jónassonar, Ferðaskrifstofa Íslands, Flugfélag Íslands, Flugleiðahótelin og Hótel Edda, Hótel Borg, Höfuðborgarstofa, Iceland Excursions Allrahanda, Iceland Express, Icelandair, Radisson SAS Hótel Saga og Smyril Line.

Mjög ánægður með árangurinn
Lúðvík Georgsson, svæðisstjóri alþjóðasviðs Iceland Express, segist mög ánægður með árangur sýningarinnar. ?Við hjá Iceland Express vorum þarna að taka þátt í fyrsta skipti og vissum þ.a.l. ekki alveg á hverju við máttum eiga von. En það var mjög mikið að gera hjá okkur allan tímann og til okkur voru m.a. að koma nýir aðilar sem ekki hafa verið að bjóða upp á ferðir til Íslands hingað til. Fólk er virkilega að átta sig á að með lágum fargjöldum hafa opnast fleiri valkostir í ferðum til landsins. Einnig var ég ánægður með þann jákvæða anda og bjartsýni sem mér fannst ríkja á sýningunni í garð ferðaþjónustu á Íslandi. Fólk innan greinarinnar hefur virkilega tekið eftir þeirri aukningu sem orðið hefur á ferðum til landsins. Vindarnir blása því norður nú um stundir. Vissulega var ansi þröngt um okkur í íslenska básnum og stundum erfitt fyrir alla að komast fyrir með viðskiptavinum sínum en það lögðust allir á eitt um að vera jákvæðir og láta hlutina ganga upp,? segir Lúðvík.

Hann segist því telja fulla ástæðu til bjartsýni hjá Iceland Express fyrir komandi mánuði en sem kunnugt er hefur félagið tilkynnt að frá 1. apríl muni það fjölga ferðum um helming. Þannig mun það fljúga tvisvar á dag bæði til London og Kaupmannahafnar.

Undirbúningurinn skiptir öllu máli
Ferðaskrifstofa Íslands / Iceland Travel hefur tekið þátt í World Travel Market mörg undanfarin ár og segist Sigrún H. Sigmundsdóttir, sölu- og markaðsstjóri fyrirtækisins, telja þetta með betri sýningum sem haldnar eru. ?Við erum afar ánægð með árangurinn, eins og jafnan áður, og það var aldrei spurning í okkar huga hvort við ættum að vera með eða ekki. Mér þótti sýningin núna fara frekar hægt af stað, sem voru smá vonbrigði, en hún tók síðan vel við sér. Það sem skiptir öllu máli í sambandi við svona sýningu er að vera búin að undirbúa sig vel, hafa samband við viðskiptavini fyrir fram og láta vita af sér. Það þýðir ekki að mæta og halda að fólk streymi inn í básinn þinn. Þannig gerast hlutirnir ekki. Við hjá Ferðaskrifstofu Íslands vinnum þetta mjög markvisst sem ég tel að sé að skila okkur góðum árangri. Það kostar líka mikla fjármuni að taka þátt í slíkum sýningum, þannig að afraksturinn þarf að réttlæta útlátin.

Varðandi kostnað við þátttöku í sýningunni segist Sigrún hafa heyrt þá umræðu að líkast til væri ódýrara fyrir Ísland að vera með sér bás, frekar en í samstarfi með hinum Norðurlöndunum eins og verið hefur. Hún segist þó þeirrar skoðunar að halda eigi samstarfi Norðurlandanna áfram og jafnvel nýta það á fleiri sviðum. ?Ég hef þá tilfinningu að samstarfið sé að skila okkur verulegum ávinningi,? segir Sigrún.

Myndir frá WTM 2003