Fara í efni

Erlendir ferðamenn keyptu þjónustu fyrir rúmlega 1500 milljónum króna hærri upphæð í sumar en í fyrra

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans um gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu fyrstu 9 mánuði ársins 2003 urðu þær alls 30,4 milljarðar króna en voru á sama tíma í fyrra 30,3 milljarðar.

Breytt samsetning tekna
Mikil breyting verður hins vegar í skiptingu teknanna, þar sem fargjaldatekjur minnka um 1,5 milljarða króna en tekjur vegna neyslu erlendra ferðamanna í landinu aukast um rúman 1,5 milljarða króna. Aukningin í neyslu erlendra gesta á þriðja ársfjórðungi, þ.e. mánuðina júní, júlí og ágúst, er 16,9% miðað við sömu mánuði árið 2002. Minnkandi fargjaldatekjur á árinu um 1,5 milljarða hljóta að skýrast að mestu leyti af þeirri þróun, sem verið hefur í fargjöldum til og frá landinu og fækkun farþega Flugleiða yfir N- Atlanshafið, sem ekki hafa hér viðkomu. Þegar litið er á fyrstu 9 mánuði ársins hafa fargjaldatekjur dregist saman um 11,5%, en tekjur af seldri þjónustu í landinu aukist um 8,3%.

Dreifist um allt hagkerfið
"Þessir 20 milljarðar, sem erlendir gestir eru að nota hér fyrstu 9 mánuði ársins, dreifast um allt hagkerfið og koma fram hjá hefðbundnum ferðaþjónustufyrirtækjum, verslunum og í vaxandi mæli hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum. Það er í samræmi við þá breytingu sem orðið hefur á ferðamynstri að erlendir gestir fara nú meira en áður um landið á eigin vegum. Aukin notkun bílaleigubíla skilar t.d. auknum hluta tekna til olíufélaga, og þá til ríkisins, þar sem aukin eldsneytiskaup skila auknu vegagjaldi. Þessi 1.500 milljóna króna aukning í sumar hýtur að auka forsendur fyrir arðsemi þjónustufyrirtækjanna," segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.