Fara í efni

Metfjöldi umsókna um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum

Námskeið Ferðamálasamtaka Íslands
Námskeið Ferðamálasamtaka Íslands

Um 160 umsóknir bárust Ferðamálaráði um styrki til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum en umsóknarfrestur rann út sl. föstudag. Þetta er meira en nokkru sinni fyrr. Til þess ber að líta að nú var auglýst eftir umsóknum af öllu landinu en á undanförnum árum hafa ákveðnir landshlutar verið teknir fyrir á hverju ári.

Ljóst er að styrkumsóknir eru samkvæmt venju umtalsvert hærri en það fé sem er til úthlutunar. Heildarupphæðin er að þessu sinni 10 milljónir króna, sem er veruleg hækkun frá því í fyrra þegar 6 milljónir króna voru til skiptanna. Til samanburðar má geta þess að í fyrra voru veittir styrkir til úrbóta í umhverfismálum á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Þá voru 6 milljónir króna til úthlutunar en heildarupphæð styrkbeiðna hljóðaði upp á ríflega 103 milljónir króna. Af þessum 103 milljónum voru a.m.k. 85 til 90 milljónir sem féllu að þeim viðmiðunarreglum sem farið er eftir við úthlutun styrkja og því fengu margir neikvætt svar frá Ferðamálaráði þó svo að verkefni þeirra væru áhugaverð og þörf. Alls hlutu 29 aðilar styrki á árinu 2002.

Fyrir liggur að talsverðan tíma tekur að fara í gegnum og meta umsóknir sem bárust að þessu sinni. Má gera ráð fyrir að einhverjar vikur líði áður en niðurstaða liggur fyrir. Sem dæmi um verkefni sem hlotið hafa styrki á síðustu árum má nefna gönguleiðamerkingar, stígagerð, skiltagerð og styrki til að koma upp salernisaðstöðu. Styrkirnir eru veittir til framkvæmda á vegum einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga. Skilyrði er að framkvæmdirnar stuðli að verndun náttúrunnar, samhliða bættum aðbúnaði ferðamanna. Nauðsynlegt er að framkvæmdir stangist ekki á við gildandi skipulag og séu unnar í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, landeigendur, náttúruverndarnefndir og aðra aðila sem með málið hafa að gera s.s. Umhverfisstofnun. Miðað er við að þeim hluta verksins sem sótt er um styrk til sé lokið eigi síðar en 15. september 2003.