Fara í efni

Samstarf fyrirtækja í ferðaþjónustu rannsakað

MennvidFludir
MennvidFludir

Arnar Már Ólafsson og Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektorar við Háskólann á Akureyri, hafa undanfarið unnið að rannsókn sem miðar að því að kanna hvernig samstarfi fyrirtækja í ferðaþjónustu er háttað. Arnar Már er einnig forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands sem kunnugt er. Á ráðstefnu í félagsvísindum, sem haldin var við Háskóla Íslands á dögunum, fluttu þau erindi þar sem þau kynntu rannsóknina, aðferðafræðina sem beitt er og frumniðurstöður.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kortleggja það samstarf sem átt hefur sér stað meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu á landsbyggðinni, greina hvaða þættir leiða af sér árangursríkt samstarf og finna með hvaða hætti ferðaþjónustuaðilar á landsbyggðinni geta tileinkað sér þá. Tilgangurinn með þessu er að stuðla að aukinni samkeppnishæfni ferðaþjónustu á landsbyggðinni og þannig bæta arðsemi þessara fyrirtækja. Einnig er von að niðurstöðurnar virki sem hvatning til frekara samstarfs.

Frumherjastarf
Ofangreint efni, þ.e. samstarf ferðaþjónustufyrirtækja og hvernig það getur bætt afkomu og arðsemi, er sígilt umræðuefni innan greinarinnar. Þetta er hins vegar fyrsta rannsóknin á þessu sviði þar sem beitt er viðurkenndum fræðilegum aðferðum. Þannig er um ákveðið frumherjastarf að ræða og afar lofsvert framtak, því með slíkum markvissum vinnubrögðum fást niðurstöður sem hægt er að byggja á.

Einkennandi þættir fyrir samstarf
Arnar Már og Hafdís Björg kynntu á áðurnefndri ráðstefnu frumniðurstöður fyrir Skagafjörð en það var fyrsta svæðið sem tekið var fyrir. Niðurstöðurnar benda til að ákveðnir þættir virðast vera nauðsynlegir til þess samstarf gangi upp á meðan aðrir koma í veg fyrir það. Meðal þátta sem virðast nauðsynlegir farsælu samstarfi eru gagnkvæmt traust, nægt, öruggt fjármagn, hlutleysi stjórnenda og vettvangur fyrir samskipti á meðan fjármagnsskortur, þekkingarleysi, persónulegur ágreiningur og vantraust eru meðal þátta sem koma í veg fyrir samstarf. Áhugavert verður að vita hvort sömu þættir eru einkennandi fyrir hin svæðin sem taka á fyrir í rannsókninni en niðurstöður verða unnar frá hverju svæði fyrir sig sem svo í lokin verða tengdar saman og settar fram sem ein heild. Auk Skagafjarðar verða Húnavatnssýslur, Eyjafjörður og Þingeyjarsýslur teknar fyrir til að byrja með.