Fara í efni

Heilsutengd ferðaþjónusta eflist í Stykkishólmi

Vefsvæði Ferðamálaáætlunar 2006-2015 opnað
Vefsvæði Ferðamálaáætlunar 2006-2015 opnað

Eftir að í ljós kom að heita vatnið sem fannst við Hofsstaði í nágrenni Stykkishólms árið 1997 er einstaklega græðandi, hefur verið draumur margra að setja af stað ferðaþjónustu sem nýtti kosti vatnsins og staðsetninguna í Stykkishólmi. Nú má segja að sá draumur sé orðinn að veruleika með stofnun Temple Spa.

Heilsuefling Stykkishólms, sem er í eigu Stykkishólmsbæjar og nokkurra fjárfesta, er eigandi Temple Spa. Markmið félagsins er að byggja upp í Stykkishólmi heilsutengda þjónustu á heimsmælikvarða. "Stykkishólmur uppfyllir í raun öll skilyrði fyrir starfrækslu hvíldar- og hressingarmiðstöðvar og heita vatnið okkar hefur einstaka eiginleika og vottun frá þýsku stofnuninni Institut Fresenius, sem er ein virtasta stofnun í heiminum á þessu sviði," segir Erla Björg Guðrúnardóttir, framkvæmdastjóri Temple Spa.

Stykkishólmur í stað útlanda
Temple Spa býður á næstunni upp á heilsuhelgar í Stykkishólmi, þar sem tvinnað er saman námskeiðum, hreyfingu, sælkeramat, menningu og öðru góðgæti. Erla Björg segist bjartsýn á framhaldið. "Í kjölfar breytinga á högum fólks á síðustu árum, einkum aukinnar velmegunar og breytts lífsstíls, hafa kröfur um sérhæfða, heilsutengda þjónustu aukist. Fólk hefur vaxandi þörf fyrir dagskrá sem lýtur að því að efla og bæta andlegt og líkamlegt ástand sitt. Við sækjumst í vaxandi mæli eftir endurnæringu frá erli dagsins og þeirri streitu sem því fylgir að vera til í samfélagi nútímans. Margir leita til útlanda í þessum tilgangi en nú býðst fólki að koma til okkar og njóta einstakrar þjónustu, á viðráðanlegu verði. Okkur er mikið í mun að veita gestum besta mögulega þjónustu og að þeim líði sem best. Þannig er markmið okkar að gestir fari heim frískari, afslappaðri og tilbúnir að takast á við lífið og verkefnin sem eru framundan," segir Erla Björg.